Möguleikar á "1 plús 1" eða "2 plús 1" flugvélum.

Ég hef áratugum saman gælt við hugmyndina um "eins og hálfs hreyfils" ( 1 plús 1) flugvél. Meira að segja ákveðna gerð flugvélar, Cessna Skymaster, sem ég kalla hér "Draumavél 1".Cessna_Super_Skymaster_337F_N793DS

Hugmyndin varðandi þessa tilteknu gerð sex sæta flugvélar byggist á því að nýta sér annars vegar aukið öryggi tveggja hreyfla án þess að það hafi í för með sér tvöfaldan kostnað en hins vegar á því að flugvélar þurfa mest á afli og öryggi tveggja hreyfla að halda í flugtaki, næst mestu afli í klifri, en minnstu afli á farflugi eftir að farflughæð er náð og í aðflugi.

Þá er auk þess flogið svo hátt að ekki þarf að vera með báða hreyfla í gangi, heldur nóg að hafa annan til vara. 

Cessna 336 Skymaster er með föstum hjólum og óvenju kraftmikil flugvél, miðað við þyngd, með tvo Continental 0-360 hreyfla, en hægt er að auka afl þeirra upp í 210 hestöfl, eða 420 hestöfl alls.

Það er óvenjulega mikið afl miðað við þyngd vélarinnar, en hún er aðeins um 1100 kíló tóm.

Cessna 337 Skymaster er með uppdraganlegum hjólum og því nokkuð þyngri en á hinn bóginn með minni loftmótstöðu og því hraðskreiðari. Cessna_Skymaster_O-2_5 

Aðalatriðið varðandi báðar flugvélarnar, eins og sést á myndinni, er þó að hreyflarnir eru í beinni átakslínu, annar á nefinu og hinn aftan á, þannig að enda þótt slökkt sé á öðrum þeirra, verður átakið ekki skakkt með tilheyrandi loftmótstöðu eins og gerist þegar flogið er á öðrum hreyfli á tveggja hreyfla vél með hreyflana á sitt hvorum vængnum.

Af flugvélinni á neðri myndinni, sem notuð var af bandaríska hernum, m.a. í Víetnam, er slökkt á fremri hreyflinum og skrúfan "fjöðruð". Svo auðvelt er að fljúga vélinni á öðrum hreyfli að ekki þarf full "tveggja hreyfla réttindi" til að fljúga henni. 

Hugmyndin gefur mest af sér ef flugvélin er létthlaðin. 

Þá er farið í loftið á fullu afli beggja hreyfla, og síðan klifrað á um 75% afli upp í farflughæð.

Þegar þangað er komið, er slökkt á fremri hreyflinum en haldið áfram á 75% afli aftari hreyfilsins, sem gefur meira klifur en framhreyfillinn.

Dregnar yrðu sérsmíðaðar lokur fyrir loftinntök dauða hreyfilsins á farfluginu og honum haldið volgum með miðstöðvarlofti þar til rétt fyrir lendingu, þegar hann er ræstur svo að hægt verði að lenda með hámarksöryggi tveggja gangandi hreyfla í lendingunni.

Oftast yrði þó óþarfi að ræsa hreyfilinn í aðflugi ef aðstæður eru góðar og brautin löng. 

 Dæling miðstöðvarlofts á flugi inn á dauðan fremri hreyfilsins er hugsuð til að koma í veg fyrir kalt start hans með tilheyrandi aukasliti, ef hann er ræstur á flugleiðinni eða við lendingu.

Þar með er hægt að "logga" eða skrá flugtíma hreyflanna í samræmi við raunverulegan gangtíma þeirra hvors um sig, en hæpið yrði að gera slíkt ef annar þeirra er með miklu lengri gangtíma kaldur heldur en hinn.

Draumaflugvélin mín yrði með skammbrautarbúnaði á vængjun (Robertson STOL). Ef hún yrði Cessna 336 yrði hún með stækkuðum hjólum til að gefa henni yfirburðagetu á stuttum og ófullkomnum brautum.  

"Draumaflugvél nr.2" er síðan sérhönnuð flugvél byggð á svipaðri hugsun, sem gæti þess vegna verið "blendingsflugvél" knúin mismunandi orkugjöfum.

Ég hef velt vöngum yfir mörgum mismunandi lausnum á því sem of langt mál yrði að reifa hér, jafnvel þriggja hreyfla flugvélar þar sem einn hreyfill gæti verið látinn vera óvirkur í farflugi og aðflugi en hinir tveir í gangi. 


mbl.is Blendingsflugvélar mögulegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Þriggja hreyfla? Ju52 tongue-out

Jón Logi (IP-tala skráð) 27.12.2014 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband