"Tökum hana! Tökum hana!" ?

Til eru dæmi um það þegar yfirvöld í ýmsum ríkjum virðast hafa sett sér það að markmiði í krafti valds síns að stöðva ákveðna einstaklinga.

Virðist þá stundum litlu skipta hvaða stjórnarfar ríkir í viðkomandi landi, og þessi einstöku atvik. sem mér koma í hug, eru ekkert dæmi um það út af fyrir sig. 

Mál ritstjóra rússnesks tímarits, sem yfirvöldum þar í landi líkar illa við, kallar fram minningu hjá mér úr Gálgahrauni 21. október 2013.

Við komum þangað gangandi saman, ég og Eiður Svanberg Guðnason að því svæði við Garðastekk þar sem við höfðum oft áður notið útiveru í faðmi náttúrunnar. 

Á svæðinu voru tæplega hundrað manns, blanda af útivistarfólki, lögreglumönnum og fjölmiðlafólki. 

Þarna urðum við Eiður viðskila og ég gekk áfram inn í þessa sérkennilegu blöndu fólks, en að Eiði þustu nokkrir lögreglumenn eftir að einn þeirra hafði heyrst skipa fyrir: "Tökum hann, tökum hann!"

Eiður spurði hvers vegna til stæði að handtaka hann og var svarað að hann væri á bannsvæði. 

Eiður kvaðst ekki sjá þess nein merki og taldi sig vera í fullum rétti samkvæmt landslögum að standa þar sem hann stæði. 

Var honum þá sagt það að verið væri að merkja svæðið með bandi. Eiður kvaðst ekki sjá neitt band þar sem hann stæði en nú komu starfsmenn og lögreglumenn að honum með band sem þeir voru að merkja bannsvæðið með. 

Eiður lenti fyrir utan bandið og kom þá fát á lögreglumenn. Hugðist einn þeirra þá stjaka Eiði inn fyrir bandið svo að hægt væri að handtaka hann þar! 

Það tókst ekki og síðar sagðist Eiður hafa ákveðið að gera þessum mönnum það ekki til geðs að þeir gætu handtekið hann, þótt þeir greinilega ætluðu sér það. 

Fát lögreglumanna í Gálgahrauni hélt síðar áfram, því að hjón sem voru samferða á ferðum sínum þennan dag fengu misjafna meðferð. Þau voru bæði handtekin og ætlunin virtist að bera þau inn í lögreglubíl og fara með þau í drjúglanga fangavist, en svo var að sjá sem þyngd þeirra skipti máli, því að hún, létt og nett, var færð alla leið í fangavistina en þeir gáfust upp á að bera hann, að því er virtist af því að hann var miklu þyngri.

Í framhaldinu var aðeins hún ákærð og sakfelld fyrir dómi fyrir að "óhlýðnast ítrekað" fyrirmælum lögreglu" en hann var ekki ákærður fyrir nákvæmlega sama meint brot!

Ákæran fór sem sagt ekki eftir meintu broti heldur eftir þyngd! 

Ég hef sjaldan orðið meira undrandi heldur en þegar aðeins níu af 25 sem handtekin voru þennan dag voru ákærð og dæmd fyrir "að óhlýðnast ítrekað fyrirmælum lögreglu", því að ég og fleiri, sem ekki vorum ákærð, höfðum óhlýðnast nákvæmlega sams konar fyrirmælum lögreglu á sama stað fjórum vikum fyrr og þar með "óhlýðnast ítrekað".

Allt þetta kemur nú upp í hugann við fréttirnar frá Moskvu, og svo að tekin séu dæmi frá þremur löndum með stjórnarfar á mismunandi stigi kemur upp í hugann nokkurra ára gamalt mál frá Bandaríkjunum.

Einn allra frægasti flugmaður og listflugmaður heims, Bob Hoover, var orðinn 75 ára, en framkvæmdi samt listflugsatriði, sem engir hafa getað leikið eftir honum.

Síðan gerðist það að í lögboðinni læknisskoðun var honum neitað um læknisvottorð hjá fluglækni FAA "af heilsufarsástæðum".

Hoover vissi ekki til þess að neitt amaði að honum og fór því í læknisskoðun hjá flugmálayfirvöldum í Ástralíu, sem hann flaug í gegn, gallhraustur. Með það vottorð og áströlsk flugréttindi upp á vasann hélt hann síðan áfram að fljúga á flugsýningum víða um heim og framkvæma áfram sín einstöku listflugsatriði.

Hann fór nú í skaðabótamál við bandarísku flugmálastjórnina og í ljós kom að á rabbfundi innanhúss þar á bæ höfðu menn rætt um það að kominn væri tími til þess að láta það ekki viðgangast að Hoover hefði gilt flugmannsskírteini, þetta gamalmenni, sem hann væri orðinn, enda hefðu atriðin alla tíð verið illa séð og hið besta mál að koma þeim út úr heiminum.

Finna þyrfti ástæðu til þess að svipta hann réttindunum og varð að ráði að læknir stofnunarinnar ynni það verk, sem hann gerði síðan í krafti síns valds án þess að hafa nein óyggjandi sönnunargögn í hendi.

Yfirvöldin misreiknuðu sig hins vegar í þessu máli, því að þeir vanmátu ofurvald sitt og einnig bæði andlegan og fjárhagslegan styrk Hoovers, og áttu ekki von á því að "gamalmennið" myndi taka slaginn við þau.

Þau skíttöpuðu málinu og neyddust til að láta Hoover hafa skírteini sitt á ný og taka afleiðingunum af valdníðslu, en við slíku liggja hörð viðurlög i Bandaríkjunum. 

Ég átti þess kost að taka sjónvarpsviðtal við hann 77 ára gamlan eftir vel heppnað glæsiatriði hans á flugsýningu í Flórída og spurði hann hvort hann kviði því ekki að skyndilega myndi hann ekki geta framkvæmt sitt einstæða snilldaratriði og að þá myndu flugmálayfirvöld hlakka yfir óförum hans.

Hann brosti og svaraði: "Hafðu ekki áhyggjur. Ég verð fyrstur allra til að vita það." Eða á ensku: "Do´nt worry, - I will be the first to know."

Hann stóð við þau orð sín og dró sig í hlé nokkrum árum síðar án atbeina flugmálayfirvalda og án þess að hafa fipast við sín mögnuðu flugatriði.

En í dag heyri ég fyrir mér orðin sem hugsanlega hafa verið sögð þegar ákveðið var að fluglæknirinn negldi Hoover: "Tökum hann! Tökum hann!" ("Let´s nail him! Let´s nail him!") 


mbl.is „Ég hef engin lög brotið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvar er Hanna Birna Kristjánsdóttir?!

Ég er viss um að hún var hér öll í gær.

Þorsteinn Briem, 28.12.2014 kl. 13:02

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um lítilmagnann laug hún mest,
lítill hennar sómi,
í því var hún einkum best,
að allra sjalla dómi.

Þorsteinn Briem, 28.12.2014 kl. 13:09

3 identicon

Kristin gildi, kristin gildi hrópa nú fullir hræsni ignorant hægri öfgamenn, íslenska teboðið. Valdgræðgin, spillingin, aukin misskipting og meiri ójöfnuður, allt í nafni hinna kristnu gilda, hallelúja.

Nepotismi og kleptocracy, virðingarleysi gegnvart þeim sem eiga bágt í okkar samfélagi, fólk sem þeir kalla múg og skríl, allt í nafni hinna kristnu gilda. Innherjaviðskipti Bjarna Bens og Kögunar fjölskyldunnar, allt í nafni hinna kristnu gildi, allt í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen.

Og kirkjunnar þjónar taka þátt í ósómanum, hlussast í Hörpu til biðja Guð að blessa kvótagreyfa, forseta ræfilinn, útrásarbófa, plebbana. Tóku jafnvel með bros á vör þátt í Hátíð vonar "son of a bitch" Franklin Graham's, eins aumasta teboðara vestan hafs.

Engu að síður, nýárskveðjur frá Sviss.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.12.2014 kl. 15:03

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

 Já Ómar ekki er þetta nú skemmtileg reynsla af lögreglunni á Íslandi. Ætli það þurfi ekki að gera aðra "skýrslu" og nú frá almennum borgurum um framgöngu lögreglunnar í hinum ýmsu mótmælum?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.12.2014 kl. 16:58

5 identicon

nettröll lúmskur læðist hér

nístir inn að beini

Framsóknarmaður mikill er

auminginn hann Steini.

Montar sig, unnið hjá Mogga

Skrítið, hann fær hvergi að blogga

óttalegur, lítill sveppi

betur geymdur inn á Kleppi

HH (IP-tala skráð) 28.12.2014 kl. 19:57

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður sagt það hér á síðunni og get endurtekið það nú að lögreglumenn á Íslandi eru upp til hópa prýðisfólk og margir þeirra afbragðsmenn. 

Þeir eru hins vegar þverskurður af þjóðinni, sem betur fer segi ég, því að það auðveldar samskipti þeirra við þjóðina. Þeim getur sumum verið mislagðar hendur eins og gengur og gerist hjá okkur öllum. 

Einstaka detta í þá gryfju að fara offari og skemma með því fyrir hinum.

Síðan eru aðrir, sem eru annars sinnis. Einn heyrðist segja, þegar hann gekk af vettvangi við Garðastekk: "Ég get þetta ekki." 

Ómar Ragnarsson, 28.12.2014 kl. 20:16

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veit ég vel Ómar, en því miður eru þarna innan um menn sem ættu alls ekki að vera í búning af neinu tagi.  Í sambandi við lögregluna segi ég því, þar þarf að vera innra eftirlit sem skoðar málin ofan í kjölin þegar mál koma upp.  Það er engan veginn ásættanlegt að lögreglan gefi út yfirlýsingar um sakleysi lögregluþjóna þegar augljóst er að þeir hafa brotið af sér.  Slíkt gerir bara ekkert annað en að minnkra traustið á lögreglunni.  Og það er slæmt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.12.2014 kl. 20:23

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki vantar hér nafnleysingja- og teboðsskríl Sjálfstæðisflokksins, frekar en fyrri daginn.

Hefur þú bloggað hér á Moggablogginu, "HH"?!

Undirritaður á fimm þúsund vini á Facebook og bloggaði hér á Moggablogginu áður en Davíð Oddsson varð ritstjóri Moggans.

Og hef þar að auki verið blaðamaður á Morgunblaðinu í mörg ár.

Þorsteinn Briem, 28.12.2014 kl. 21:05

9 identicon

Flott hjá þér, Pappírspési á lika 5000 vini á Facebook. Lítið mál að sækja vini það það eru 200,000 á feisinu adda þá alla þá eru alltaf 5% sem semþiggja.

Hannes H

HH (IP-tala skráð) 29.12.2014 kl. 10:45

10 identicon

Hvernig getur þú þessi (að ég tel) öðlingur verið í föruneiti Eiðs Guðnasonar. Þau samskipti sem ég hef haft við þann mann hafa sýnt mér að þar fer hrokafullt illmenni (við unnum saman um skeið). Man eftir að hafa séð hann Eið hella sér yfir blásaklausan dyravörð sem hafði ekkert unnið sér til saka annað en að hafa ekki staðið upp og haldið hurð opinni fyrir Eið. Dyrvörðurinn var með tárin í augunum eftir þeirra viðskipti. Þar voru þung og ljót orð látin falla, þar sem aflsmunum í krafti embættis var beitt. Annan eins hroka og valdabrjálæði sá ég einnig í önnur skipti þegar ég var nærstaddur. Eiður virðist sérstaklega hafa gaman af því að láta fólk sem getur illa svarað fyrir sig heyra það. 

Gunnar G. (IP-tala skráð) 29.12.2014 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband