6.2.2015 | 20:30
Ekki einsdæmi. Samanburður á eins hreyfils og fjölhreyfla vélum.
Þótt ótrúlegt kunni að virðast, hafa mörg alvarleg slys orðið vegna þeirra mistaka, að flugmenn tveggja hreyfla véla hafi slökkt á röngum hreyfli þegar annar þeirra hefur bilað.
Í pistli um flugslysið við Taipai var vakin athygli á því að skrúfur beggja hreyfla vélarinnar snerust þegar hún hrapaði í ána, en flugmenn "fjaðra" venjulega skrúfu þess hreyfils sem drepið er á, það er snúa skrúfublöðunum þannig að skrúfan taki enga loftmótstöðu á sig og standi kyrr.
Þeir höfðu greinilega ekki átt við skrúfu bilaða hreyfilsins og voru, samkvæmt nýjustu fréttum, að reyna að koma hinum í gang.
Þegar vélin kemur yfir íbúðablokkirnar er hún að ofrísa vegna þess að flugstjórinn reynir að komast yfir þær með því að lyfta vélinni, en afllaus missir hún hraða og hæð.
Ég minntist á það í nefndum pistli, að fróðlegt gæti verið að útskýra, hvers vegna bandarísk rannsókn leiddi í ljós hér um árið, að fleiri dauðaslys gerðust í blindflugi á tveggja hreyfla flugvélum en á eins hreyfils flugvélum.
Ef allt einkaflug er tekið með í reikninginn eru dauðaslysin fleiri á einshreyfils vélum, vegna þess að byrjendur og óvanir flugmenn fljúga þeim frekar en fjölhreyfla vélum.
En þegar menn eru komnir með blindflugsréttindi eru reynsla og þekking álíka hjá þeim sem slík réttindi hafa, og samanburðurinn því mun raunhæfari.
En hér koma nokkur atriði:
1. Þegar drepst á hreyfli eins hreyfils vélar er stjórn hennar miklu einfaldari og auðveldari en á tveggja hreyfla vél. Aðal verkefni flugmanns eru tvö: Að halda flugvélinni í heppilegri flugstöðu á leið hennar niður, - annað er ekki í boði, - og að reyna að koma hreyflinum í gang ef einhver von er til þess. Á tveggja hreyfla vél er viðfangsefnið margfalt flóknara, því að halda þarf flugvélinni á flugi á öðrum hreyflinum og fara ekki niður fyrir ákveðinn lágmarkshraða og gæta þess að skakkt átakið af afli hreyfilsins orsaki ekki missi stjórnar á flugvélinni. Á sama tíma þarf að "ganga frá" bilaða hreyflinum, slökkva á honum og "fjaðra" skrúfuna.
2. Á einshreyfils vél þarf einungis að framkvæma nauðlendingu í lækkun og velja skásta lendingarstað, en á tveggja hreyfla vél er slíkt yfirleitt ekki í huga flugmanna, heldur að reyna að komast á afli annars hreyfilsins til lendingar á flugvelli.
3. Ástæða þess að menn velja tveggja hreyfla vél til flugs er sú að öðlast með því það öryggi að geta alltaf komist klakklaust leiðar sinnar til lendingar, þrátt fyrir vélarbilun. Að nauðlenda utan flugvallar er þar með svolítið fjarlæg hugsun. Afleiðing þessa er, að í mörgum tilvikum er flogið yfir mögulega lendingarstaði á leiðinni til fyrirhugaðs lendingarstaðar og þetta markmið næst ekki.
4. Flugmenn hyllast oft til þess að fara af stað í flug í mun verri veðurskilyrðum á tveggja hreyfla flugvélum en eins hreyfils flugvélum og ofmeta getu þeirra. Með því auka þeir á hættuna á því að lenda í ógöngum vegna lélegs veðurs.
Slökktu þeir á röngum hreyfli? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig er það fáum við ekki að sjá myndir sem þú hefur tekið úr TF FRU,eða er flugvélin eķki gangfær lengur
hallo (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 20:50
Ég flaug 5 sinnum á eins hreyfils vél frá Sviss (Basel) til Íslands (Húsavík). Ein millilending; New Castle, Kirkwall, Vagar eða Sumburgh. Einu sinni var farþegi með, ung hugrökk kona. Fyrir aftan mig var björgunarbátur og súrefniskútur, en ég fór allt upp í 17.000 fet. Ég hefði getað tekið tveggja hreyfla vél, en gerði það ekki. Miklu dýrara og að mínu mati ekki meira öryggi. Hefði frekar vilja nauðlenda eins hreyfils vél á sjónum en tveggja hreyfla vél.
Þetta var bara mitt mat. En flugi yfir hafið er veðrið númer eitt, tvö og þrjú. Mótvindur, "endurance". Hafði alltaf nóg sprit þegar ég lenti í Höfn í Hornafirði, en það var engu að síður góð tilfinning að sjó landið rísa úr hafi. Ekki aðeins góð tilfinning, en einnig ótrúleg hrifning, innri hrifning.
Upp úr hvítum úthafsbárum
Ísland reis í möttli grænum.
Heilluð grét ég helgum tárum
af hamingju og fyrirbænum.
Við mér brostu birkihlíðar;
blikuðu fjöll í sólareldi.
Aldrei fann ég fyrr né síðar
fegri tign og meira veldi.
Helga Jarlsdóttir. DS.
Haukur Kristinnson (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 21:25
Flott er þetta, Haukur. TF-FRÚ kemur væntanlega mikið við sögu í nýjum Ferðastiklum sem verða á dagskrá nú í mars.
En 10. september síðastliðinn rann lofthæfisskírteini hennar út og ég setti hana inn í bragga niðri í Skriðdal. Myndir sem teknar voru af umbrotum í Bárðarbungu og Holuhrauni auk myndanna í Ferðastiklunum fyrir 10. sept verða líklegast úr flugi á henni sem verður svanasöngur hennar.
Kostnaður við ársskoðanirnar einar á henni hefur verið um sex milljónir síðustu fjögur ár og vélin samt lengur ólofthæf á þeim tíma en lofthæf.
Og nú hefur bæst við stóraukið skrifræði svo umfangsmikil aukaskoðun frá framleiðandanum í Ameríku að vélar af þessari gerð frá áttunda áratugnum munu detta eins og flugur næsta haust og hafa þegar orðið nær verðlausar.
Ég ætla að skoða, hvort ég geti ekki tekið niður eins manns flygildið Skaftið, sem hangið hefur uppi við loft á Samgöngusafninu í Skógum síðan 1999, látið gera við úrbræddan tvígengisvélina í því og notað það til myndtökuferða.
Ómar Ragnarsson, 7.2.2015 kl. 02:04
Skemmtilegt innlegg Haukur! Hvernig vél var þetta annars?
Og Ómar, - verður þú ekki bara eitthvað á RÓSinni í sumar? Svolítið þægilegri en skaftið í ferðum á Sauðárvöll. Og varðandi mótorinn, - þá er sennilega best að finna notaðan rotax. Þeir þola illa að standa, - þinn er nær örugglega ónýtur.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 10:23
Takk, Jón Logi.
Piper Arrow IV Turbo. PA-28RT-201T. IFR.
Grüsse aus der Schweiz.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 10:55
Fróðlegt væri að frétta í hverju AD nótan, sem þú ýjar að og mun þá gránda gömlu vélina mína, er fólgin.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 20:34
Skemmtilegur performans á þessari vél. Brautarhákur eins og Piper er nú gjarnan, en helv. gott cruise á henni. Hefði varla trúað því, - 172 kts!!!
Og Ómar, - ef þú ferð í skaftið, þá skal ég aðstoða þig við það ;)
Jón Logi Þorsteinsson, 8.2.2015 kl. 08:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.