Hefur ekkert breyst í 39 ár?

Ég sá enga af Rocky myndunum á sínum tíma, en af því að ég hef verið hnefaleikanörd í 65 ár kíkti ég á Rocky I í kvöld, mest til að átta mig á því hvort Sylvester Stallone væri stórlega ofmetinn sem kvikmyndagerðarmaður og leikari. 

Hann skrifaði víst þetta handrit á 20 klukkustundum, taka myndarinnar tók 28 daga, kostnaðurinn var 1 milljón dala og innkoman 225 milljónir. 

Þótt myndin fengi 10 tilnefningar til Óskars 1976 og hreppti þrjár styttur, fékk hún það misjafna dóma að maður átti ekki von á miklu. 

En handritið var skárra en ég bjóst við og trú sönnum atburðum í ferli grunnfyrirmyndanna, hnefaleikaranna Chuck Wepners, Muhammad Alis og Joe Frazier.

Að baki er hrár bandarískur veruleiki og töfrarnir á bak við gömlu ævintýrin um Öskubusku og syni karls og kerlingar í koti sem vinna ástir prinsessunnar.

Sjá má að ýmsir þenja sig í hneykslun yfir því að myndin skuli hafa hafist hálftíma fyrir klukkan tíu í kvöld af því að hún hafi verið bönnuð innan 12 ára fyrir 39 árum.

Það hefur nú ýmislegt breyst og þróast í 39 ár og ekki gat ég séð hvað var svona voðalegt við myndina sem gerði það að verkum að sama mat þyrfti að gilda nú og þá.

En brot gegn boðum og bönnum eru að sjálfsögðu lagabrot, sama hve á hve úreltum og forneskjulegum forsendum reglurnar byggjast.

 

P. S. Hvenær ætlar fjölmiðlafólk og þýðendur að átta sig á því að enskt pund er 0,453 kíló en ekki 0,5 kíló og að það tekur fimm sekúndna einfaldan hugarreikning að breyta á milli þessara mælieininga. Rocky var 190 pund í myndinni og reikningurinn því svona:

190:2= 95. 95 mínus einn tíundi eru 95-9,5= 85,5 kíló.

Ef menn vilja fá nákvæma útkomu má bæta 600 grömmum við vegna tölunnar 3 aftast í 0,453 og þá er niðurstaðan 86 kíló.       


mbl.is Stefnir í annað brot hjá RÚV?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

86,07 kg ... einfaldast að margfalda 190 með 0,453  smile

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2015 kl. 02:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, en þegar um er að ræða tölur sem eru nokkurn veginn 9 eða 11 er deiling eða margföldun fyrst framkvæmd og síðan frádráttur eða samlagning.

Þetta lang einfaldasta aðferðin, svo einföld að í því felst aðeins nokkurra sekúndna hugsun án þess að þurfa að setja neitt á blað. 

Ómar Ragnarsson, 7.2.2015 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband