11.2.2015 | 16:03
Ólíkt Carlsen skipstjóra á Flying Enterprise.
Það er aldagömul eða jafnvel árþúsunda hefð fyrir því hvernig rýma skuli skip, flugvélar og landfarartæki. Konur og börn fyrst og skipstjórinn eða yfirstjórnandinn síðastur.
Sagan geymir mörg dramatísk atvik þar sem skipstjórar ýmist virtu þessa miklu kröfu að vettugi eða hlýddu henni út í ystu æsar af miklu hugrekki.
Ég minnist enn þeirra fjórtán daga um áramótin 1951 til 52 sem liðu eftir að fragtskipið Flying Enterprise hafði sent út neyðarkall vestur af Ermasundi.
Það hafði fengið á sig 45 gráðu halla í miklu óveðri 28. desember og var öllum bjargað frá borði nema hinum danska Kurt Carlsen skipstjóra.
Heimsbyggðin fylgist með öndina í hálsinum næstu tvær vikurnar, allt til 10. janúar, með erfiðum björgunartilraunum í foráttuveðri og allan tímann þraukaði Carlsen á þann hátt í skipinu sem var síðustu dagana liggjandi í 60 gráðu halla í haugasjó, án þess að karlinn léti sér bregða.
Að lokum var útséð um björgun skipsins og þá fyrst tók Carlsen í mál að láta bjarga sér.
Þegar hann kom til New York viku síðar var farin ein af þessum stórfenglegu "miðaregns" skrúðgöngum (ticker-tape parade) til heiðurs Carlsen, og nöfn hans og Flying Enterprise voru þar með skráð gullnu letri í sögubækurnar.
Það er langur vegur frá afreki Carlsens til örlaga skipstjórans á Costa Concordia.
Hann hafi dottið í björgunarbátinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Man eftir að hafa séð fréttaþátt um þetta mörgum árum seinna í Kanasjónvarpinu og gleymi aldrei hvað þetta hafði mikil áhrif á mann.
Kjartan (IP-tala skráð) 11.2.2015 kl. 16:34
ég man eftir þessu sem barn í Danmörku, maður lá á gólfinu, limdur við útvarpið. Það má heldur ekki gleyma stýrimaðurinn af hollezka dráttarbátnum, sem ég man reyndar ekki lengur hvað hét.
Finnur P. Fróðason (IP-tala skráð) 11.2.2015 kl. 17:42
Kenneth Dancy hét stýrimaðurinn.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 12.2.2015 kl. 09:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.