Stórbreytt dekk frá því sem áður var.

Mjög athyglisvert hefur verið að fylgjast með þróun bílhjólbarða í heila öld. 

Fyrst voru þetta gúmmíbarðar með engu lofti í. Á milli 1920 og 30 voru dekkin milli þrjár og fjórar tommur í þvermál eða 8-10 sentimetrar en felgurnar afar stórar svo að samanlagt þvermál hjólsins alls var 29-30 tommur, eða í kringum 75 sentimetrar.

Á milli 1930 og 40 minnkuðu felgurnar og barðarnir stækkuðu, þannig að algeng dekkjastærð var 6:00-16, sex tommu dekk á 16 tommu felgum eða 28 tommur í þvermál. 

Frá 1940-1955 var algengasta stærðin á bandarískum bílum 6:50-15 en dekkin voru mjórri á evrópskum bílum og einnig á 15-16 tommu felgum. 

Volkswagen var með 5:00-16 og síðar 5:60-15. 

Um 1950 verður bylting á evrópsku bílunum með tilkomu 13 tommu og 14 tommu felgna og milli 1957 og 1960 einnig á bandarísku bílunum.

Frá árinu 1957 hefst eins konar kapphlaup um það að láta dekkin belgjast út og felgurnar minnka, þannig að algengar stærðir verða 7:00-14 og 7:50-14 vestanhafs en 5:20-13 upp í 6:40-13 í Evrópu. Bílaframleiðendur kepptust við það að gera bílana sem þægilegasta og mýksta í akstri og belgmikil dekk gáfu mjúkar hreyfingar og "smurðu út" lélega vegi.  

Jafnframt koma fram smábílar í Evrópu með tólf tommu felgum og Mini er með 5:20-10 árið 1959. 

Á stærstu amerísku drekunum má sjá stærðirnar 8:20-15 og þar með er hjólbarðinn orðinn meira en 20 sentimetrar í þvermál og þolir býsn á slæmum og holóttum vegum.

En á síðari hluta 20. aldar og allt til þessa dags hefur þróunin verið til baka, aftur til 1920. Felgurnar hafa farið stækkandi og dekkin orðið æ lægri og jafnframt breiðari.

Hlutföllin á dekkjunum má sjá á tölum eins og 155/65-15, en í því tilfelli er felgan 15 tommur en dekkið 155 sentimetra breitt, hæð þess hins vegar 155mm x 65 eða 10,7 sentimetrar.

En vegna bælingar dekksins og felgubrúnarinnar er hæðin úr malbiki upp í felgubrún aðeins um 6-7 sentimetrar.   

Nú er svo komið að sjá má "jeppa" með 22ja tommu felgur en svo lág dekk, að aðeins eru 5 til 6 sentimetrar frá götu upp í felgu og má nærri geta hve slæma vegi svona "jeppar" þola.

Dekkin eru svona lág og breið til þess að auka aksturhæfni og öryggi bílanna og það gengur eftir í nágrannalöndum okkar.

En á okkar vegum gegnir öðru máli, eins slæmir og þeir eru orðnir vegna skort á viðhaldi og lélegs malbiks.

Þess vegna sprengja menn dekkin unnvörpum og hin lágu dekk með hjálp "dekkjabana" á vegunum hafa dregið úr öryggi í stað þess að auka það. 


mbl.is Dekk sprungu á 7 bílum í sömu holu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vegna tæknilegrar tregðu í móttöku pistils míns uppi í Hádegismóum hefur þú ekki séð allan pistil minn þegar þú sendir þetta myndband,Steini. En hafðu þökk fyrir, engu að síður. 

Ómar Ragnarsson, 17.2.2015 kl. 23:53

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

De rien, Monsieur Ómar Ragnarsson.

Bið að heilsa Hádegismóra.

Þorsteinn Briem, 17.2.2015 kl. 23:59

4 identicon

Sæll Ómar

mikill munur er á eftirliti vegaframkvæmda í evrópu og hér, víða í evrópu eru verktakarnir krafðir um 6 ára ábyrgð og vanda þar af leiðandi til verka eru með upphitaða flutningsvagna undir malbikið þannig að það kólnar ekki á leiðinni.

hér erum við hinsvegar með opna óupphitaða vagna sem flytja efnið sem að sjálfsögðu kólnar eitthvað á leiðinni sem gerir það að verkum að minni binding fæst fyrir vikið og gatan frostspringur, og engin ábyrgð verktaka.

ég er viss um að ef breyting yrði í lögum að ekki mætti flytja malbikið nema í upphituðum vögnum og að verktakinn tæki á sig ábyrgð í x mörg ár myndi gatnakerfið batna til muna og umferðaröryggi að sama skapi sennilega einhver kostnaðaraukning en það eru bara peningar

Runar Hardarson (IP-tala skráð) 18.2.2015 kl. 09:00

5 identicon

Rúnar, ekki veit ég hvaðan þekking þín á malbiksframkvæmdum er fengin en hver er sanngirnin í að óska eftir 6 ára ábyrgð þegar verkkaupi óskar eftir 3-4cm yfirlögn? Meðalflutningsvegalengd frá malbikunarstöðvunum 2, hér á höfuðborgarsvæðinu, gæti verið um 15 km. Trailer tekur um 28 tonn af 150-170 gráðu heitu malbiki og því verður kólnunin lítil. Allir malbiksflutningabílar eru með segl sem varna kólnum. Mjög algengar hitatölur við útlögn eru 130-150 gráður. Skv. hefðbundnum kenningum í malbiki er talað um að völtun skal lokið áður en malbikið nái 80 gráðum.  Oft (í nær öllum tilfellum Vegagerðarinnar sl. 2-3 ár) er íböndunarefnum bætt í bikið sem gerir völtun mögulega niður í 30-40 gráður. Málið er afar einfalt, niðurskurður til viðhalds vega sem ma. birtist í þynnri yfirlögnnum og hægum viðbrögðum veghaldara við skemdum í yfirborði. Afhverju hafa veghaldarar ekki brugðist við sprungum í yfirborði sem hafa verið sjáanlegar í fjölda ára? Vatn seytlar niður í gegnum sprungur sem valda frostlyftingum að vetri til. Ísland er þekkt fyrir tíðar frost/þýðu hringi, s.br. veðurfarið í vetur.  Þetta þýðir að undirlagið er að þenjast út og skreppa saman, með tilheyrandi eyðileggingu fyrir yfirborðið.  

Gunnar Erlingsson (IP-tala skráð) 18.2.2015 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband