21.2.2015 | 23:55
Nærbuxnalaus þingmaður á Alþingi.
Fátt er nýtt undir sólinni, að minnsta kosti það að þingmenn greiði atkvæði nærbuxnalausir á þingi. Það gerði Albert Guðmundsson á útmánuðum 1980.
Málavextir voru þeir að Albert var fastamaður í Stjörnuliði mínu og lék með því einn af tugum leikja þess kvöld eitt í Laugardalshöllinni. Þegar leiknum var lokið voru tveir leikmenn, ég og hann, mikið að flýta okkur.
Ég var að flýta mér til að koma ekki of seint til að skemmta suður í Keflavík og hann til að taka þátt í áríðandi atkvæðagreiðslu á kvöldfundi á Alþingi.
Þegar við vorum að klæða okkur í fötin kom í ljós að nærbuxur Alberts voru týndar. Honum lá mikið á og allir í klefanum fóru í dauðaleit að buxunum og hamaðist ég einna mest, en þessu lauk þannig vegna tímahraks að við Albert urðum báðir að hverfa af vettvangi og hann nærbuxnalaus til atkvæðagreiðslunnar á þinginu.
Ég fór suður með sjó og kom síðan seint heim, dauðþreyttur eftir at kvöldsins. Helga var komin upp í rúm.
Þegar ég er að afklæðast skellir hún upp úr og spyr hvers konar nærbuxur þetta séu hjá mér, - þær líkist frekar tjaldi en buxum.
"Ætli teygjan hafi bara ekki slitnað" segi ég.
"Kanntu annan?" spyr hún. Það komast tveir í þessar buxur."
Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði í flýtinum í búningsklefanum farið óvart í buxur Alberts, en hann var á að giska tvöfalt víðari um sig en ég.
Ég hafði samband við Albert daginn eftir og varð það niðurstaða málsins að vegna þess að hann var þá í forsetaframboði væri rétt að bíða með afhendingu buxnanna þar til það kæmi í ljós hvort yrði kjörinn forseti.
Yrði hann kjörinn yrði sérstök athöfn þar sem ég myndi stilla mér aftast upp í röð sendiherra erlendra ríkja, þegar þeir afhentu forsetanum skilríki sín, og myndi ég þá afhenda honum nærbuxur hans.
Nærbuxur þrengdu að þingmanni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sigmundur með síðan böll,
siglir inn í daginn,
allir fara á Austurvöll,
en aðeins sést þar maginn.
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 00:49
Hver hagfræðinga sendi fjármálaráðherra bréf og varaði við afléttingu verðtrygginga launa og áframhaldandi verðtryggingu lána?
Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 22.2.2015 kl. 00:51
Hér á Íslandi var mikil verðbólga áður en víðtæk verðtrygging var tekin hér upp árið 1979.
Verðbólga hér á Íslandi á árunum 1940-2008
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 00:58
"The currency of Denmark, the krone (DKK), is pegged at approximately 7.46 kroner per euro through the ERM.
Although a September 2000 referendum rejected adopting the euro, the country in practice follows the policies set forth in the Economic and Monetary Union of the European Union and meets the economic convergence criteria needed to adopt the euro."
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 00:59
10.2.2015:
"Í Danmörku hafa lágir vextir á húsnæðislánum einnig styrkt efnahagslífið og komið því enn betur í gang.
Nú er hægt að fá lán til 30 ára með föstum 1,5 prósenta vöxtum en aldrei hefur verið boðið upp á lægri fasta vexti.
Þessi lán eru óverðtryggð."
Verðhjöðnun í Danmörku
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 01:00
Í Danmörku var minna atvinnuleysi í desember síðastliðnum en hér á Íslandi, 3,9%, en 4,3% hérlendis samkvæmt Hagstofu Íslands og 4,9% í Þýskalandi.
Í Danmörku búa um 5,7 milljónir manna og í Þýskalandi, fjölmennasta ríki Evrópusambandsins, býr um 81 milljón manna.
Hins vegar búa einungis um 326 þúsund hér á Íslandi, þannig að mun auðveldara er að minnka atvinnuleysi um 1% hérlendis en í Danmörku og Þýskalandi.
Og þúsundir Íslendinga hafa fengið starf í Evrópusambandsríkjunum Danmörku og Svíþjóð undanfarin ár og áratugi.
19.8.2010:
Rúmlega 36 þúsund íslenskir ríkisborgarar búa erlendis
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 01:01
Mörlenskir töframenn:
Um tíma var ég öryggisvörður í Seðlabankanum og sá á hverju kvöldi þegar ég var þar á vakt að skrifborð Jóhannesar Nordal, seðlabankastjóra 1961-1993 og töframanns, var þakið alls kyns útreikningum og minnismiðum.
Bankastjórar Seðlabankans voru hins vegar þrír þegar ég var þar öryggisvörður og hinir tveir voru framsóknar- og töframaðurinn Tómas Árnason og sjálfstæðis- og töframaðurinn Geir Hallgrímsson.
Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra á árunum 1974-1978 en verðbólgan hér á Íslandi fór í um 50% árið 1975.
Tómas Árnason var fjármálaráðherra á árunum 1978-1979 og viðskiptaráðherra 1980-1983 en það ár fór verðbólgan hér í 84%.
Ekki var hins vegar að sjá að á skrifstofum Tómasar og Geirs væri nokkuð unnið, fyrir utan ræstingar.
Skrifborðin voru auð, engar bækur í hillunum, engar tölvur komnar þá og ekki nokkrar mannvistarleifar yfirhöfuð.
Alþýðubandalags- og töframaðurinn Ragnar Arnalds, átrúnaðargoð Jóns Vals Jenssonar, var hins vegar fjármálaráðherra á árunum 1980-1983.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra, nú á jötu sægreifanna og kominn út í móa, er einnig mikill töframaður.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru komnir í 18% haustið 2008 og verðbólgan hér á Íslandi var 18,6% í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá seðlabankastjóri og töframaðurinn Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.
Verðbólga hér á Íslandi á árunum 1940-2008
Þorsteinn Briem, 22.2.2015 kl. 01:11
Undarlegt er, thegar mönnum tekst ad tengja saman umraedur um naerbuxur vid verdbólgu, auk sedlabankastjóra og öryggisvörslu, en svona er nú veröldin skrítin á köflum. Thad tharf ekki mikid til ad koma umraedunni af stad. Snidug saga hjá Ómari, samt sem ádur.
Halldór Egill Guðnason, 22.2.2015 kl. 17:54
Já, veröldin er skrýtin á köflum, en kannski kom þessum mönnum bólga í hug við að sjá sögu um nærbuxur, sem stundum geta sýnt merki um ákveðna tegund af bólgu.
Ómar Ragnarsson, 23.2.2015 kl. 00:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.