Eilíft og tilgangslítið ágreiningsefni.

Þegar litir eru skærir eins og til dæmis litirnir sem eru grunnur sjónvarpslita, er fólk yfirleitt sammála um þá. 

Þó má geta þess að í bandaríska sjónvarpslitakerfinu er ekki sami rauði liturinn og í evrópsku kerfunum. 

Ástæðan er sú, að vestan hafs ákváðu menn að hafa litinn eldrauðan, en við það varð húðlitur fólks oft rauðari en ella þegar þurfti að blanda hinum fáu grunnlitum saman til þess að fá út réttan lit. 

Húðlitur fólks er einfaldlega svo fjölbreyttur að oft á litakerfið í mestu erfiðleikum með að ná öllum blæbrigðum rétt.  

Kvað svo rammt að að þessu, að þegar deilt var um það hvort íslenska sjónvarpið ætti að skipta í litasjónvarp hélt einn þingmaður því fram að það væri ótækt, því að margt fólk yrði afkáralega rauðleitt í framan. 

Þarna skaust þótt skýr væri, því að greinilegt var að þingmaðurinn vissi ekki að rauði liturinn í Evrópu var ekki eldrauður, heldur talsvert mildari til þess að auðveldara væri fyrir litakerfið að ráða við litbrigði húðlitar á fólki, því að afar stór hluti af sjónvarpsútsendingum væri með fólk í forgrunni. 

Þegar við erum börn lærum við nöfn litanna af okkar nánustu og þá gerist það tvennt, að engir tveir nefna blandaða liti sömum nöfnum, og rétt eins og sumir eru hreinlega litblindir, er litaskynjunin sennilega misjöfn. 

Við Helga vorum ekki búin að vera lengi í sambúð þegar í ljós kom að okkur greindi afar oft á um það hvaða liti við vorum að horfa á. 

Fljótlega kom að því að ljóst var að það var næsta tilgangslítið að deila um liti, - um það gilti að sitt sýndist hverjum. 

Helga segir að kjóllinn, sem nú er deilt um á netinu, sé hvítur og svartur en ég segi að hann sé ljósblár, raunar mjög ljós-blár og dökkgrár. 

Svo hlæjum við bara af þessu og föllumst á að við höfum bæði rétt fyrir okkur. 


mbl.is Hvernig er kjóllinn á litinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband