Útkall: Flugvél hrapar í Jökulsá á Brú.

Stysta útkallsbókin en jafnfram sú eina sem lýsa mætti sem skemmtilegri bók, ef nota má slíkt orð um útkall, gæti fjallað um það þegar kölluð voru út björgunarsveit, lögregla og sjúkalið til að fara að leita að flugvél, sem vitni sáu hrapa niður í Jökulsá á Brú innan við Kárahnjúka, á meðan Kárahnjúkastífla var í smíðum áður en Hálslón var myndað.

Ég tók þátt í þessu útkalli, af því að skömmu áður hafði ég flogið á TF-FRÚ frá Akureyri til Egilsstaða og frétti af útkallinu á leið upp brekkuna á Fljótsdalsheiði á gömlum Suzuki Samurai jeppa.

Komu þá björgunarsveitarbílar, lögreglubíll og sjúkrabíll á eftir mér með miklum látum og fóru fram úr mér, enda gamli jeppinn minn afllítill.

Ég hringdi í RUVAK og spurði hvað væri að gerast og var sagt að flugvél hefði sést hrapa niður í Jökulsá nokkru áður.

Mér brá óneitanlega en huggaði mig við þá von að flugmaðurinn hefði sloppið lifandi og að ég væri þó, þrátt fyrir allt, eini fjölmiðillinn á svæðinu með allar tökugræjur og búnað og gæti því orðið fyrstur með fréttina og jafnvel fyrstur til að finna flugmanninn.

Gaf ég nú allt í botn á eftir útkallsliðinu, en var þó mjög órótt yfir þeirri tilhugsun hver flugvina minna hefði kannski farist þarna og kveið mjög fyrir því að koma á staðinn.

Þegar ég hafði ekið nokkra stund inn eftir Fljótsdalsheiði í loftköstum á eftir útkallsliðinu, var hringt í mig frá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og mér sagt, að við könnun á hugsanlegum vitnum að flugi vélarinnar, hefði komið í ljós, að ég hefði verið á flugi milli Akureyrar og Egilsstaða fyrr um daginn, að vísu miklu norðar, og var ég spurður, hvort ég hefði orðið var við einhverja aðra flugvél á flugleið minni.

Ég sagði svo ekki vera, enda hefði verið svo erfitt sjónflugsveður, að ég teldi útilokað að neinn annar flugmaður hefði getað fundið leið í þarna í gegn, svo hundkunnugur þyrfti sá flugmaður að vera.

Ég sagðist giska á að ef einhver hefði verið að fljúga á þessu svæði, eins og lýst var, hlyti hann að hafa hrapað niður úr skýjum úr blindflugi með dauðan hreyfil.

Spurði ég hvort hægt væri að lýsa því nánar, sem vitnin sögðu.

Flugstjórnarmenn segðu mér að vitnin hefðu séð einshreyfils flugvél koma lágt úr norðri upp með Hafrahvammagljúfrum, fljúga yfir stífluna og skamma stund inn eftir Hjalladal, en síðan hefði hún steypst niður handan við hæð og ekki sést aftur.

Búið væri að senda leitarflokk frá Kárahnjúkum inn eftir, en ekkert hefði fundist enn, og væri því óttast að vélin hefði lent í Jöklu.

Ég spurði, hvort vitnin hefðu lýst vélinni.

Þeir sögðu, að sagt hefði verið að vélin hefði verið háþekja og blá og hvít að lit.

Nú rann upp fyrir mér ljós og ég svaraði því strax til, að þetta hlyti að hafa verið ég sjálfur á leiðinni til Egilsstaða hálfri annarri klukkustund fyrr. Væri því alveg óhætt að hætta leitinni, enda kæmist enginn sá lifandi úr Jöklu, sem í henni lenti.

Flugstjórnarmenn voru hissa og spurðu hvers vegna ég hefði flogið svona langt af leið á leiðinni til Egilsstaða.

Ég sagði þeim að leiðin út Jökuldal hefði verið ófær vegna þoku, en ég vissi af reynslu, að í vindátt sem þarna var, væri stundum hægt að fljúga inn með Jöklu, fara inn Hjalladal og læðast vestur um Vestur-Öræfi í skjóli við Snæfell og komast meðfram því niður í Fljótsdal.

Þetta hefði ég gert, en skammt fyrir innan Kárahnjúkastíflu væri hæð, sem nefndist Horn og hefði ég orðið að lækka flugið handan við það til að komast innar í dalnum og síðan upp úr honum.

Við það hefði ég vafalaust horfið verkamönnum við stífluna sjónum.

Útkallið var nú afturkallað, en til varð þessi vísa um þá stöðu, sem ég hafði verið í:

 

Á ofsahraða´um illan veg

ók ég fréttaþyrstur.

Í eigið flugslys æddi ég

og ætlaði´að verða fyrstur.  

 


mbl.is Leituðu að flugvél við Þingvallavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Alltaf góður!

corvus corax, 27.2.2015 kl. 22:26

2 Smámynd: Már Elíson

Þessa sögu toppar enginn, það er ekki hægt.

Már Elíson, 27.2.2015 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband