10.4.2015 | 01:06
Hefð fyrir svona fyrirvörum.
Af því sem birtist hér á mbl.is af drögum til ályktana flokksþings Framsóknarflokksins er sumt vel bitastætt, svo sem skýr stefna varðandi Reykjavíkurflugvöll, andstaða gegn sölu áfengis í verslunum og það að stefna að rafrænum kosningum og lækka tryggingargjaldið.
Fínt hjá Framsóknarmönnum.
Það er svo sem ágætt, sem þeir leggja til, að láta allt útvarpsgjaldið renna til RUV, en það er samt engin trygging fyrir afkomu RUV, því að eftir sem áður geta stjórnvöld bara lækkað gjaldið og því engin trygging er fólgin í þessari tillögu hvað snertir afkomu RUV.
Og svipað á því miður við fleira í þessum drögum að ályktunum.
Draumurinn er kristaltær um einbeittan vilja Framsóknarmanna til að Íslendingar gerist olíuvinnsluþjóð og leggi sem stærstan skerf inn í útblástur gróðurhúsalofttegunda á sama tíma og áfram verður sunginn söngurinn um að við séum "forystuþjóð um nýtingu hreinna og
endurnýjanlegra orkugjafa. Kjörorðið: Íslenska olíu á bílana okkar!" er tónninn í olíustefnu þar sem allt verði gert sem unnt er til að vinna olíu af 1100 metra dýpi norður í ballarhafi fyrir söluverð sem er langt, langt fyrir neðan vinnslukostnaðinn.
Ekki er að sjá að Framsóknarmenn hafi lagst í neina vinnu við að greina af neinni dýpt og umfangi eðli þessa máls í samhengi við ástand umhverfis- og orkumálanna nú.
Fyrirvarinn um "að gætt skuli ítrustu umhverfisvarúðar" er lítils virði, því að þegar búið er að ákveða fyrirfram að fara í olíuvinnsluna sýnir reynslan af svipuðu, að ekki verður aftur snúið.
Svona fyrirvari er af svipuðum toga og "tuttugu ströng skilyrði" Sivjar Friðleifsdóttar vegna Kárahnjúkavirkjunar, sem breyttu nánast engu um hrikalegar neikvæðar óafturkræfar afleiðingar hennar.
Sum skilyrðin voru hreint bull, svo sem eitt þeirra, sem byggðist á því að gera þúsundfalda skekkju í fjarlægð berggangs frá útfallinu undir Valþjófsstaðafjalli, metrar í stað kílómetra.
Og í öðru skilyrði var gert ráð fyrir að snemmsumars á hverju ári yrði dreift rykbindiefnum úr flugvélum yfir rjúkandi fok nýfallins leirs af 35 ferkílómetra þurrum botni Hálslóns á til að stöðva leirfokið !
Svipað er að segja um það stefnumál Framsóknar nú að leggja skuli rafstreng til Bretlands án þess að hér verði verðhækkanir á rafmagni innanlands eins og orðið hafa í Noregi vegna sölu þaðan til Evrópu.
Orðin að "áhættu landsmanna beri að lágmarka" segja ekki nokkurn skapaðan hlut heldur eru þau dæmigerður Framsóknarfyrirvari.
Síðan ég var í sveit hjá eðal stuðningskonu þessa "frjálslynda félagshyggjuflokks" sem var með náttúruverndarsinnann Eystein Jónsson í forystusveitinni og hugsjónin var að skila landinu betra til afkomendanna en það var þegar tekið var við því af forfeðrunum, hefur mig alltaf langað til að kjósa Framsóknarflokkinn.
En aðeins einu sinni, 1974, kaus ég hann, og sé raunar eftir því, því að flokkurinn hefur eftir tíð Eysteins Jónssonar verið í forystu í "hernaðinum gegn landinu" eins og Nóbelskáldið nefndi það og sæstrengurinn mikli mun tryggja það að þeim hernaði verði haldið enn skefjalausar áfram en hingað til ef þau öfl ráða áfram sem hafa knúið stefnu flokksins á þá braut, sem hún hefur verið.
Þó ber að geta þess að ljós í myrkrinu birtist í fyrsta sinn í vetur þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra lýsti yfir því að henni hugnaðist ekki mannvirkjabelti norður yfir hálendið og heldur ekki hve margir virkjanakostir væru á leið inn á í virkjanaflokk úr verndarflokki og biðflokki.
"Frjálslyndur flokkkur?" Varla borgarfulltrúarnir. Tillagan um heimild lögreglu til forvirkra aðgerða sýnist vera upplegg til að keppa við Sjallana um að efla lögregluríkið.
"Félagshyggjuflokkur?" Lítið sást af því þegar Búnaðarbankinn var færður einkavinum á silfurfati í upphafi græðgisvæðingarinnar og bankabólunnar í boði stjórnarstefnunnar sem leiddi til Hrunsins.
Stjórnarfarslegar umbætur? Framsóknarflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir að verja stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti að loforðið frá 1943 um nýja stjórnarskrá yrði efnt og tók þá forystu í þessu máli.
En eftir kosningarnar var blaðinu markvisst snúið við svo rækilega, að fólk verður hissa þegar það er minnt á að svona hafi þetta nú verið.
Tillögur Framsóknar til flokksþings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Andstaða gegn sölu áfengis í verslunum er haftastefna og forvirk aðgerð. Það er ekki hægt að fagna þessum ófögnuði og tala síðan fjálglega um stjórnarfarslegar umbætur. Ekki ef menn vilja láta taka sig alvarlega.
http://www.visir.is/threfalt-fleiri-sitja-i-fangelsi-vegna-fikniefnabrota/article/2006112300107
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.4.2015 kl. 08:27
Talað er um að vegna þess hve hátt áfengisverð er og illt aðgengi þá leiti ungdómurinn frekar í eiturlyfin (sjá link Elínar).
Það er ekkert ríki með meira vandamál eða hærri tíðni drykkju eða slíkt vegna þess hve aðgengi er gott. - Það er auðvelt að kaupa áfengi í venjulegum verslunum víða um sinn siðmenntaða heim og að sjálfsögðu um alla Evrópu þar sem við þekkjum best til og samt erum við (og Skandinavísku löndin) með háa tíðni ofdrykkju og meðferðarmála.
Hvað segir það ?
Í samtölum við hina ýmsu aðila (veitingahús, veislusali t.d.) ber þeim saman um að áfengisneysla á Íslandi breyttist til hins betra eftir að bjórinn var leyfður og eru sterku vínin og neysla þeirra á algeru undanhaldi. - Vínmenning á Íslandi er almmennt til fyrirmyndar...nema að sjálfsögðu það að ekki skuli vera hægt að kaupa t.d. bjór og léttvín (mest selt á íslandi) í venjulegum verslunum. - Það verður enginn alkohólisti á því.
Már Elíson, 10.4.2015 kl. 16:25
„Það verður enginn alkohólisti á því.“
Snilldar fullyrðing! Snilld!!!
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.4.2015 kl. 07:18
Skrítið að Framsóknarflokkurinn hafi ekki ályktað gegn sölu sykurs í verslunum. Svona til að reyna að ná tökum á vandamálinu.
http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2015/04/10/sykurinn_er_mer_sem_fikniefni/
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.4.2015 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.