11.4.2015 | 13:29
Hvað um hugsanlegt inngrip Bandaríkjamanna?
Enn koma fram gögn sem varpa ljósi á það tvísýna ástand sem ríkti hér á landi í nóvember 1921. Það leiðir hugann að stöðu Bandaríkjamanna á Íslandi síðar á öldinni.
Vera bandarískra hermanna í ýmsum lýðræðisríkjum í Kalda stríðinu var af mörgum talin fela í sér ákveðna tryggingu fyrir íhlutun þeirra ef hætta væri talin á að ríkjandi yfirvöldum yrði steypt.
Mikill munur væri á ástandinu ef uppreisnarmenn ættu á hættu að fella bandaríska hermenn heldur en ef valdatökuöflum tækist að ná markmiði sínu án þass að nokkur Kani félli.
Þetta átti að sjálfsögðu einnig við hér á landi og það kemur fram í ýmsum sagnfræðiritum um það tímabil hér á landi þegar Bretar og Bandaríkjamenn voru hér með aðstöðu og hermenn.
Meira að segja þegar Keflavíkursamningurinn var í gildi og ekkert formlegt varnarlið á árunum 1946 til 1951 var samt fámennt bandarískt lið á Keflavíkurflugvelli, sem ekki var skilgreint sem herlið heldur einungis þar til að starfrækja flugvöllinn á þann hátt að hann gæti gagnast Bandaríkjunum fyrir loftflutninga þeirra milli Bandaríkjanna og Evrópu.
Í sagnfræðiritum kemur fram að við mat á öryggi íslenskra stjórnvalda gagnvart hugsanlegri byltingartilraun kommúnista var talið óhætt að vera aðeins með lágmarks innanlands viðbúnað vegna þess að vera Bandaríkjamanna væri eins konar baktrygging.
Hugtök eru stundum notuð gáleysilega þegar rætt er um hersetu erlends liðs.
Andstæðingar bandarísks varnarliðs kölluðu sig Hernámsandstæðinga þótt herliðið skipti sér ekkert af innanlandsátökum. Réttara hefði verið að tala um Hersetuandstæðinga, en Hernámsandstæðingar töldu hersetuna jafngilda hernámi, enda hefur komið fram að herinn á Keflavíkurflugvelli gat lent í því að dragast inn í innanlandsátök.
Sama er að segja um varnarliðið. Það var mildara orð en herlið en Íslendingar töluðu oftast tæpitungulaust um herinn, samanber slagorðið "Ísland úr NATO og herinn í burt!"
Spurning er hvort öll gögn eru komin fram sem varða þessa pólitík sem geta varpað nánara ljósi á hana.
Ný skjöl fundin um hvíta stríðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var það ekki einmitt í skjóli stuðnings bandaríkjahers og leyniþjónustu sem karlar eins og Pinochet komust til valda og gátu haldið þeim?
Svo má spyrja sig, hvort Ísland væri núna rússnesk hjálenda ef ekki hefði verið fyrir bandarísku hersetuna allan seinni helming síðustu aldar?
Ég tel það í besta falli langsótta og hæpna kenningu.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.4.2015 kl. 14:59
Var þetta eitthvað tvísýnt ástand? Kratarnir komu í bakið á Ólafi. Hann var svo blankur drengurinn :)
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.4.2015 kl. 16:13
Í Seinni heimsstyrjöldinni lifðu Íslendingar fyrst á breska hernum en þvínæst á þeim bandaríska fram á þessa öld.
Þáverandi utanríkisráðherra, nú á jötu sægreifanna og kominn út í móa, grátbað bandaríska herinn um að vera hér áfram en allt kom fyrir ekki og sá undir iljarnar á hernum þegar hann fór héðan út um allar heimsins koppagrundir sumarið 2006 til að verja mann og annan.
Þá var hins vegar svo mikið "góðæri" í landinu að ráða varð tugi Pólverja, búsetta í Reykjavík, og greiða þeim 700 þúsund krónur á mánuði fyrir að pakka niður búslóðum bandaríska hersins á Miðnesheiði eins fljótt og auðið væri.
Lítils voru þá virði mörg og fögur íslensk tár sem féllu í Hvíta húsinu.
Þorsteinn Briem, 11.4.2015 kl. 17:51
George W. Bush og Davíð Oddsson í Hvíta húsinu
í júlí 2004. Davíð var utanríkisráðherra frá 15.
september 2004 þar til Halldór Ásgrímsson
skipaði hann seðlabankastjóra ári síðar.
Þorsteinn Briem, 11.4.2015 kl. 18:44
Ómar ert þú ekki úti á túni. 1921 + kaldastríð?
hvar ert þú?
Hörður Einarsson, 11.4.2015 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.