"Hið kalda hjarta hafanna."

Enn er hafin umræða um það hvort kólnandi veðurfar sé í vændum hér á landi og hvort nýtt kuldaskeið, allt að 30 ára langt, gæti hafist. 

Þessi spurning var viðfangsefni sjónvarpsþáttar sem ég gerði nokkru fyrir síðustu aldamót og bar nafnið "Hið kalda hjarta hafanna."

Þátturinn var að meginstofni danskur en blandað í hann íslenskum köflum, viðtölum og myndum. 

Nánar tiltekið er "hið kalda hjarta hafanna" sterkur hafstraumur sem hlykkjast eins og ormur um Atlantshaf og Indlandshaf. 

Megin drifkrafturinn er hlýr Golfstraumurinn sem þeytist út úr Karíbahafi framhjá Flórída til norðaustur og komast nyrstu greinar hans allt til Murmansk og Svalbarða, en einnig er lítil grein norður með vesturströnd Grænlands og önnur öllu öflugri grein hringar sig sólarsinnis í kringum Ísland. 

Þegar hinn salti Golfstraumur kælist á nyrstu slóðum hans, sekkur hann til botns og fer með botninum til baka suður Atlantshaf yfir í Indlandshaf og til baka aftur og lokar þar með hringekjunni. 

Danir stunda þjóða mest sjómælingar á Norður-Atlantshafi vegna yfirráða sinna yfir Færeyjum og Grænlandi og byggðu sjónvarpsmyndina um þetta á þeim. 

Þeir vörpuðu því fram að ef mjög mikið magn af tæru bræðsluvatni jökla kæmi út í hafið, væri það tæra vatn léttara en kólnandi Golfstraumurinn og myndi valda því að Golfstraumurinn sykki  sunnar en áður og það drægi úr afli hans og þar með hringekjunnar, hins kalda hjarta hafanna, sem knýr áfram æðaslátt hennar. 

Af því drógu þeir þá ályktun, að allt of hröð hlýnun loftslags með stórfelldri bráðnun jökla á norðurhveli gæti orðið til þess að kalla fram kuldaskeið og það jafnvel vísi að nýrri ísöld. 

Einnig var á þessum tíma hægt að sjá á tölvulíkönum að heildarhlýnun lofthjúps jarðar gæti valdið kólnun á afmörkuðum svæðum og til dæmis gæti orðið mun svalara og rakara veðurfar í Norður-Evrópu en áður. 

Undanfarin ár hefur sjór verið mun hlýrri fyrir norðan Ísland en áður og það hefur valdið hlýrra og úrkomusamara veðurfari á norðanverðu landinu en áður. 

Sjórinn nokkru fyrir sunnan landið er hins vegar kaldari núna en undanfarin ár, hvað sem því nú veldur. 


mbl.is Nýtt kuldaskeið gæti tekið við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband