1.5.2015 | 02:09
50 milljarða króna bardagi?
Síðustu tölur um hugsanlega hámarksveltu af bardaga Floyd "Pretty boy" Mayweathers og Manny "Packman" Pacquiao hljóða upp á 400 milljónir dollara, en það jafngildir um 50 milljörðum króna.
Þetta er ekki aðeins dýrasti íþróttaviðburður síðasta aldarfjórðungs heldur sá mesti síðan Mike Tyson barðist við Michal Spinks.
Hann hefur verið nefndur "bardagi aldarinnar" en það er nú kannski full snemmt miðað við það að 85 ár eru eftir af öldinni.
Bardagi Jack Johnsons og Jim Jeffries 1910 var kallaður "bardagi aldarinnar" en síðar komu bardagar sem gerðu meiri kröfur til þess heitis, svo sem fyrsti bardagi Joe Fraziers og Muhammads Alis, en það var í eina skiptiði í sögu þungavigtarinnar sem tveir ósigraðir meistarar börðust.
Mayweather er að vísu ósigraður á glæstum ferli sínum og aðeins tveimur bardögum frá að jafna met Rocky Marcianos, sem hætti keppni með töluna 49-0.
Pacquiao hefur tapað fimm sinnum og tvisvar gert jafntefli, en að sumu leyti verður það að teljast honum til tekna, því að sú reynsla sem fæst af því að þola og taka ósigri og vinna sig út úr honum er afar dýrmæt.
Þrír ósigrarnir voru snemma á ferlinum en Packman spilaði sérstaklega glæsilega úr því að tapa tveimur bardögum árið 2012.
Það er búið að bíða í sex ár eftir þessum bardaga. Þess vegna hefur gildi hans magnast svona svakalega upp enda eru þetta tveir bestu hnefaleikarar heims.
Báðir eru þessir snillingar líklega að byrja að tapa getu, Mayweather 38 ára og Pacquiao 37 og þessi aldur hefur verið örlagaaldur fyrir marga þeirra frægustu, svo sem Jim Jeffries, Joe Louis, Jersey Joe Walcott og Muhammad Ali.
En boxspekingar erlendir hafa fært að því rök að stundum verða bardagar milli tveggja afburða manna, sem örlítið eru farnir að dala, bestu bardagarnir, og má benda á þriðja bardaga Ali-Frazier sem dæmi um það.
Floyd Mayweather verður að teljast sigurstranglegri. Hann er þyngri að upplagi, þótt barist sé í veltivigt, 4 sentimetrum hærri og með 13 sentimetrum breiðari faðm. Hann er mesti varnarsnillingurinn í boxinu og höggþolinn.
Það kemur sér vel bæði í vörn og sókn að hafa svona miklu meiri faðmlengd en andstæðingurinn.
Pacquaio hefur þó eitt mikilvægt með sér: Hann er örvhentur. "Rétthendir" menn fá aðeins tækifæri í innan við 10% bardaga til að berjast við örvhenta, en þeir örvhentu fá tækifærin í yfir 90% sinna bardaga.
Ef einhver heldur að Floyd Mayweather verði örlátur á að borga tryggingar fyrir þá vini sína sem hafa komist í kast við lögin er ekki á vísan að róa í því efni.
Mayweather hefur getið sér orð fyrir einstaka fjármálakænsku og spilað vel úr sínu og gerir helst engin mistök eða tekur áhættu á því sviði.
![]() |
Vonar að Mayweather borgi trygginguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi bardaga verður veisla og ég hlakka til að heyra ykkur Bubba lýsa þessu :)
Gunnar Sigfusson (IP-tala skráð) 1.5.2015 kl. 10:18
Hafiði tekið eftir friðsældinni?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 1.5.2015 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.