Öld orkuskiptanna.

Líkurnar á því að 21. öldin marki endalok Olíualdar og að orkuskipti eigi sér stað er svo yfirgnæfandi að það er fásinna að tregðast við og tefja fyrir þessum tímamótum. 

Það er hins vegar mjög auðvelt að berja hausnum við steininn og afsaka aðgerðarleysi. 

Það hefur til dæmis dregist úr hömlu að ég og fleiri hafi þó ekki væri nema fikrað sig í áttina að orkuskiptunum. 

Helsta afsökunin er skortur á tíma og peningum. Það er svo fljótlegt að ganga út fyrir húsið, setjast upp í bílinn og aka af stað. Mun minna vesen en að klæða sig betur, ganga út á strætóstöð og ganga síðan og bíða mismikið í slíkri ferð þar sem hægt er að líta á þann tíma sem glataðan. 

En það þarf hann ekki að vera. Margar bestu hugmyndirnar verða til þegar maður er að gera eitthvað annað en að njóta hefðbundinna þæginda í hugsunarleysi. Og góðar hugmyndir og uppbrot á hversdagsleika hreyfingarleysisins geta gefið af sér peninga. 

Afsökunin gagnvart reiðhjólum, venjulegum eða rafknúnum að hluta, gagnvart rafskutlum eða rafbílum er oft peningaleysi, skortur á byrjunarfjármögnun og óhagstætt veður. 

Í blaði nú nýlega voru auglýst ónotuð ársgömul rafknúin reiðhjól á hálfvirði, eða 75 þúsund krónur. Af nýfenginni reynslu af því að taka ónotað hjól af því tagi í fyrra upp í söluverð á gömlum bíl, sem ég fékk mér til þess að sinna Sauðárflugvelli, gæti verið um það að ræða að afl og drægni rafhlaðanna hefði dalað.

Það þarf að gæta vel að ástandi rafhlöðunnar, jafnvel þótt um lithium rafhlöðu sé að ræða.Rafknúið reiðhjól

Í mínu tilfelli var það þannig, að þegar ég ætlaði að taka hjólið fram, hlaða það og selja það, hafði geymirinn tapað getunni og hjólið þar með orðið orkulaust og verðlaust.

Ég er bæð með léleg hné og slæmt bak, sem þola ekki ástríðuhjólreiðar eins og þær voru í gamla daga. 

En í þessari óvæntu stöðu var engin afsökun lengur fyrir því að gefast upp og undanfarinn mánuð hef ég verið að basla við að koma lífi í rafgeyminn á hjólinu hægt og bítandi og hef nú komið honum upp í að draga 13 kílómetra.

Vegna þess að flest erindi mín eru samtals um 20-30 kílómetrar hafa flestar ferðirnar fram að þessu hafa verið tvíþættar, ekið helming leiðarinnar með hjólið í bíl en hjólaður helmingurinn, fyrst aðeins nokkrir kílómetrar en síðan æ lengri vegalengd eftir því hvernig lærst hefur að spara orkuna. 

13-15 kílómetrar eru að vísu innan við helmingur af því sem nýr geymir á að geta skilað, en gefur samt möguleika á að hjóla frá austasta hluta Grafarvogs, þar sem ég bý nú, alveg niður í gamla miðbæinn og taka síðan strætó til baka.

Ég sé núna, hve það hefði verið gráupplagt að hefja orkuskiptin mörgum árum fyrr á þeim tíma sem ég bjó á Háaleitisbrautinni.

Svona hjól eru ódýr á Íslandi miðað við verð í öðrum löndum.    

En jafnvel þótt greitt væri fullt verð fyrir nýtt hjól af því tagi, eru 150 þúsund fyrir pottþétt nýtt hjól ekki stór upphæð þegar horft er á raunverulegan kostnað þess að reka bíl, kostnað sem flestir dylja með því að horfa bara á fjórðung útgjaldanna, sem er eldsneytiskostnaðurinn. 

Heildarkostnaður að meðaltali er 120 krónur á ekinn kílómetra. Borgarsnatt upp á 30 kílómetra kostar því 3600 krónur. 

Veðrið er líka notað sem afsökun fyrir því að vera ekki á ferð í lokuðu farartæki og víst er bæði kaldara hér á landi að meðaltali en í öðrum löndum og stórviðrasamt á veturna. 

En þetta er ekki nógu sterk afsökun, þótt maður hafi hyllst til að nota hana, til dæmis í vetur. 

Það er hressandi að hjóla og bara þægilegt á stuttum vegalengdum. Og hreyfingin, útiveran og tíminn, sem á yfirborðinu fer til spillis, skapa andlega og líkamlega endurnæringu.

 

 


mbl.is Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband