2.5.2015 | 13:29
Vanmat á Pírötum og ótti við lýðræðið.
Stefna Pírata er meðal annars sú að nota nýjustu upplýsingatækni og netið til þess að útbreiða þekkingu meðal fólksins um þau málefni, sem það þarf að leysa úr á lýðræðislegan hátt.
Augljós munur er á því að nýta netið til þessa eða með því að 20 til 30 manna kynningarfundir um einstök mál eigi að nægja.
Meðal Pírata eru ýmsir af snjöllustu frömuðum í þeim fræðum, sem tengjast þessari notkun netsins til þess að stórauka lýðræði og bæta það.
Nú tíðkast mjög upphrópanir vegna góðs gengis Pírata á þá lund að þeir séu skoðanalausir og nærist á neikvæðu óánægjufylgi. Mikið er gert af því að gera lítið úr þingmönnum þeirra og forystufólki.
Hrópað er upp um það að þeir vilji drepa málum á dreif með því að lama fulltrúalýðræðið og leysa álitamál og vandamál sem oftast með almennum atkvæðagreiðslum, sem séu uppgjöf gagnvart viðfangsefnum stjórnmálamanna.
Þeim er líka nuddað upp úr því að vera anarkistar.
Þetta eru einkennilegar hugmyndir um lýðræði, að beint lýðræði sé það sem beri að varast og að þeir sem vilji bæta og efla lýðræði séu anarkistar og lýðskrumarar.
Píratar berjast fyrir upplýstu beinu lýðræði, af því að bylting í fjarskiptum og samskiptum opnar nýja möguleika á bættu og upplýstara lýðræði og því að auka vald fólksins sjálfs.
Píratar kveða einir öllum stundum upp úr með það að fara eigi eftir þeim vilja, sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um stjórnarskrármálið.
Vel mættu aðrir stjórnmálaflokkar fara að huga betur að því og líta í eigin barm.
En margir virðast vera dauðhræddir við að fólkið fái að ráða og segjast samt vera lýðræðissinnar.
Að sjálfsögðu er hægt að finna neikvæðar hliðar á ýmsu, sem tengist Pírötum. Í stuttu máli má orða það svo að hætta sé á að þeir festist um of í reynsluheimi netheima og vanræki reynsluheim mannheima og bein tengsl við fólk.
Og veruleiki netheima getur því miður oft orðið ansi bjagaður og auðvelt að lenda þar á glapstigum og villigötum.
Píratar hafa sýnt sanngjörnum höfundarrétti listamanna lítinn áhuga, en á móti kemur að þar er við að etja nýjan veruleika sem listamenn sjálfir hafa átt erfitt með að átta sig á.
Það breytir því ekki að vanmat á Pírötum mun í engu verða öðrum flokkum til góðs.
Píratar í stórsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki var að heyra að nýjasta upplýsingatækni og netið hafi dugað þessum snjöllustu frömuðum í þeim fræðum svo vel að þeir gætu tekið afstöðu til margra þeirra mála sem borin voru upp á Alþingi í vetur. Það á þó að heita þeirra vinna og vandséð hvernig "þjóðin", í sínum frítíma, á að geta gert betur.
Það er munur á lýðræði og skrýlræði. Ábyrgð þingmanna er mikil og henni verður ekki varpað yfir á þjóðina með skoðanakönnunum. "Þjóðin" er eiginhagsmunaseggur, "þjóðin" tekur ekkert tillit til minnihlutans. "Þjóðin" mundi setja allt vegafé í vegabætur á SV horninu. "Þjóðin" mundi loka háskólum og sjúkrahúsum utan Reykjavíkur svo bæta mætti þjónustuna í Reykjavík. "Þjóðin" mundi skattleggja flest fyrirtæki í þrot. "Þjóðin" eru einstaklingar sem taka ákvarðanir útfrá eigin þörfum og skammtímahagsmunum frekar en þörfum heildarinnar. "Þjóðin" býr í Reykjavík.
Espolin (IP-tala skráð) 2.5.2015 kl. 14:24
Þetta er eiginlega alveg bráðfyndið.
Píratar í Reykjavík hunsa þjóðarvilja í flugvallarmálinu. Þegar kemur að því að sitja um völd og áhrif, þá eru Píratar í engu frábrugðnir öðrum.
Þegar síðasta könnun birtist, Pírötum spáð næst mestu fylgi, þá fóru ýmsir þeirra hamförum á netinu, og einmitt boðuðu þjóðaratkvæði um allt og ekkert, nema, það sem þeir kalla mannréttindi. Sumsé, Píratar hafa ekki einu sinni náð völdum í landstjórninni, en samt byrjaðir á að boða um hvað má kjósa, og hvað ekki.
Það var ekki svo að skilja, að Píratar ætluðu að leyfa þjóðinni að ákveða hvað ætti að kjósa um, nei, þeir ætluðu að gera það sjálfir.
Þetta minnir óneitanlega á skrípaleikinn í kringum stjórnarskrárbreytingu vinstrimanna. Þeir pikkuðu út þrjár greinar, sem hentuðu þeim í fyrirfram hannaða niðurstöðu, en héldu 110 greinum frá almenningi, m.a. þeirri sem hefði leyft vinstrimönnum að framselja vald án aðkomu þjóðarinnar.
Vinstrimenn, hvort sem það eru Píratar eða aðrir, eru alveg tilbúnir til að leyfa þjóðinni að ákveða að samþykkja, það sem þeir sjálfir eru búnir að ákveða.
Hræsni... hræsni... hræsni...
Hilmar (IP-tala skráð) 2.5.2015 kl. 16:26
Þetta með þjóðaratkvæði um öll mál, (sem best er að taka fram og undirstrika að eg hef margoft varað við. þ.e. að þjóðaratkvæði geta alveg átt rétt á sér stundum en það þarf ramma um slíkt og takmarkanir)- að þá hefur þessi krafa eða vilji verið viðloðandi langa lengi meðal stórs hluta þjóðarinnar. Alveg frá um 1900 amk. Einmitt uppúr 1900 fóru fram nokkrar þjóðaratkvæðagreiðslur. Síðan dettur þetta niður í kreppunni og seinna stríði en dúkkar af og til upp aftur.
Í lok 20.aldar fer svo umrædd krafa á flug aftur og í upphafi 21.aldar til þessa dags hefur verið sí-vaxandi þungi í kröfunni. Skoðanakannanir og ein þjóðaratkvæðagreiðsla sýnir gríðar stuðning við nefnt atriði. Gríðarstuðning.
Þetta er eitt höfuð mál Pírata og þeir njóta góðs af núna.
Það virðist engin leið að stoppa þungan í þessari kröfu. Hann eykst bara eykst, að því er virðist.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.5.2015 kl. 16:43
Ps. eins og núna, komnar um 16.000 undirskriftir á einu degi.
Það er engin leið að stoppa þetta.
Þetta hefðu sjallar, framsóknarmenn og forseti átt að hugsa útí áður en þeir fóru að lýðskrumast um árið.
Þetta virðist eitt af því fá sem er viðvarandi á Íslandi. Þ.e. krafan um þjóðaratkvæðisrétt. Viðvarandi ár eftir ár eftir ár.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.5.2015 kl. 17:02
"....að þjóðaratkvæði geta alveg átt rétt á sér stundum en það þarf ramma um slíkt og takmarkanir...."
Hárrétt hjá Ómari Bjarka.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.5.2015 kl. 19:41
Það er lykilatriði fyrir þingflokka að hafa aðstöðu til að vera með puttann á púlsinum í nefndastörfum þingsins. Þingmenn Pírata eru aðeins þrír, þetta er langminnsti þingflokkurinn, og þess vegna geta þeir ekki nálgast eins nefndastarfið og aðrir þingflokkar.
Meðal helstu atriði nefndastarfanna eru heimsóknir utanþingsfólks á fundina til að upplýsa mál og rökræða um þau.
Píratar virðast það hreinskilnir að þeir vilja frekar segja pass heldur en að greiða atkvæði að of lítið rannsökuðu máli.
Ríkisstjórnin hefur drjúgan þingmeirihluta og beitir honum af afli, svo að atkvæði Pírata skipta yfirleitt engu máli og þá er skárra að taka ekki afstöðu frekar en ranga afstöðu.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2015 kl. 22:38
Helgi Hrafn útskýrði hjáseturnar fyrir nokkrum vikum. Ómar útskýrir þær aftur hér að ofan og engu við það að bæta.
En það sem Hilmar segir, hér að ofan, er ekki alveg rétt. Að fólk fái að kjósa um það sem þeim er leyft að kjósa um og ekkert annað. Að Píratar aðhyllist einhverja stjórnarfarslega brauðmolakenningu. Píratar hafa, þvert á móti, talað fyrir því að fáist visst margar undirskriftir um tiltekið mál, beri að setja það í þjóðaratkvæði. Það er því undir þjóðinni sjálfri komið hvaða mál er kosið um.
Það sem háir flokknum núna er smæð og væntingar. Þrír þingmenn hafa engan möguleika á að koma sér inn í öll mál svo vel sé, en með 30% fylgi í könnunum eru þær kröfur gerðar til flokksins að hann sé jafn upplýstur og flokkur með hátt í 20 þingmenn. Þetta er skrítin staða sem aldrei hefur áður komið upp, svo ég viti. Miðað við þessa furðulegu stöðu, standa þau sig stórvel.
Villi Asgeirsson, 3.5.2015 kl. 07:51
Ég sé fyrir mér að ný framboð gætu orðið eitt frá hverjum fjórflokki sem hefðu það að markmiði sínu að taka til sín fylgi frá Pírötum en til vara að fá þingmenn sem renna svo í fjórflokkinn eins og Nýtt afl gerði sem dæmi undir forustu Jóns Magnússonar fv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Það má færa fyrir því líkur að Nýtt afl hafi tryggt að Frjálslyndi flokkurinn sem þá stóð sem hæst í sinni velgengi fékk bara fjóra þingmenn kjörna í staðin fyrir fimm til átta þingmenn samkvæmt skoðunarkönnunum vegna þingkosninganna árið 2003.
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 3.5.2015 kl. 11:36
Píratar eru að bergja af bikar þess óafmáanlega fyrirbrigðis stjórnmála að þurfa að gera slæma málamiðlun til þess að sýna það að þeir séu stjórntækir og geti haft áhrif með því að mynda ráðandi og stjórnandi meirihluta.
Stefna þeirra í Reykjavíkurflugvallarmálinu var sú að það mál ætti að útkljá í allsherjaratkvæðagreiðslu, helst þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta töldu þeir greinilega að þeir yrðu að bakka með ef þeir ætluðu að vera innanborðs í núverandi borgarstjórnarmeirihluta.
Að því leyti voru þeir "flugvallarvinir" sviknir, sem kusu þá út á þetta atriði, af því að ómögulegt væri að kjósa Framsókn.
Ómar Ragnarsson, 3.5.2015 kl. 11:44
Píratar eru búnir að sanna sig fyrir borgarstjórninni en ekki kjósendum. Þeir eru "stjórntækir" en kjósendur að sama skapi ómarktækir. Píratar eru ekki fulltrúar lýðræðis frekar en Kim Jong-un.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 3.5.2015 kl. 13:09
Fáist visst margar undirskriftir um tiltekið mál, beri að setja það í þjóðaratkvæði...sem verður auðvelt með heilbrigðis, mennta, löggæslu og samgöngumál í Reykjavík og fiskveiðistjórnunarkerfinu verður rústað og allt gefið frjálst. Það fást engir tugþúsundir til að kalla eftir þjóðaratkvæði um fjármagn í vegaframkvæmdir í Þingeyjarsýslum, löggæslu á Vestfjörðum, Vestmannaeyjaferju og heilsugæslu á Egilsstöðum. En Sundabraut, mislæg gatnamót um alla Reykjavík, hátæknisjúkrahús og löggæsla á heimsmælikvarða í öllum hverfum Reykjavíkur munu verða á fyrstu fjárlögum. Landsbyggðin, minnihlutinn fær að mæta afgangi þegar meirihlutinn búsettur í Reykjavík ræður.
Þrír þingmenn hafa engan möguleika á að koma sér inn í öll mál svo vel sé þó það sé þeirra vinna...en ætlast er til þess að þjóðin komi sér vel inn í öll mál, ákveði hvort þau fari í þjóðaratkvæði og taki upplýsta ákvörðun. Píratar virðast það hreinskilnir að þeir vilja frekar segja pass heldur en að greiða atkvæði að of lítið rannsökuðu máli...en þjóðin mun ekki láta smáatriði eins og þekkingarleysi koma í veg fyrir þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum, tilfinningar og færustu áróðursmeistarar munu þar fá að ráða för.
Espolin (IP-tala skráð) 3.5.2015 kl. 14:34
Píratar eru Evrópuflokkur.
Í raun punktur basta.
Fylgi Pírata er haugalygi fjölmiðla.
I það minnsta fölsun ...
Leibbi Leibbs (IP-tala skráð) 16.5.2015 kl. 03:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.