6.5.2015 | 19:42
Kanntu annan?
"Framsóknarflokkurinn er auðlindaflokkur." Ef Vigdís Hauksdóttir hefði látið þessi orð nægja sem skilgreiningu á flokk sínum hefðu þau vel getað staðist út af fyrir sig.
Og þingsályktunartillaga hennar um að fá fram vandaða greiningu á auðlindum Íslands og gildi þeirra er vonandi vísbending um það að flokkssystkin hennar geti hugsað sér að meta auðlindamálin upp á nýtt.
Ekki er vanþörf á eftir hörmulegan feril flokksins í þessum málum síðustu tuttugu ár þar sem hann hefur lengst af verið í forystu í framkvæmd stórfelldustu óafturkræfu umhverfisspjalla og rányrkju sem Íslendingar hafa framið.
Vonandi endurvekja Framsóknarmenn anda Eysteins Jónssonar forystumanns flokksins um miðja síðustu öld, en Eysteinn var um árabil í forystusveit íslensks náttúruverndarfólks.
Og núverandi umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur orðið fyrst ráðherra flokksins til þess að hvetja til þess að hægja á ferðinni í hernaðinum gegn landinu sem hefur staðið linnulítið síðan 1995.
En Vigdís slær örlítið á þessa bjartsýni mína þegar hún heldur áfram með setninguna, sem höfð er eftir henni hér að ofan, svo að setningin verður svona í heild:
"Framsóknarflokkurinn er auðlindaflokkur sem skilur jafnvægið á milli umhverfisverndar og auðlindanýtingar."
Í ljósi ferils flokksins fram að þessu er aðeins hægt að segja þetta við Vigdísi: Kanntu annan?
Vigdís, eins og flestir Íslendingar, virðist ekki skilja það að umhverfisvernd þarf ekki að vera andstæða auðlindanýtingar.
Umhverfisvernd getur verið nýting í sjálfu sér og er verndarnýting Gullfoss gott dæmi um það.
Forsenda þess að hægt sé að víkja af rangri leið yfir á rétta er að skilja, hvað hafi verið rangt fram að þessu og skoða og skilgreina hlutina ítarlega og vel.
En úr því að Vigdís ber fram tillögu á Alþingi um mikilsverðan þátt í slíkri skoðun getum við kallað það góðu fréttirnar og gefið henni prik fyrir það.
Vafalaust meinar hún þetta vel og finnur hve mikið skortir á þekkingu og yfirsýn yfir þennan mikilsverða málaflokk.
Flytur tillöguna í fimmta sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.