13.5.2015 | 01:10
Ógleymanlegt augnablik!
Þrjár sekúndur eftir, Gróttustúlkur finna ekki glufu og virðast vandræðalegar, tíminn alveg á þrotum, en Lovísa Thompson hefur eftir sendingu sína út í hægra hornið, bakkað örlítið út fyrir varnarmúrinn og fær boltann þar.
Hún tekur tvö stutt og snörp skref, fyrir framan hana er hávörn og hún er meðal lægri leikmanna. Greinilega síðasta hálmstráið í vonlausri aðstöðu.
Hún lætur vaða leiftursnöggt og markvörðurinn sér boltann ekki strax þar sem hann strýkst á milli uppréttra handanna í hávörninni sem auk þess að reyna að verja skotið skyggja á skothönd Lovísu og boltann þar til hann er kominn vel inn fyrir.
Markvörðurinn sér því boltann of seint til þess að koma vörnum við og hann fer eins og raketta inn í markið alveg upp við þverslána svo óvænt að ógleymanlegt verður.
Stjarnan var búin að vera yfir allan leikinn og meira að segja komið með drjúgt forskot í síðari hálfleik.
En sagt var til forna að ekki skyldi spyrja að vopnaviðskiptum, heldur leikslokum, eða eins og Jón bróðir sagði svo oft þegar engin von virtist sjáanleg: "Rallið er ekki búið fyrr en það er búið".
En, kæru stelpur, allar saman, í Gróttu og Stjörnunni, knúsþakkir fyrir dásamlega skemmtun í kvöld. Það þarf tvo aðila til að skapa svona gott efni til að horfa á í íþróttum og þið eigið allar aðdáun mína í kvöld.
Sigurmark Lovísu (myndskeið) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.