Ullað á kjörorðið "Þú tryggir ekki eftir á!"

"Þú tryggir ekki eftir á!" var kjörorð tryggingarfélags hér um árið. Ég hélt að forvarnir, eftirlit og rannsóknir væru frumatriði í heilbrigðiskerfinu, einkum hvað varðar lúmska og banvæna sjúkdóma og að það væri of seint að tryggja eftir á, þegar meinið eða ástandið uppgötvast ekki fyrr en það er orðið ólæknandi. 

En nú virðist það vera álitið forsvaranlegt að þúsundir bíði á biðlistum í marga, marga mánuði eftir því milli vonar og ótta, hvort sloppið hafi verið fyrir horn eftir að víðbúnaði og eftirliti hefur verið frestað jafnvel fram á næsta haust í mörgum tilfellum.

Og við eigum bara að yppta öxlum á meðan þetta ástand er, af því að á meðan það varir, verður endanleg niðurstaða ekki komin í ljós og allir þeir, sem eru í óvissu, vona að það verði einhverjir aðrir sem falli í þessari risavöxnu rússnesku rúllettu þegar öll kurl eru komin til grafar í orðsins fyllstu merkingu. 

En kaldur líkindareikningur segir, að niðurstaðan varðandi svona stóran hóp og svona langan tíma verði í tölu látinna, og þá verður ekki tryggt eftir á.

Á þessari bloggsíðu hefur í vetur verið tekið undir með læknum í kjarabaráttu þeirra og almennt undir kröfur um að vanrækja ekki heilbrigðiskerfið.

Þetta var reifað hér á síðunni á þeim forsendum að haldi flótti lækna áfram úr landi muni fótunum verða kippt undan heilbrigðiskerfi sem stenst nútíma kröfur.

En þar með verður líka kippt fótunum undan því að fólk vilji eiga heima hér eftir að skapast hefur þjóðfélag með annars flokks heilbrigðisþjónustu og þá verður kominn af stað vítahringur, sem mun draga þjóðina og kjör hennar niður.

Þetta snýst um það að líf og heilsa séu sett efst allra mannréttinda. Og ef menn endilega vilja meta allt til peninga, er það fólk með líf og heilsu sem skapar verðmæti. 

En því fylgir að "heilagur" réttur til verkbanna og verkfalla verður að víkja, ef líf og heilsa eru að veði. Rétturinn til lífs og heilsu hlýtur ævinlega að vera heilagastur, - eða er það ekki? 

Því að sé "ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga", eins og það er orðað í fyrirsögn tengdrar fréttar, heldur ullað á kjörorðið "þú tryggir ekki eftir á" mun það hafa sömu áhrif og læknaflótti myndi hafa: Fólk flýr land, sem er að verða vanþróað land í heilbrigðismálum og getur ekki tryggt öryggi sjúklinga.  


mbl.is Ekki hægt að tryggja öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manni virðist, að undir liggi áætlanir um vaxandi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, enda má sjá á uppgangi fyrirtækja á borð við Sinnum ehf., sem núna stendur fyrir uppbyggingu á stórri þjónustumiðstöð í amerískum stíl þar sem Hótel Ísland hefur verið. Það hefur ekki farið milli mála að það er unnið að þessu af hálfu ýmissa afla og einstaklinga og þarf ekki að nefna nöfn í því samhengi. - Opinbera kerfið er skipulega svelt og það ágæta fólk, sem þrælar þar fyrir smánarlaun, er óðum að gefast upp á að starfa þar við þau skilyrði, sem því eru búin. Á það jafnt við lækna sem hjúkrunarfólk og ekki síður lífeindafræðinga og geislafræðinga. Þótt eitthvað hafi þokast í áttina að lagfæringu á kjörum lækna í vetur, er þar alltof skammt farið og augljóst að háskólamenntað fólk fær ekki þau kjör, sem eðlileg geta talist í samanburði við nágrannalöndin og því skyldi engan undra að þetta fólk sé fjölmennt í þeim sístækkandi hópi, sem kýs að flytja úr landi.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 13.5.2015 kl. 04:56

2 identicon

Vinstrimönnum finnst það lítið mál að flytja inn verkafólk frá fátækum löndum, til að halda niðri launum meðal íslensks verkafólks. Það er náttúrulega svolítið hlálegt, að sá hópur skuli vera hryggjastykkið sem vinstrimenn í flokkakerfinu og verkalýðsfélögunum klifra sífellt upp eftir. Og alltaf verða íslensku verkamennirnir fátækir, verulega fátækir, sem t.d. læknar verða aldrei.
Samt er vandinn lág laun lækna, ekki smánarleg laun verkamanna.

Auðvitað skapast þetta af því að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta drepið fólk löglega, með því að neita því um lífsnauðsynlega þjónustu, en það getur verkafólkið náttúrulega ekki.

Og ef læknar fá ekki það sem þeir vilja, með verkföllum, þá hóta þeir brottflutningi og kaupa sér þjónustu almannatengsla til að koma skilaboðunum sínum skýrt og greinilega á framfæri. Enginn hefur áhyggjur af því að verkalýðurinn flýji land, enda sjaldnast sem forysta þess sér ástæðu til að kaupa þjónustu almannatengla.

Lausnin er að leyfa læknum og öðrum sem telja sig ómissandi, að flytja bara úr landi. Við fyllum bara upp með læknum frá fátækari löndum. Við þurfum þó ekki að hafa áhyggjur, eða vonast eftir, að íslenskir lögfræðingar, viðskiptafræðingar og aðrir álíka flytji úr landi. Það er engin eftirspurn eftir þeim erlendis.

Hilmar (IP-tala skráð) 13.5.2015 kl. 10:55

3 identicon

SMÁ MISKILNINGUR ÓMAR  en fyrst þetta,,,,Ég er  ómenntaður verkall í heilbrigðisgeiranum ,,en er skuldlaus íbúðareigandi sem kemmst auðveldlega í önnur óskild störf mér til tekjuöflunar  ,,,og hef það bara ágætt´á íslandi .ar( 2 ár í noregi og kann norsku og get farið þangað í gott starf á morgun ef ég vildi)V  En margir miskilja þessa kjarabaráttu.,,,no 1 Starfsmannafélag ríkistofnana er ákaflega hæf stofnun og hefur skilað miklum árangri til sátta og kaupmáttaraukningar,ma námskeiðahalds og þar góður mórall,,ÁRNI STEFÁNSSON  er þar formaður OG FÁÐU STÖÐUNA HJÁ HONUM SÍMLEIÐIS ÁÐUR EN ÞÚ SKRIFAR UM SVO FLÓKIN MÁLEFNI SEM VERJALÝÐSMÁL ,trúnaðarmenn ákaflega sáttir við það félag leyfi ég mér að fullirða ,,en borgin með sitt verkalíðsfélag er ákaflega óvirk og léleg stofnun td eru vagstjórar reykjavíkur þar með félag  með hámarkslaun 167000 á mánuði (Eflingverkalíðsfélag vagstjórar með 130000 hugsaðu þér)ná meðan ómenntaðir stuðningsfulltrúar  hjá ríkinu  með próflaust grunnám með yfir 183 þúsund á mánuði  Og talsvert mikið í boði í kerffinu til að hækka launin . og vaxa þroskast og blómstra. Það komu miklar leiðréttingar frá ríkistjórnini í haust þar sem óbreyttur verkall fékk 2 launaflokka hækkanir á meðan kennari sem vinnur sem óbreyttur verkall á sjúkrahúsum og sambýli fékk 5 launaflokka.  Þetta hefur aukið hroka hjá sumum  kennaramenntuðum og klofining mikinn enda vinna eir hlið við hlið báðir verkakallar,,,og þrátt fyrir fyrir myndalega hækkun frá ríkistjórnini í haust ath hækkun frá hjá samningum   ÞÁ VILL ÞETTA HROKAFULLA HÁSKÓLKALIÐ MEIRA!!!  ANNARS TALAÐU VIÐ ÁRNA STEFÁNSSON FORMANN STARMANNAFÉLAG  RÍKISINS  KLÁR KARL OG VEL LIÐINN  ,,,,HANN ÚSKÝRIR ÞETTA BETRA FYRIR ÞÉR.    Sími 525-8340. Bréfasími 525-8349 Opið 8-16. Símatími 9–16 Góðar stundir.

Droplaugur (IP-tala skráð) 13.5.2015 kl. 11:22

4 identicon

"Rétturinn til lífs og heilsu hlýtur ævinlega að vera heilagastur, - eða er það ekki?" Nei, og það er langur vegur í að svo verði sért þú að vísa í einhverja skyldu samborgaranna að viðhalda lífi þínu og heilsu óháð kostnaði. Væri svo þá hefðum við vel mönnuð hátæknisjúkrahús í hverjum landsfjórðungi með öllum nýjustu tækjum, launakröfur heilbrigðisstétta væru samstundis samþykktar og aðal hlutverk ríkissjóðs væri að dæla peningum í heilbrigðiskerfið.

Fjármagn er takmarkað og viðhald lífs og heilsu kostar. Má bjóða þér hærri skatta? Minni löggæslu og fækkun skóla? Lægri lífeyri? Fleiri virkjanir? Nei? En ef ég segi þér að kaldur líkindareikningur segi það geta bjargað mannslífi í bættu heilbrigðiskerfi? Ekki heldur? Rétturinn til lífs og heilsu annarra ristir grunnt þegar á hólminn er komið og þú þarft að draga upp budduna eða fórna fossum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 13.5.2015 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband