12.6.2015 | 09:42
Morðið hefði annars ekki verið "mistök."
Ég hef oft haldið því fram að myndin, sem óteljandi bandarískar glæpamyndir kynnu að gefa af bandarísku þjóðfélagi séu rangar.
Ég hef ferðast um og dvalið hjá fólki þar í landi og get borið því vitni að víðast hvar í þeim ríkjum Bandaríkjanna, þar sem svipað dreifbýli og aðstæður eru og hér á landi, standa Bandaríkjamenn okkur framar í ræktun siðprýði og aga.
Hins vegar verður ekki komist framhjá hinum svimandi háu tölum sem sýna miklu fleiri fanga í fangelsum, miðað við fólksfjölda, en í öðrum löndum og sömuleiðis tölum og fréttum af skefjalausri dýrkun á skotvopnum og notkun þeirra.
Afsökunin varðandi það að Bandaríkin séu enn "landnámsland" eða "frontier"-land standast ekki.
Væri svo, væri svipuð morðtíðni í Kanada og Ástralíu og í Bandaríkjunum en því fer fjarri.
Það er eitthvað í hugsunarhættinum "skjóta fyrst og spyrja svo" eins og sést á drápinu á blökkumanninum með pípuna innan um börnin.
Eða í þeim hugsunarhætti að maður hafi verið drepinn "fyrir mistök", það er, tekinn í misgripum fyrir annan mann sem leigumorðingjar áttu að drepa en hafði mistekist nokkrum sinnum að koma fyrir kattarnef.
Af orðanna hljóðan mætti ráða að drápið á manninum, sem leigumorðingjar drápu "fyrir mistök", hefði verið svo slæmt af því að "réttur" maður var ekki drepinn.
Orðalag, sem segir manni að það er eitthvað að þarna fyrir vestan.
Myrtur fyrir mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.