"Túrbínutrixið" í algleymingi. Vilja 360 þúsund tonna álver.

Ekkert hefur breyst í 45 ár síðan Nóbelsskáldið skrifaði sína merkustu blaðagrein: "Hernaðurinn gegn landinu." Þvert á móti hefur brotaviljinn gegn einstæðri náttúru Íslands eflst og magfaldast. 

1970 fólst "túrbínutrixið" í því að stjórn Laxárvirkjunar keypti stórar túrbínur í áætlaða margfaldaða Laxárvirkjun án þess að hafa samið við einn eða neinn, sem málið varðaði eða áttu land á virkjanasvæðinu. Ætlunin var að veita Skjálfandafljóti yfir í Kráká, Mývatn og Laxá og sökkva Laxárdal. 

Þurrka upp fjölda fossa í leiðinni, Hrafnabjargafossa, Aldeyjarfoss og Goðafoss. 

Nú er gerður samstarfssamningur við Kínverskt fyrirtæki sem er sérfræðingur í að nýta sér stöðuna í fátækustu ríkjum heims og í Norður-Kóreu, um að reisa 360 þúsund tonna álver á Skaga sem mun þurfa 700 megavött. En Blönduvirkjun gefur aðeins 150 megavött, sem þegar er búið að ráðstafa í annað. 

Með virkjun Jökulsánna í Skagafirði væri hægt að fá 183 megavött og 28 með Blönduveitu, samtals 211 megavött með stórfelldri röskun á einstæðu gróðurlendi við Héraðsvötn, einu besta flúðasiglingasvæði í Evrópu auk allrar hinnar miklu röskunar á hálendinu suður af Skagafirði. 

Villinganesvirkjun myndi í mesta lagi endast í 80 ár, þótt nafnið "hrein og endurnýjanleg orka" sé notað um hana. 

Álver á Skaga þýðir að tæplega 500 megavött þyrftu að koma úr öðrum landshlutum.  

120 þúsund tonna áfangi er aðeins yfirskin. Bæði Alcoa og Century Aluminium hafa játað að lágmarksstærð sé 360 þúsund tonn til þess að þau sætti sig við arðsemin sinna álvera.

Hætt var við 120 þúsund tonna upphaflega stærð Fljótsdalsvirkjunar og reist 346 megavatta virkjun í staðinn.  

Norðurál borgar eitthvert lægsta orkuverð í heimi og ætlar að þvinga þaö smánarverð áfram með því að þræta fyrir að tími núverandi orkusölusamnings renndur út eftir fjögur ár.

Sveitarfélögin á svæðinu standa á pappírnum sameiginlega að þessum brjálæðislegu áformum en í raun er kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki potturinn og pannan í þessu eftir að hafa í raun tryggt sér og sínum eignarrétt yfir virkjanasvæðinu.

Allt tal um að heimamenn eigi rétt á 150 megavatta orku Blönduvirkjunar gengur ekki upp vegna þess að ef norðanmenn taka allt þetta afl til sín, verður að loka verksmiðjum í öðrum landshlutum landshlutum sem því nemur, en að öðrum kosti að virkja annars staðar 150 megavött.

Og 150 megavött eru aðeins tæpur fimmtungur af því afli sem álver myndi þurfa.   

 

 


mbl.is 120 þúsund tonna álver í Skagabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Þetta er brjálæði.

Sveinn R. Pálsson, 12.6.2015 kl. 13:54

2 identicon

Orkan er ekki fyrir hendi. Vinnuaflið er ekki til staðar fyrir lítið óarðbært álver, hvað þá stærra og arðbærara. Hvers lags hálfvitagangur er þetta eiginlega?

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 12.6.2015 kl. 18:35

3 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Já, þetta er geðveiki. Nú er nóg komið. Ekki fleiri álver! Og engan andskotans streng til Bretlandseyja!

Theódór Gunnarsson, 13.6.2015 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband