Svikin vara seld.

Afl Hellisheiðarvirkjunar hefur þegar dalað úr 303 megavöttum niður í 260 og heldur áfram að minnka. 

Eina leiðin til að bregðast við afleiðingum rányrkjnnar á varma svæðisins er að hefja vinnslu á nýjum svæðum í kring og halda þannig áfram að pissa í skó sinn. 

Þetta er svona álíka og að eftir að þorskstofninn væri ofveiddur á Íslandsmiðum yrði haldið til sams konar rányrkju á miðum nágrannalandanna. 

Frá fyrsta bloggpistli á þessari síðu fyrir átta árum hefur verið varað við því að við ljúgum að okkur sjálfum og öllum öðrum þjóðum að svona ágeng orkustefna sé sjálfbær og byggist á endurnýjanlegri orku. 

Auðvelt er að vitna í ótal heimildir um hið sanna, svo sem skrif Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar í greinaröð í Morgunblaðinu, þar sem þeir lýsa forsendum þess að hægt sé að kalla virkjun háhitasvæða til rafmagnsframleiðslu sjálfbæra þróun og nýtingu á endurnýjanlegri orku.

Því fer víðs fjarri að farið sé eftir þessum forsendum og það eitt er okkur ekki aðeins til háborinnar skammar, heldur ekki síður að ljúga til um málið upp í opið geðið á allri heimsbyggðinni og stunda verslun með endurnýjanlega orku, sem ekki er endurnýjanleg.

Það heitir á mannamáli að selja svikna vöru. 

 


mbl.is „Kjarnorka“ seld Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja frömdu umhverfishermdarverk á Hellisheiði og Reykjanesi undir bumbuslætti svokallaðra umhverfissinna sem töldu jarðvarmavirkjanir miklu náttúruvænni en vatnsaflsvirkjanir. Fyrir utan rányrkjuna sem Ómar nefnir þá er mikil mengun og ekki síst sjónræn frá þessum virkjunum. Til stórrar skammar er hvernig umhorfs er á jarðvarmavirkjanasvæðum á Reykjanesi, Hveradölum og Hellisheiði.

Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 13:00

2 identicon

Hvenær hefur þorskstofnin við Island verið ofveiddur?

samúel kristjánsson (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 15:14

3 Smámynd: Teitur Haraldsson

Hver einasti dropi sem rennur til hafs ó-virkjaður er minna framlag frá Íslandi til verndar umhverfisins.

Teitur Haraldsson, 29.6.2015 kl. 18:03

4 Smámynd: Stefán Stefánsson

Innan í gufuholunum setjast oft útfellingar og æðar stýflast af þeim völdum og við það minnka afköstin.
Því þarf að fara með bor á viðkomandi holu og hreinsa útfellingar og annað sem stýflar æðar og oftast nást fyrri afköst með aðgerðinni.
Þetta er nú sannleikurinn í málinu smile

Stefán Stefánsson, 29.6.2015 kl. 18:30

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er ekki sannleikurinn í málinu, Stefán, því að samkvæmt forsendum fyrir þessum virkjunum er aðeins gert ráð fyrir því að orkan endist í 50 ár af því að meira er dælt upp úr jörðinni en innstreymi nær að jafna upp.

Ef þetta væri svona einfalt eins og þú segir, væri þegar búið að gera þetta og fá til baka sem svarar tveimur Sogvirkjunum, sem þegar hafa tapast.  

Virkjanafíklar tróðu inn Hellisheiðarvirkjun og nýju álveri í Hvalfirði með bumbuslætti rangra upplýsinga og á þeim tíma sem náttúruverndarsamtökin gengu afar nálægt sér fjárhagslega í baráttu gegn margfalt verri virkjun við Kárahnjúka og risaálveri við Reyðarfjörð.

Á þessum árum þurfti að andæfa gegn fyrirhugaðri sókn virkjanafíklanna inn á tugi virkjanasvæða, á Landmannalaugasvæðið, Langasjó, Þjórsárver, Syðra-Fjallabak (Markarfljót), Hágöngusvæðið, Þeystareyki, Bjarnarflag, Gjástykki, Jökulsárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót.  

Þá baráttu háði örmagna og fjárvana hreyfing náttúruverndarfólks gegn ofurefli aðstöðu, valds og fjármuna stjórnmálamanna og peningaafla.

Sagt var í mati á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar að vísindaleg gögn bentu til þess að tryggt yrði að virkjunin yrði hrein með notkun nýrrar tækni og að mynd standast kröfur um 50 ára endingu orku hennar.

Auk þess væru aðeins nokkur ár þangað til hægt yrði með djúpborunum að fimmfalda til tífalda orkuna. 

Sumir þeirra sem kenna umhverfisverndarfólki nú um Hellisheiðarvirkjun sögðu á sínum tíma að þeir umhverfissinnar sem ömuðust við virkjuninni væru "öfgamenn" og "á móti öllu."    

Ómar Ragnarsson, 29.6.2015 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband