1.7.2015 | 14:36
Ætti að að heita Búðafossvirkjun. Faldir fossar.
Það að kalla Hvammsvirkjun þessu nafni sínu er liður í blekkingarstarfsemi, meðvitaðri eða ómeðvitaðri, til þess að kalla virkjanir nöfnum sem segja sem allra minnst um eðli þeirra.
Meðal slíkra virkjana eru Helmingsvirkjun (Dettifossvirkjun), Norðlingaölduveita (Þjórsárfossavirkjun), Hrafnabjargavirkjun (Aldeyjarfossvirkjun), Búlandsvirkjun ( Skaftárfossavirkjun) og Hvammsvirkjun (Búðafossvirkjun).
Svo langt er gengið í að fela fossana, sem á í raun að virkja, að í mati á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar kemur hvergi fram að við það að þurrka ána upp fyrir ofan Skaftárdal, hverfa fimm fallegir fossar.
Ef Hvammsvirkjun og Holtavirkjun verða að veruleika, en eins og Jón Gunnarsson tók skýrt fram á Alþingi í kvöld, lítur hann á þessar samliggjandi virkjanir sem heild og boðar Holtavirkjun í framhaldinu í haust, hverfur Búðafoss og afl hans færist inn í virkjunina.
Svæðið frá fossinum og langt upp eftir verður raskað stórlega með því að sökkva skógi vöxnum hólmum og heilmiklu landi undir lón, en taka Þjórsá úr farvegi sínum yfir í stöðvarhús austan árinnar í landi Hvamms.
Fossinn er hér á meðfylgjandi mynd og kannski set ég kvikmyndarskeið af honum á facebook síðu mína síðar ef tími vinnst til.
Í baksýn er Hekla. Þetta er næst vatnsmesti foss á Íslandi, næst á eftir Urriðafossi.
Á neðri myndinni sést fiskeldisbygging sem gefur hugmynd um stærð þessa mikla foss.
Um er að ræða stærsta laxastofn á Íslandi, en það skiptir sennilega ekki miklu máli ef marka má samþykkt Alþingis.
En feluleikurinn með fossinn og fleira á svæðinu bendir til þess að miklu þyki skipta að helst enginn viti um hann.
Ef hann væri svona ómerkilegur hefðu menn líklega ekki mikla ástæðu til svona feluleiks.
Hvammsvirkjun færð í nýtingarflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.