Ekki spurningu um hvort, heldur hvenær....

Eldfjallaröðin sem myndar Reykjanesfjallgarðinn og öll hraunin, sem runnið hafa frá þeim eftir að ísöld lauk, segja þá sögu, að myndun Reykjanesskagans hefur ekki aðeins átt sér stað í miklum mæli síðustu ellefu þúsund árin, heldur koma hrinur eldgosa sem geta staðið í nokkrar aldir í senn. 

Tímabilin á milli þessara hrina eru mislöng, en geta verið innan við þúsund ár. 

Síðasta hrina eldgosa, allt frá Hellisheiði til ysta hluta skagans, stóð frá því um árið 1000 og fram yfir 1300. 

Nú er það langt liðið siðan þessi hrina var, að önnur hrina getur héðan af hafist hvenær sem er. Raunar getur eldfjallafræðingum greint á um þetta og Rögnunefndin hefur slegið því föstu að við getum verið róleg næstu aldirnar og þess vegna sé þetta ekki atriði, sem þurfi að hugsa um varðandi gerð nýs flugvallar í Hvassahrauni. 

Eftir stendur sú staðreynd að það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær stórfelldari umbrotahrina hefst á Reykjanesskaga en komið hefur síðustu sjö hundruð ár. Og líkurnar á slíkri hrinu fara vaxandi. 

Talið er að eldgos hafi orðið suðvestur af Reykjanestá vorið 1783 og upp komið eyja, sem sökk eftir skammvinnt gos, en í júní sama ár hófst mesta gos Íslandssögunnar allt frá því um 930, þegar það mesta, Eldgjárgosið, sendi hraun allt niður í Meðalland og stimplaði sig inn sem mesta hraungos á sögulegum tíma hér á landi. 

Í kjölfar Skaftárelda kom síðan gos í Grímsvötnum, þannig að lýsing Jóns Helgasonar, "hornsteinar landsins braka" átti vel við um þessa eldgosahrinu allt frá Eldey til Grímsvatna. 

Nú er nýlokið hrinu við Bárðarbungu og þar á undan Grímsvatnagosi. Hugsanlega eru tíðari gos á Vatnajökulssvæðinu afleiðing af léttingu jökulsins, eins og vísindamenn höfðu spáð en enginn veit hvenær næst muni braka í hornsteinum landsins yfir það endilangt. 


mbl.is Tvö hundruð skjálftar mælst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig getur Rögnunefndin fullyrt að engar áhyggjur þurfi að hafa af eldgosum?

Reykjavíkurflugvöllur er á besta stað sem völ er á og margir borgir líta okkur öfundaraugum að hafa hann svo nálægt. Það er hins vegar rangt að engar borgir hafi flugvöll svo nálægt þéttbýli. Margir stærri og alþjóðlegir flugvellir eru inn í borgum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2015 kl. 12:56

2 identicon

"Raunar getur eldfjallafræðingum greint á um þetta "

Þú skrifar yfirleitt svo afskaplega gott mál Ómar að svona smá ambögur stynga því meir í augu. (Annað með okkur hina) ;-) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.7.2015 kl. 13:24

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Stynga"... stingur í augun yell

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2015 kl. 13:37

4 identicon

Ha,ha,ha.  Gunnar.  Það er nú heldur létt að finna stafsetningarvillurnar hjá mér. Líklega mun auðveldara en hjá Ómari.Þar með heldur lítil frétt í því.  En takk fyrir. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.7.2015 kl. 18:44

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þökk fyrir þetta, Bjarni Gunnlaugur. Sá þetta ekki þegar ég skrifaði það. Læt svona lagað ekki líðast og eyði sennilega athugasemdinni, kann ekki að leiðrétta hana. 

Ómar Ragnarsson, 1.7.2015 kl. 20:30

6 identicon

Ég þegi nú yfirleitt yfir málfarsvillum og stafsetningarvillum (þeim sem ég á annað borð sé) sem ég verð var við í umræðum á bloggi. Sjálfur enda hreint ekki góður á svellinu a.m.k. varðandi stafsetninguna. 

Sé reyndar að þetta er algengur siður á netinu og góður að sama hversu mikið menn greinir á þá er ekki hjólað í ambögurnar. Enda meininging það sem mestu skiftir. (skiptir). Illt væri ef einhverjir sem þó hafa góðar hugmyndir þyrðu ekki að tjá sig af ótta við gagnrýni á formið. 

       Það væri einskonar þöggun formsins.   

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.7.2015 kl. 00:24

7 identicon

Þetta stefnir í að verða mjög spennandi kapphlaup: eldgos í Kapelluhrauni vs. Vatnsmýrin undir sjó.

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.7.2015 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband