4.7.2015 | 00:23
Óvenjulegur stjórnmálamaður.
Þegar leitað er í huganum að Alþingismanni sem hafi haft í heiðri heitið um að fylgja eingöngu sannfæringu sinni, er nafn Péturs Blöndals eitt af fáum nöfnum, sem koma upp í hugann.
Þótt því fari fjarri að almennt hafi fólk verið samþykkt öllum skoðunum hans, virtist hægt að treysta því að hann kæmi fram af hreinskilni og heiðarleika og léti ekki á sig fá, þótt það félli ýmist ekki í kramið hjá flokksfólki og forystu í hans eigin flokki eða hjá fylgismönnum annarra flokka.
Í sumum málum var hann næsta einn á báti með óvenjulegar skoðanir, sem voru þó oftast allrar athygli verðar, því að það var hægt að treysta því að hann skipti ekki um skoðun vegna þrýstings frá öðrum, heldur eingöngu vegna nýrra upplýsinga um eðli máls.
Þessir eiginleikar hans öfluðu honum trausts sem entist honum til fylgis í prófkjörum þann tíma sem hann bauð sig fram til þings, og það var af því að fólk kann yfirleitt að meta svona eiginleika, sem því miður skortir oft á hjá stjórnmálamönnum.
Minningarmessa um Pétur Blöndal á sunnudaginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Pétur Blöndal var stærðfræðingur. Hann var líka skynsamur, er verðmæti áttu í hlut. Pétur skildi einföldustu og jafnframt flóknustu hagfræði. Ekkert kom honum á óvart í opinberrri umræðu, um efnahagsmál. Sem utanaðkomandi, tek ég hatt minn ofan fyrir honum og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Horfinn er góður drengur, með stóra drauma.
Góðar stundir, með kveju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 4.7.2015 kl. 05:56
Sammála, þarna fór maður sem fylgdi sinni eigin sannfæringu og það er einmitt það sem við viljum að þingmenn geri. Fylgi skynseminni og geti skipt um skoðun ef annað kemur í ljós. Við erum orðin svo þreytt á þessum hamskiptum stjórnmálanna og plottinn og hálfsannleikann, leikaraskapinn og ég veit ekki hvað þar stóð Pétur BLöndal uppúr, ásamt nokkrum öðrum eins og til dæmis Jón Bjarnason, Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason, ekkert þessara var lengi í pólitík, nema Pétur honum tókst að ávinna sér traust grasrótarinnar og þó hann væri umdeildur þá naut hann óskorðarar virðingar. Blessuð sé minning hans.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.7.2015 kl. 07:46
Sammála. Við þurfum svona fulltrúa inn á Alþingi sem eru með sínar sjálfstæðu skoðanir en ekki bara strengjabrúður flokkanna.
Jósef Smári Ásmundsson, 4.7.2015 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.