Óseðjandi orkuþörf og slóð álvera og risaverksmiðja.

Bergbrot er eitt af táknunum um óseðjandi og vaxandi orkuþörf mannkynsins þar sem æðibunugangur er gjarnan niðurstaðan, oft með alvarlegum afleiðingum. 

Nú eru þrjú álver á Íslandi, tvö nálægt Reykjavík og eitt á Reyðarfirði, en fróðlegt er fyrir okkur Íslendinga að rifja aðeins upp sögu álveranna sem áttu að "bjarga þjóðinni" upp úr 1990 og hafa átt að bjarga henni æ síðan.

Í kringum 1990 kom upp mikill þrýstingur á að reisa álver á Dysnesi við Eyjafjörð til þess að "bjarga Akureyri" eftir að iðnaður SÍS hrundi þar.

Ekkert varð af þessu álveri og síðan hefur komið í ljós að Akureyri spjaraði sig betur án álversins sem átti að "bjarga" héraðinu frá glötun.

Um svipað leyti kom upp hugmynd um að reisa álver á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd,virkja Jökulsá í Fljótsdal og leggja háspennulínu þaðan um endilangt landið. 

Talað var um að álverið yrði að rísa til að "bjarga" Suðurnesjamönnum og virkjunin gæti "bjargað" Austfirðingum á svipaðan hátt og slíku hafði verið lofað þegar Blönduvirkjun var reist, að hún myndi "bjarga" Húvetningum.

Ekkert varð af álveri á Keilisnesi en í ljós kom að Blönduvirkjun bjargaði ekki Húnvetningum, heldur urðu ruðningsáhrif framkvæmdanna svo mikil, að þegar þeim var lokið, voru Húnvetningar verr staddir en áður og nú er aftur komin upp krafa um að "bjarga" héraðinu.

1997 kom upp hugmynd um stærsta álver heims á Austurlandi til að "bjarga" Austfirðingum og ætlaði Norsk Hydro að reisa 750 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og virkja allar jökulsár Norðausturhálendisins í risavirkjun, sem hlaut nafnið LSD, skammstöfun fyrir Lang Stærsti Draumurinn.

Á endanum var reist helmingi minna álver, en enn er til á teikniborði hugmynd um að virkja Dettifoss til þess að stækka álverið í Reyðarfirði eða fóðra önnur álver. 

2007 kom upp hugmynd um risaálver í Þorlákshöfn til að "bjarga" Sunnlendingum og var heilmikilli vinnu og peningum eytt í það líkt og gert hafði verið um alla fyrrnefndar hugmyndir.

Ekki varð af framkvæmd þeirrar hugmyndar þá, hvað sem síðar verður, því ævinlega skulu þessar hugmyndir vakna að nýju.

Álver á Bakka við Húsavík átti líka að "bjarga" Þingeyingum um svipað leyti og álver í Helguvík átti að "bjarga" Reykjanesbæ.

2008 áttu tvær risavaxnar olíuhreinsistöðvar í Dýrafirði og Arnarfirði að "bjarga" Vestfirðingum. Þótt sagt væri að 99,9% líkur væru á að þessir bjargvættir risu bólar ekki á þeim enn. 

Nú á álver við Skagaströnd að "bjarga" Húnvetningum.

Þegar litið er yfir allar þessar fyrirætlanir og óseðjandi fíknina sem er undirrót þeirra, sést með samlagningu að jafnvel öll virkjanleg orka landsins og eyðilegging allra helstu náttúruverðmæta þess myndi aðeins gefa um 2-3% vinnaflsins atvinnu í þessum verksmiðjum, þótt ævinlega sé sagt að atvinnuuppbygging sé aðeins möguleg á þennan hátt en ekki við "eitthvað annað", sem þó gefur nú um 99% vinnuaflsins atvinnu.  

Hér að ofan hafa verið nefnd alls tvær olíuhreinsistöðvar og sex álver og  sem öll áttu að "bjarga" þjóðinni og má furða heita að þjóðin skuli enn vera lifandi og sæmilega hress eftir að ekkert þeirra reis.  

  


mbl.is Bergbrot hættulegt mönnum og dýrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað mikið, aðallega vegna aukinnar þjónustu og háskólastarfsemi á því svæði og það á einnig við um Akureyri.

Íbúum í þeim sveitarfélögum sem nú mynda Fjarðabyggð, framleiðslusveitarfélagi, fækkaði hins vegar um 11,2%, eða 582, á árunum 1998-2013, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði.

Og í framleiðslubyggðarlaginu Vestmannaeyjum fækkaði íbúum á þessu tímabili um 8,8%, eða 407, og þeim sem búa á því svæði sem nú er í Dalvíkurbyggð fækkaði um 10,5%, eða 218, í byggðarlögum sem nú mynda Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 15,3%, eða 675, og þeim sem búa á svæðinu sem nú er í sveitarfélaginu Norðurþingi, til að mynda Húsavík, fækkaði um 14,6%, eða 489.

Íbúum á svæðinu frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar fjölgaði hins vegar á þessu tímabili um 25%, eða 41.073, og í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði íbúum um 16,5%, eða 2.544, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Þeim sem búa í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði því meira á tímabilinu 1998-2013 en íbúum í þeim byggðarlögum sem nefnd eru hér að ofan fækkaði, samtals 2.371.

Þorsteinn Briem, 7.7.2015 kl. 23:42

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í gær:

"Júní síðastliðinn var met­mánuður í kaup­um Seðlabank­a Íslands á gjald­eyri, þar sem 198 millj­ón­ir evra voru keypt­ar en það sam­svar­ar ríf­lega 29 millj­örðum króna."

"Þetta kem­ur fram í Morgun­korni Grein­ing­ar Íslands­banka, þar sem bent er á að gjald­eyri­s­kaup­in end­ur­spegli að stó­rum hluta mikið inn­flæði gjald­eyr­is vegna þjón­ustu­viðskipta."

Met­mánuður í gjald­eyri­s­kaup­um

Þorsteinn Briem, 7.7.2015 kl. 23:45

5 identicon

Já, já, og umhverfisvæn fjallagrasatýnsla átti að koma í stað álvers og "bjarga" austfjörðum og norðlenska "björgunin" var ullarsokkaprjón við lýsisloga og krókódílarækt.

Strútarækt, saltvinnsla á heimsmælikvarða og tómatrækt sem fullnægði þörfum Evrópu áttu einnig að "bjarga" þjóðinni og má furða heita að þjóðin skuli enn vera lifandi og sæmilega hress þrátt fyrir að hafa afþakkað björgunaraðgerðirnar.

Davíð12 (IP-tala skráð) 8.7.2015 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband