10.7.2015 | 07:21
Mannvirkjafíkn Íslendinga.
Árið 1935 var meirihluti sveitabæja í Húnavatnssýslu og Skagafirði enn torfbæir. Ég var í sveit í Langadal 1950-54 og af sex manns, sem þar bjuggu og höfðu búsetu, bjó helmingurinn í gamla torfbænum.
Það er ekki lengra síðan að við komum út úr torfbæjunum.
Ég er er af kynslóð, sem kalla má jarðýtukynslóðina. Sem drengur hafði ég gaman af því að leika mér að því að búa til vegi í moldarbrekku við bæinn með einföldum tréleikföngum.
Þegar hey var sett upp í svokölluð drýli í vætutíð á túninu hafði ég unun af því að raða þeim þannig, að þau litu tilsýndar út eins og íbúðahverfi með litlum einbýlishúsum.
Alveg fram á tíunda áratuginn var ég hrifinn af hugmyndum um hraðbrautir um hálendi Íslands og studdi stóriðjustefnuna fram yfir 1990.
Kominn að sextugu fór ég að ferðast um þau landsvæði á Norðurlöndum og í Norður-Ameríku sem helst væri hægt að bera saman við Ísland, og sýn mín á land mitt gerbreyttist, þegar ég uppgötvaði að Ísland er eitt af einstæðustu náttúrudjásnum jarðarinnar.
Í græðgisbólunni 2002 til 2008 kom í ljós hvert taumlaus gróða- og mannvirkjafíkn getur leitt þjóðir og álfur.
Sjö árum eftir Hrunið virðist það vera að gleymast og álver í hvern fjörð, virkjanir, glæsibyggingar og sem allra stærst og flest hótel eru í fréttum daglega.
Á tölvuöld þegar rými nýtist æ betur, er okkur talin trú um að það þurfi að skella enn einu steypubákninu ofan í reitinn þar sem Ingólfur Arnarson hélt fyrstu landsnámsathöfnina, 16.500 fermetra hlunki upp á minnst átta milljarða króna.
Okkur er líka talin trú um brýna nauðsyn þess að láta okkur ekki nægja að búið er að reisa virkjanir sem gera okkur kleyft að framleiða fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf fyrir okkar eigin fyrirtæki og heimili, heldur sé þjóðinni ekki viðbjargandi nema að tvöfalda þetta á næstu tíu árum og framleiða árið 2025 tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf.
Mannvirkjafíknin er alltumlykjandi, allt frá steypubáknum í miðbænum upp í hraðbrautir og mannvirkjabelti þvers og kruss um hálendið.
Á ekki að skyggja á Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er það mannvirkjafíkn að vilja fleiri salerni? Ferðamannabransinn er álíka ferskur og fótanuddtæki eða gamlir táfýlusokkar.
http://www.visir.is/brynt-ad-setja-ferdamonnum-skordur--milljon-fleiri-kukar-/article/2015150709034
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.7.2015 kl. 08:00
Nú getur Bubbi búið til fallegan texta um ferðamannaiðnaðinn og milljón kúka sem mjakast nær ...
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.7.2015 kl. 09:25
Hræðilegt, við framleiðum meira rafmagn en við þurfum sjálf. Veiðum fleiri fiska en við borðum sjálf. Bakarí baka fleiri snúða en starfsmenn borða og bændur taka meiri mjólk úr kúm en fjölskyldan notar. Hræðilegt, hvað verður um okkur.
Ísland er eitt af billjón einstæðustu náttúrudjásnum jarðarinnar. Hér, eins og annarstaðar, er hver steinvala einstæð náttúrudjásn sem hvergi finnst annarstaðar. Obboslega merkilegt.
Vagn (IP-tala skráð) 10.7.2015 kl. 10:47
Hér arka þau um landið frekjurassgötin í ferðamannabransanum með halarófuna á eftir sér skítandi og mígandi og reka upp ramakvein ef þau sjá einhvern skúrgarm. Maður bíður eftir því að þetta springi úr frekju þannig að drullan frussist yfir alla dýrðina.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.7.2015 kl. 12:50
"... þar sem Ingólfur Arnarson hélt fyrstu landsnámsathöfnina ..."
"Víkin eða Reykja(r)vík er heiti á vík í suðurhluta Kollafjarðar í Faxaflóa. Hún nær frá Laugarnesi í austri að Örfirisey í vestri."
Þorsteinn Briem, 10.7.2015 kl. 13:52
Hinn eldvirki hluti Íslands er í nýjustu fræðiritum um helstu undur heimsins settur í hóp með 40 merkilegustu náttúrufyrirbærum heims, Vagn.
Ekki í hóp með billjón merkilegustu náttúrufyrirbærum heims.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2015 kl. 17:03
Það er að sjálfsögðu ekki mannvirkjafíkn að bæta úr hreinu ófremdarástandi á ferðamannastöðunum þar sem æpandi þörf er fyrir úrbætur.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2015 kl. 17:05
Og hver eru þessi nýjustu fræðirit um helstu undur heimsins? Það er nefnilega enginn skortur á svona listum. Þeir virka sem góð auglýsing og lókal blöð þeirra sem lenda á listunum keppast við að opinbera hversu merkilegt það sé að lenda á lista. Eitthvað Íslenskt lendir á sumum þeirra þó flestir innihaldi ekkert Íslenskt. En svo virðist sem hin lélegustu sorprit verða snögglega að virtum fræðiritum þegar fjallað er um eitthvað Íslenskt á jákvæðan hátt. Annars held ég að bankabygging í fjörunni við Reykjavík skemmi ekki hinn eldvirka hluta Íslands, hvað sem öllum listum líður.
Vagn (IP-tala skráð) 10.7.2015 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.