11.7.2015 | 07:30
Andi Hrunsins aftur kominn á kreik?
Í aðdraganda Hrunsins urðu fræg ýmis uppátæki íslenskra viðskiptajöfra, svo sem að kaupa Elton John fyrir uppsett verð til landsins, fljúga bunkum af þyrlum og einkaþotum og reisa voldugar sumarhallir.
Stórbrotnust var þó áformið um að reisa þvílíka risabyggingu Landsbankans á mest áberandi staðnum í gamla miðbænum, að aðrar byggingar yrðu eins og dúfnakofar í samanburðinum.
Þetta var sagt að ætti að gera fyrir ofsagróðann af umsvifum íslenskra fjármálasnillinga sem væru að leggja fjármálalíf heimsins að fótum sér.
Fólk tók andköf af hrifningu við á horfa á myndir af þessum stærsta gullkálfi í sögu norrænna þjóða, sem dansað skyldi í kringum.
Átta árum síðar virðist sem byrja eigi að grafa þennan gullkálf upp úr gröf sinni og núna fyrir fé almennings.
Fúlsað er við lóð á eðlilegu og viðráðanlegu verði og bruðlað strax í upphafi fjáraustursins með því að kaupa dýrustu hugsanlegu lóð á stað þar sem viðskiptalífið er þegar að mestu farið í burtu austur eftir borgarlandinu og gamli miðbærinn orðinn fullur af kraðaki hótela og veitingastaða.
Á sínum tíma var okkur sagt að skrímslið mikla yrði kostað af einkafé ofurmenna á fjármálasviðinu.
En núna er bankinn að hálfu í eigu almennings og menn depla ekki auga þótt spreða eigi almannafé í nýtt bruðl.
Enda ekki furða þótt menn sjái hallir í hillingum, svona beint í kjölfarið á því að forsætisráðherrann hefur mælt með því að reisa risa álver í landi eyðijarðar í Skagabyggð án þess að nokkur orka sé fyrir hendi og stóla eigi á það að fé, sem launþegar hafa lagt í lífeyrissjóði, verði notað til að borga brúsann.
Hefur eitthvað breyst frá árinu 2007?
Hefur eitthvað lagast?
Eða er andi Hrunsins aftur kominn á kreik?
Landsbankinn hafnaði ódýrari lóðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir eiga líka og reka fyrirtæki í samkeppni við almenning. Það þykir sjálfsagðasti hlutur í heimi að skaða samkeppni í landi þar sem ÁTVR er við lýði.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.7.2015 kl. 08:48
Landsbankinn er í boði ykkar Samfylkingarmanna.
Þetta "Frankenstein" skrímsli settuð þið í gang og skópuð alla umgjörð, ásamt V.G.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.7.2015 kl. 09:33
Skipting eignarhalds á Landsbankanum
Ríkissjóður Íslands: 97,9%.
Landsbankinn hf.: 1,3%.
Starfsfólk bankans: 0,8%.
Ríkið hlýtur að vera í aðstöðu til að stoppa þetta rugl. Ekki að ég sjái Bjarna Ben gera eitthvað svo skynsamlegt, en má ekki reyna? Hefur Alþingi einhver völd í þessu máli?
Villi Asgeirsson, 11.7.2015 kl. 09:35
Fé almennings, fé í lífeyrissjóði.
„Og núna fyrir fé almennings,“
fé er bókhald,
Allir peningar eru bókhald,
Bókhaldið er ávísun á vinnu og hugsun fólksins,
og náttúruauðlindir.
000
„Fé í lífeyrissjóði“
Fé, bókhaldstala í lífeyrissjóði er aðeins bókhald.
Með öðrum orðum, lífeyrissjóðurinn er aðeins hugmynd, tala í tölvu.
Það eina sem getur (greitt þér lífeyri,) annast þig,
er þróttmikið þjóðfélag, þar sem fólkið framleiðir vörur og veitir þjónustu.
Þá er eitthvað til fyrir þetta bókhald, það er lífeyrissjóðinn, til að ávísa á.
Egilsstaðir. 11.06.2015 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 11.7.2015 kl. 11:38
Eiga lífeyrissjóðir að eiga álver?
Ég veit það ekki, og ég er hugsi.
000
Þegar útlendur aðili kemur og byggir álver, fyrir sína peninga, sitt bókhald, verður sjálfur að standa skil á endurgreiðslu, þá reynir aðilinn að láta verksmiðjuna vera í rekstri.
Ef íslenskur lífeyrissjóður lánar í verksmiðjuna, og það kemur erfitt rekstrartímabil, þá er trúlegt að erlendi aðilinn reyni frekar að halda sinni verksmiðju í útlandinu gangandi.
Ekki er ólíklegt að sagt yrði við íslenska lífeyrissjóðinn.
Þú getur hirt verksmiðjuna, eða lækkað skuldirnar og vextina.
Þitt er valið.
Egilsstaðir, 11.06.2015 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 11.7.2015 kl. 12:06
"... bruðlað strax í upphafi fjáraustursins með því að kaupa dýrustu hugsanlegu lóð ..."
Ég hélt að Ómar Ragnarsson vildi víkingasafn á þessari "dýrustu hugsanlegu lóð", í stað þess að hafa það úti á Granda.
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 12:10
"... þar sem Ingólfur Arnarson hélt fyrstu landsnámsathöfnina ..."
"Víkin eða Reykja(r)vík er heiti á vík í suðurhluta Kollafjarðar í Faxaflóa. Hún nær frá Laugarnesi í austri að Örfirisey í vestri."
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 12:13
"... viðskiptalífið er þegar að mestu farið í burtu austur eftir borgarlandinu ..."
Höfuðstöðvar Arionbanka eru skammt frá Höfðatúni, þar sem nú er stærsta hótel landsins, hvorutveggja vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík.
Og útibú Íslandsbanka í Lækjargötu er nú á Granda, sem er vestan Lækjargötu.
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 12:30
Eins og undir Hörpu verða gríðarstórir bílakjallarar undir nú óbyggðum stórum reitum sitt hvoru megin við Geirsgötu:
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 12:46
Í fyrradag:
"Starfsemi Landsbankans í Reykjavík fer fram í mörgum húsum víða í borginni. Þar af eru fjórtán hús í Kvosinni og aðeins fjögur þeirra í eigu bankans. Leigusamningar eru flestir til skamms tíma, á bilinu 1-3 ár."
"Með nýbyggingu næst fram mun betri nýting á húsnæði en nú er. Landsbankinn rekur starfsemi á tæplega 29 þúsund fermetrum á höfuðborgarsvæðinu en nýbyggingin verður um 14.500 fermetrar auk 2.000 fermetra í kjallara fyrir tæknirými og fleira.
Með þessu fækkar fermetrum undir starfsemi bankans á þessu svæði um allt að 46%."
"Áætlanir gera ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður vegna húsnæðis lækki um 700 milljónir króna og að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum."
Landsbankinn byggir við Austurhöfn
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 13:05
Það er eitthvað íslenskt við anda hrunsins.
Kannski er íslenski draumurinn andi hrunsins.
Á þessu byggja svo sjallar og framsóknarmenn fylgi sitt flestum til bölvunnar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.7.2015 kl. 16:34
Við lærum aldrei neitt.
Vilborg Traustadóttir, 11.7.2015 kl. 20:25
Sæll Ómar - sem og aðrir gestir þínir !
Það vantaði ekki - skrúðmælgina: sem og fögur fyrirheitin / til okkar reikninga eigenda Sparisjóðsins sáluga á Suðurlandi (í Selfoss skíri): sem og í Vestmannaeyjum á Vordögum s.l.: þá Steinþór Pálsson hóf upp raust sína, til þess að véla okkur til viðskipta, við þetta SKRÍMSLI sitt, sem Landsbankinn er að orðinn, fyrir tilverknað HAND- ÓNÝTRA ísl. stjórnmálamanna: stjórnmálamanna, sem firra sig ALLRI ábyrgð, á stöðu sívaxandi útþenzlu Banka Mafíunnar, hér á landi.
Ekki: var það einu sinni, inni í Gylliboða skvaldri Steinþórs Pálssonar, að hann hygðist lækka sín persónulegu OFUR- laun hjá Banka nefnu sinni - þó ekki væri,nema um svona cirka 6 - 700.000.- Krónur pr. mán., til þess að geta sýnt snefil sómakenndar, til sinna viðvarandi viðskiptavina, hvað þá til þeirra, sem hann hrakti frá Sunnlenzku Sparisjóðunum, aukinheldur.
Nei - aldeilis ekki: þessi Græðginnar ofurseldi Maura- Púki / Steinþór, er svo aldeilis heltekinn gráðugri hentistefnu og ósvífni yfirboðara sinna í stjórnarráðinu suður við Lækjartorg í Reykjavík: þeirra Bjarna Benedikts sonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar / að hann fær að özla áfram, að óbreyttu, í skjóli þeirra andstyggilegu varmenna, húsbænda sinna, áður nefndra.
Er nema von - að Ómari síðuhafa: sem öðrum hófstilltum og hógværum sam löndum hrjósi hugur, við fyrirætlunum þessarra gárunga, og FLOTT RÆFLA ?
Og - enn: grasséra verðtryggingar ómyndin og okur vextirnir, í skjóli þessarra Skúma og varmenna !!!
Hversu lengi - hyggjast landsemnn ætla að líða þessum ódámum sú ósvinna, til dæmis ???
Með beztu kveðjum sem oftar: af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.7.2015 kl. 20:27
Ómar er stuttur í spuna,
sneyptur sér dansinn duna,
bezta lausnin endanleg er,
byggggðastefnu taka ber,
og byggja Landsbanka-danshöll í Hruna!
Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 11.7.2015 kl. 20:41
.... landsmenn: átti að standa þar. Afsakið - hnökra þá, sem ritvillur, sem finnast kunna, í texta mínum / hér efra, að nokkru.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.7.2015 kl. 22:58
Jónas Gunnlaugsson, ég er sammála þér með það að alveg er sama hvaða reikningskúnstir og papírstígrisdýr menn búa til, þeir sem vinna halda uppi þeim sem ekki vinna.
Alltof mikið er um að fólk haldi að sjóðir séu sjálfstæð fyrirbæri með sjálfstætt líf.
Eina sannleikskornið í því að peningarnir vinni fyrir aldraða Íslendinga, en ekki vinnandi Íslendingar, er þegar lífeyrissjóðirnir fjárfesta erlendis. En þá eru það erlent vinnandi fólk sem halda að einhverju leiti uppi innlendu óvinnandi fólki.
Ef menn gerðu sér almennilega grein fyrir þessu þá myndum við hætta þessu sjóðasukki lífeyriskerfisins sem er að verða eins og krabbamein í þjóðarlíkamanum, veldur m.a. hækkuðu íbúða- og leiguverði á höfuðborgarsvæðinu.
Miklu eðlilegra og einfaldara væri að taka upp gegnumstreymiskerfi, greiða af sköttum til aldraðra og öryrkja. Enda er það gert í raun hvort sem er.
Pappírstígrisdýrin eru fóðruð annarsstaðar!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 00:18
Menn dönsuðu‘ og dufluðu´í Hruna
og dröbbuðu mjög ritninguna
en misgengið small
í messu varð fall
margan fór þarna að gruna
að alls ekki eigi að dansa
og alltaf sé gleðin til vansa
er það nú Guð
sem ekki vill stuð
eða neinn skemmtanabransa
menn ætla að virkja hér víða
með verksmiðjum landið skal prýða
magnað er þá
að misgengi á
sé meiningin enn þá að smíða
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.7.2015 kl. 00:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.