22.7.2015 | 15:13
Þegar mælirinn er fullur.
Blökkukonan Rosa Parks, íbúi í Montgomery í Alabama, hafði ekki komist í kast við lögin þegar hún var handtekin árið 1955 fyrir að óhlýðnast skipun um að hlýða lögunum, standa upp úr sæti sínu í strætisvagni og færa sig, svo að hvítur maður gæti sest þar í staðinn.
Rosa var orðin 42ja ára þegar þetta gerðist og hafði aldrei kynnst öðru en kynþáttamisrétti frá því að hún mundi eftir sér.
Hún hafði eins og venjulega sest í sæti, sem var ætlað blökkufólki, en þó með því skilyrði að hvítt fólk hefði ævinlega forgang á öllum sætum í strætisvagninum.
Skyndilega var eins og það slægi niður í huga hennar: Nú er nóg komið. Nú er ég búin að fá nóg af því að vera niðurlægð og auðmýkt hvern einasta dag.
Þess vegna sat hún kyrr og vék ekki sjálfviljug, heldur var flutt burtu með lögregluvaldi, þótt hún vissi, að á eftir myndi fylgja höfnun hinna hvítu, henni yrði neitað um vinnu, hún kæmist á sakaskrá og yrði dæmdur sakamaður.
Hún var búin að fá nóg.
1. desember 1955 var það Rosa Parks. Núna er það Sandra Bland. Hún var búin að fá nóg. Annars hefði hún varla svipt sig lífi.
Af hverju gengu þessar tvær konur svona langt? Af hverju lét Rosa Parks ekki nægja að mótmæla misréttinu á þann hátt að hún færi ekki á sakaskrá?
Af hverju lét Sandra Bland ekki nægja að þola pyntingar og ofbeldi lögreglumannsins og sleikja sár sín á eftir í einrúmi?
Ástæðan er líklegast sú, að ef þær hefðu ekki gert það sem þær gerðu, hefðu þessi tvö atvik einfaldlega drukknað í milljónum svipaðra atvika og misréttið bara haldið áfram eins og ekkert væri og sama auðmýking og niðurlæging yrði áfram við lýði.
Sandra sá enga aðra leið til að hún öðlaðist þann rétt og þá virðingu sem hafði verið fótum troðinn.
Harper Lee skrifaði Pulitzerverðlaunabókina "To kill að mockingbird" 1960 og í kjölfarið kom kvikmynd. Í bókinni er hvítur maður hetjan sem bjargar lífi svarts manns, sem á að taka af lífi og fremja með því dómsmorð.
Bókin vakti mikla athygli og vonir um að kynþáttamisrétti yrði útrýmt. Hið góða og rétta ætti von um að sigra að lokum.
Atburðir síðasta árs sýna hins vegar að veruleikinn er annar, og nú hefur verið gefin út bókin "Farðu og kallaður til varðmann" sem Harper Lee skrifaði 1957 en fékkst ekki útgefin þá, heldur bað útgefandinn hana um að skrifa aðra og jákvæðari bók.
Þessi fyrri bók er að vísu ekki eins vel skrifuð, en í henni er nöktum raunveruleikanum lýst og engin hvít hetja er í henni. Enda fékkst hún ekki gefin út eins og áður sagði.
Nú hefur hún loksins verið gefin út eftir þöggun í 58 ár. Það eitt sýnir hið raunverulega ástand og varpar líka ljósi á það, að þrátt fyrir vonir um að 21. öldin myndi færa mannkyninu réttlæti og umburðarlyndi, sem flest trúarbrögð boða sem megin stef, myndu þvert á móti þeir efna til ófriðar,illinda og styrjalda, sem lesa út úr trúarritunum það einstrenginslegasta og heiftúðugasta sem þar er að finna.
Ég grilla þig! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst nú líklegra að hún hafi látist af höfuðáverkum sem lögreglumaðurinn veitir henni og að hengingin sé sviðsett. Við skulum ekki gleyma því að fjölskylda hennar er ósammála yfirvöldum um að líklega sé um sjálfsvíg að ræða. Þau ættu a.m.k. að þekkja hana manna best.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.7.2015 kl. 15:52
Hver var Sara Parks??
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 23.7.2015 kl. 14:25
Afsakaðu, Rósa Parks. Sá ekki þessa innsláttarvillu og leiðrétti nú þegar. Búinn að blogga nokkrum sinnum áður um Rósu Parks og villan því enn neyðarlegri.
Ómar Ragnarsson, 23.7.2015 kl. 18:47
Sé eftir að hafa leiðrétt þetta að farið var rétt með nafn Rosu Parks tvívegis í þessum pistli áður en villan fór af stað og að villan sást af samhenginu.
Ómar Ragnarsson, 23.7.2015 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.