Fer allt eftir heimamönnum sjálfum.

Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum er 9000 ferkílómetrar en mest af því er fjallendi þar sem sáralítil umferð er. Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er 7750 ferkílómetrar eða næstum jafnstórt og Yellowstone. 

Þrjár milljónir ferðamanna koma árlega í Yellowstone þjóðgarðinn og er ríflegur helmingur þeirra frá öðrum heimsálfum en Norður-Ameríku, komnir yfir úthöf.

Íbúar Wyomingríkis eru 450 þúsund en Íslands 330 þúsund. Frá Evrópu til Íslands er þrefalt styttra en frá Evrópu til Yellowstone. 

Ísland er líka land sem er hálent að mestu en hins vegar ellefu sinnumm stærra en Yellowstone þannig að miðað við stærð ætti Ísland að ráða við 33 milljónir ferðamanna á ári.

Í Yellowstone ráða menn enn við að sporna gegn umhverfisskemmdum en þar tíma menn líka að eyða peningum og tíma í uppbyggingu, skipulag og verndun, ólíkt því sem er hér. 

Fjölgun ferðamanna vestra hefur verið róleg og viðráðanleg. Hægt og bítandi hefur verið ráðið fram úr viðfangsefnunum á farsælan hátt. 

Hér ætla hins vegar allir að græða sem mest og sem allra hraðast og fá sem flesta ferðamenn án þess aðkosta til þess því sem þarf.

Í villta vestrinu í amerísku fjalllendi er vandlega séð til þess að á þeim svæðum, þar sem ferðamenn sækjast eftir kyrrð, fámenni og jafnvel einveru í ósnortnu víðerni, sé slíkt tryggt með eftirliti og skipulagi.

14 ára biðlisti er eftir því að fá að sigla niður Kóloradóána i Utah og Arizona og margra ára biðlisti eftir því að fá að ganga suma göngustígana í Yellowstone.

Ef menn líta á það sem "auðmýkingu" og "niðurlægjandi ófrelsi" að kosta einhverju til að vernda einstæða íslenska náttúru og byggja upp aðstöðu á ferðamannaslóðum ættum við þegar í stað að setja innflutningshömlur á erlenda ferðamenn og sætta okkur við það, að vegna nísku og sjálfhverfu viljum við geta verið í friði í "landið okkar".

En þannig er það einfaldlega ekki. Menn vilja bæði eiga kökuna áfram og éta hana, bæði auka ferðamannastrauminn sem allra mest og hraðast en líka að sleppa við að vernda einstæða íslenska náttúru.  

 

 


mbl.is Eru allir velkomnir allstaðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"... ættum við þegar í stað að setja innflutningshömlur á erlenda ferðamenn og sætta okkur við það, að vegna nísku og sjálfhverfu viljum við geta verið í friði í "landið okkar"."

Margbúið að benda þér á að þetta er tómt rugl í þér, eins og svo margt annað, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 30.7.2015 kl. 23:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.

Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Þorsteinn Briem, 30.7.2015 kl. 23:15

3 identicon

Umræðan um íslensku þjóðgarðana hefur legið í láginni. Margt hefur verið gert vel á Þingvöllum og þjóðgarðsvörðurinn reynir nýjar tekjuleiðir í stað að þess að ráðamenn finni lausnir.

Gulleggið sjálft er virðingin fyrir náttúrunni " hin heilögu vé ". Oft finnst manni þeir hégómlegir í þingvallanefndinni. Vilja banna hér og þar og jafnvel endurreisa Valhöll, en að lokum sjá þeir að ríkið á ekki eða getur gert allt.

Eins og oft hefur komið fram í þessu bloggi eigum við ekki þessi verðmæti einir. Meginlandsbúar eiga líka rétt á að njóta landsins og náttúrunnar vilji þeir koma til landsins og styðja okkur í uppbyggingunni.

Síðastliðna nótt kom ég með hópi fólks frá Þýskalandi. Undrunin var mikill þegar þau uppgötvuðu að rautt sólarlagið og miðnæturbirta var enn tignarlegri en í Þýskalandi. Allar myndavélar á lofti og hrifning foreldra og barna djúp og einlæg. Eftirvænting mikill við að vera nú loksins komin til landsins sem lofað hefur verið af kynslóðum á meginlandinu fyrir fegurð og blómskrúð.

Skyrið sem er heimatilbúin afurð er tákn hins hreina. Lítill vandi er að spilla með aukaefnum skyri jafnt sem náttúru. Að standa undir væntingum er áskorun sem aðeins fæst með virðingu fyrir verkefnunum. Útlendingar eru fljótir að sjá hvað stendur upp úr og lofa það sem vel er gert. Skyrið, íslenska kjötsúpan og ullin er eitt af því.

Sigurður Antonsson (IP-tala skráð) 31.7.2015 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband