5.8.2015 | 21:03
Allt annað Hálslón en á myndinni á mbl.is og mynd Lv.
Myndin af Hálslóni, sem er birt með frétt um það á mbl.is og er hér til hliðar sýnir allt annað Hálslón en hefur verið það sem af er sumri.
Umrædd mynd sýnir Hálslón stútfullt með yfirborðið í 625 metra hæð yfir sjávarmáli, líkast til í byrjun september.
Aðeins toppurinn á Sandfelli sést eins og lítil eyja í lóninu og lónið teygir sig langt inn eftir Sauðárdal til hægri á myndinni og leggst upp að Sauðárdalsstíflu, en það gerist venjulega ekki fyrr en í ágúst.
En þessa dagana er lónið allt öðruvísi, Sandfellið ekki umflotið og Sauðárdalurinn á þurru.
Þegar ísa leysir af lóninu í júníbyrjun er yfirborð þess aðeins um þriðjungur þess flatarmáls sem lónið verður þegar það er fullt.
Tveir þriðju lónstæðisins er á þurru, þakið milljónum tonna af fíngerðum jökulleir, sem sest í lónið á hverju ári, alls um 10 milljón tonn sumar hvert.
Litinn vind þarf til að hreyfa hinn gríðarlega massa af hinum þurra leir á heitum og björtum dögum, þegar hnjúkaþeyr leikur um þetta svæði og þar væri dýrlegt að vera ef ekkert lónstæði væri þarna.
Í staðinn geysar leirfok þar við svona skilyrði sem gerir alla útvist ómögulega.
Myndirnar af leirfokinu og lóninu eru teknar fyrir nokkrum árum í miðjum júlí og þá var hæð lónsins svipuð og hún er núna í byrjun ágúst og leirfokið ekki eins mikið og það verður mest fyrst eftir að ísa leysir í júní.
Raunveruleikinn er gráthlægilega ólíkur þeirri glansmynd sem Landsvirkjun dró upp í aðdraganda virkjunarinnar af þeirri nýju og stórkostlegu útvistarparadís sem lónið myndi skapa.
Glansmynd Landsvirkjunar fólst í þarna væri útivistarfólk af öllum toga, fjallaklifrarar, fjölskyldur, tjaldfólk, seglbrettafólk og siglingafólk og að á veturna myndi ísinn á lóninu opna nýja möguleika fyrir jeppamenn og skíðafólk og frábært aðgengi að jöklinum.
Svo hrein var glansmyndin, að á henni er lónið sýnt svo blátært, að það sést til botns.
Það stingur í stúf við mynd RAX þar sem lónið er drullubrúnt, enda svo aurugt að skyggni neðan yfirborðs þess er innan við 10 sentimetrar.
Á loftmyndinni hér neðar á síðunni, þar sem horft er út eftir lóninu í júlíbyrjun, sést rétt gilla í Sandfellið og Fremri-Kárahnjúk, en upp að honum liggja Kárahnjúkastífla og Desjarárdalsstífla, sem eru huldar í leirfokinu sem og vestasta stíflan, Sauðárárdalsstífla.
Á öðrum myndum má sjá hvernig lónið hefur rifið niður nokkurra metra þykka gróðurþekjuna, en 40 ferkílómetrum af einu best gróna landi hálendisins var fórnað fyrir Kárahnjúkavirkjun.
Myndin er tekin í júlí þegar lónið hefur ekki enn náð upp að Sauðarárdalsstíflu, sem sést í baksýn.
Á efstu myndinni er horft til suðurs eftir lónstæðinu en á hinum loftmyndunum til norðurs.
Og á jörðu niðri er mynd sem tekin var í ferðalagi okkar þegar við flugum með vinahjónum okkar, lentum á Sauðárflugvelli og fórum að svæði við Kringilsá þar sem áður var iðagrænn gróður sem nú er grafinn í sand.
Þótt lagður hafi verið malbikaður vegur að Kárahnjúkastíflu og sagt að með því myndi allt verða krökkt þarna af ferðafólki koma þangað mun færri langt fram eftir sumri en áður en þessi vegur var lagður.
Hvað varðaði hinn nýja og heillandi möguleika fyrir ferðamennsku, þar sem jeppamenn og skíðamenn gætu brunað eftir því alveg upp í jökul og til beggja átta gleymdist reyndar að lónið fellur niður um allt að 60 metra yfir veturinn og óyfirstíganlegar jakahrannir verða meðfram því í stað þess að áður var hægt að aka yfir Jöklu innst í dalnum.
Þetta er nú öll paradísin og ferðamannamiðstöðin á sumri og vetri!
Mér er ekki kunnugt um neitt annað miðlunarlón í heiminum sem hækkar og lækkar jafn hratt á hverju ári og Hálslón.
Né hefur eins svakaleg umhverfisáhrif og Hálslón, enda Jökla heitin líkast til aurugasta fljót heims.
Til dæmis er sveiflan í Powell-lóninu fyrir innan Glen Canyon stífluna í Bandaríkjunum sjö sinnum hægari.
Kaldur júlí hefur neikvæð áhrif á vatnsbúskap | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Þótt lagður hafi verið malbikaður vegur að Kárahnjúkastíflu og sagt að með því myndi allt verða krökkt þarna af ferðafólki koma þangað mun færri langt fram eftir sumri en áður en þessi vegur var lagður. "
Þetta segir þú kinnroðalaust, Ómar og þúsundir manna trúa bullinu.
Kunnugir vita betur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.8.2015 kl. 21:45
"Kunnugir vita betur" Hverjir eru kunnugri þessu svæði en Ómar Ragnarsson? Kannski þú ættir að róa þig í að kalla menn bullara hérna Gunnar.
Pétur Kristinsson, 5.8.2015 kl. 23:22
Ég kíkti mér til gamans á dagbókina mína frá í fyrra og sé að ég var allan ágústmánuð og stóran hluta september á ferð á þessu svæði og dvaldi þar samfellt í þrjár vikur að undanskildum tveimur dögum. Hverjir eru þessir "kunnugir" sem Gunnar segir að viti betur?
Jú, Völundur Jóhannesson hefur verið meira þarna á ferli en ég og hann þekkir þetta betur og getur borið vitni.
En auðvitað fellur hann ekki inn í skilgreiningu Gunnars á "kunnugir".
Ég hef komið fyrst á svæðið á sumrin í júní á hverju einasta ári og farið í síðustu ferðina þangað seint í október síðustu 17 ár í röð.
Alls fór ég um 100 ferðir þangað frá Reykjavík á árunum 1998-2008 til þess að taka efni í kvikmyndir mínar um svæðið.
Ómar Ragnarsson, 6.8.2015 kl. 00:34
Kunnugir vita að margfalt fleiri ferðamenn fara að Kárahnjúkum í dag en fyrir aldamót. Þetta er einfaldlega staðreynd.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.8.2015 kl. 07:52
Ég er ekki einn af þessum kunnugu en ég trúi varla að fleiri ferðamenn fari þangað til að njóta útivistar á einhverjum leirvelli en í guðsgrænni náttúrunni. Við teljum nú varla með þá sem fara veginn bara til að skoða mannvirkin og til baka?
Bjarki (IP-tala skráð) 6.8.2015 kl. 08:22
Nú!? Skrítin talning á ferðamönnum. Það fer s.s. eftir því hvað þeir eru að skoða, hvort þeir teljist ferðamenn eða ekki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.8.2015 kl. 09:08
Þetta er bara hreinn útúrsnúningur í samhengi við þessa grein. Þetta var selt sem útivistarparadís en hafði þveröfug áhrif svo þeim ferðamönnum sem komu á svæðið til að njóta útivistar og náttúrunnar hefur fækkað en ekki fjölgað.
Bjarki (IP-tala skráð) 6.8.2015 kl. 09:58
Þetta er rangt hjá þér, fólk kemur þarna í dag í þúsundatali (fyrir aldamót í tugatali) til að skoða bæði hið stórkostlega mannvirki sem Kárahnjúkastíflan er og einnig til skoða dýpsta og fallegasta hluta Hafrahvammagljúfurs (Dimmugljúfurs) Stórkostlegt útsýni er yfir gljúfrið frá stíflunni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.8.2015 kl. 10:10
Það var eitthvað sport fyrst að fara og skoða þessi ósköp. Allir hættir því held eg.
Að öðru leiti, að hvaðan kemur þessi glansmynd þarna, teiknimyndin, af fólki að sprella í útivist?
Það er eins og sá sem bjó til þessa mynd hafi verið á sýru.
Og trúðu innbyggjar þessu virkilega almennt?
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2015 kl. 11:07
Hvaða ferðaþjónusta er með ferðir þarna upp eftir? Ég hef komið þarna nokkrum sinnum og ekki í eitt skipti hef ég séð túrista sem er að mynda náttúrufegurðina eftir þennan óskapnað. Hins vegar tek ég undir með þér að hluti af þessari virkjun er verkfræðilegt afrek og það er neðanjarðarstöðvarhúsið. En ég komst þangað inn af ég þekkti mann og annan.
Ekki reyna að halda því fram að það sé eitthvað æðislegt við þetta svæði eftir að þessum hrylling var troðið þarna niður. Sandur, risastórir drullupollar er það sem er í minningunni eftir ferðalög þarna upp eftir og sorg að sjá hversu hvatvísir og vitlausir Íslendingar geta verið þegar að kemur að skynsamri/óskynsamri nýtingu landsins okkar. Eftir því sem manneskjan á eftir að sölsa undir sig stór landsvæði sér til nýtingar mun ósnortin náttúra verða verðmæti sem gætu nýst komandi kynslóðum ásamt vatninu hérna.
Pétur Kristinsson, 6.8.2015 kl. 13:02
Það er til lítils að ræða svona mál við menn sem hafa fjárfest svona rækilega í hugmyndinni um að Kárahnjúkavirkjun sé bjargvættur Austfjarða.
Það er eins og maðurinn sem kaupir mánudagseintak af bíl fyrir átta milljónir og mun aldrei taka það í mál að neitt sé að bílnum, þó hann sé að hruni kominn og eyði meiri tíma inni á verkstæði en Davíð Oddsson eyðir í að endurskilgreina íslandssöguna.
Svavar Knútur (IP-tala skráð) 6.8.2015 kl. 16:45
Ég er Reykvíkingur og flutti á Austfirði 1989, þá 29 ára gamall og hef því búið hér eystra í 26 ár. Fyrstu 9 árin var ég til sjós á togara. Það var sárt að horfa á byggðaþróunina. Þegar ég hafði búið á Reyðarfirði í 15 ár hafði íbúunum fækkað um 15% frá því ég kom. Fækkunin var jöfn á hverju ári.
Ég viðurkenni fúslega að ég "keypti" hugmyndina strax í upphafi um virkjun og stóriðju hér eystra. Engan heyrði ég samt tala um hér eystra að það ætti að "bjarga" einhverju, heldur einungis að þetta yrði sterkt útspil í viðleitni til að snúa við byggðaþróuninni.
Neikvæð byggðaþróun er eins og snjóbolti sem hleður utan á sig, því þegar íbúum fækkar kippir það grundvelli undan þeim sem vilja þjónusta íbúanna. Minna er byggt og endurnýjað í íbúðar og iðnaðarhúsum og við það hafa smiðir, rafvirkjar, pípulagningamenn o.s.f.v. minna að gera. Hárgreiðslukonan hefur færri hausa og svona má lengi telja.
Atvinnuleysi sem slíkt var aldrei vandamál á Austfjörðum vegna þess að atvinnulaust landsbyggðarfólk flytur einfaldlega brott. Það var því ekki atvinnuleysi sem kallaði á einhverjar aðgerðir. En einhæfni í atvinnulífinu kom í veg fyrir að ungt fólk sem hafði menntað sig hefði möguleika á að fá vinnu við sitt hæfi. Fábreytnin í atvinnulífinu gerða það einnig að verkum að iðnaðarmenn á Austurlandi voru á lægri launum að kollegar þeirra, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Austurland VAR láglaunasvæði, þrátt fyrir að margir sjómenn hefðu það ágætt.
Með tilkomu álversins í Reyðarfirði breyttist þetta launaumhverfi vegna þess að skyndilega varð til samkeppni um vinnandi hendur. Laun iðnaðarmanna hækkuðu svo um munaði svo í dag eru Austfirðir ekki lengur láglaunasvæði. Í dag eru laun á Mið-Austurlandi í efsta fjórðungi launakúrfunnar en voru fyrir tíma framkvæmdanna í lægsta fjórðungi.
Þeir sem voru (og eru enn) á móti hugmynd um virkjun og stóriðju á Mið-Austurlandi, fundu henni allt til foráttu og fullyrtu m.a. að þetta myndi ekkert gera fyrir Austfirði varðandi byggðaþróun.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Þjónusta við almenning hefur batnað á öllum sviðum, laun hafa hækkað og byggðaþróun var snúið við. Sem dæmi má nefna að íbúum á Reyðarfirði hefur fjölgað úr 620 í um 1200.
Áhrifasvæði álversins eru fyrst og fremst Mið-Austurland. Austurland er um 1/3 af stærð landsins en heildar íbúafjöldinn er ekki nema um 15 þúsund manns. Engin hér eystra talaði um að álver ætti að vera "bjargvættur" Austurlands. Það bull er allt komið frá andstæðingum framkvæmdanna, eins öfugsnúið og það nú er. Hins vegar sáu allir í hendi sér að þetta yrði kærkomið tækifæri til að spyrna við fótum og að þetta yrði góð og traust undirstaða fyrir frekari þróun á mannlífi og menningu á svæðinu.
Það hefur gengið eftir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2015 kl. 12:04
Það er nú líka eins gott að þetta ævintýri varð til einhvers góðs Gunnar. Kostaði þetta ekki einhverja hundruði milljarða og varð til þess að Lagarfljót er orðið nánast að drullupolli og líf þar nánast horfið. Það virðast vera vandamál líka þarna við Hálslón. Landsvirkjun og bærinn að setja sig í miklar skuldir út af þessu, svo ekki sé talað um mengunina. Held að það að það hafi orðið til einhver störf sé bara dropi í hafið miðað við útgjöldin, mengunina og eyðilegginguna á náttúruna sem varð þarna.
Anna (IP-tala skráð) 7.8.2015 kl. 15:59
Ef sanngirni hefði átt að ráða varðandi úrræði fyrir byggðina á Austurlandi hefði átt að gefa ferðaþjónustunni ca 10-15 ár til að sýna hvaða úrræði hún hefði.
Ef það misheppnaðist hefði ekkert óafturkræft átt sér stað heldur var þá hægt að virkja í staðinn eða nýta aðra möguleika.
Munurinn á ferðaþjónustunni og virkjunum er sá, að verndun náttúruverðmætanna gerir ekki útilokað að fara aðrar leiðir til að nýta svæðið, en virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun er algerlega óafturkræft hervirki sem kemur í veg fyrir alla aðra möguleika.
Ómar Ragnarsson, 7.8.2015 kl. 22:02
"Kostaði þetta ekki einhverja hundruði milljarða"
Nei, Anna, þetta kostaði ekki krónu. Landsvirkjun fjárfesti hins vegar fyrir um 120 miljarða sem er sennilega eitthvað um 200 miljarðar á núvirði. Ekkert af þeim peningum kom úr ríkissjóði. Þessi fjárfesting LV er ábatasöm og lánið vegna framkvæmdanna verður að fullu greitt innan 15 ára. Eftir það rennur andvirði raforkusölunnar frá virkjuninni beint í gullkistu LV með tilheyrandi arðgreiðslum til ríkisins.
..."og varð til þess að Lagarfljót er orðið nánast að drullupolli og líf þar nánast horfið."
Lífríki Lagarfljóts hefur aldrei verið mikið og fréttaflutningur af minnkandi silungi í fljótinu var í æsifréttastíl á sínum tíma. Silungur hefur aldrei verið talin til hlunninda þarna, bæði vegna þess að alltaf hefur verið lítið um hann og einnig vegna þess að hann hefur verið talinn óhæfur til manneldis vegna bragðgæða en þó verið notaður í reyk.
Mengun hefur ekki verið vandamál, eins og lesa mátti úr umfjöllun Kastljóssins á sínum tíma. Flúorgildi í Reyðarfirði fóru hins vegar upp fyrir þau mörk sem sett eru en svo virðist sem tekist hafi að laga það. Ekkert bendir til að búsmali hafi orðið fyrir skaða vegna þessa.
Ómar, ferðaþjónusta blómstrar sem aldrei fyr á íslandi. Kárahnjúkar hafa ekkert skemmt í þeim efnum á Austurlandi, eins og náttúruverndarsamtök fullyrtu að myndi gerast. Ferðamennska er góð búbót hér sem annarsstaðar. Það þurfti ekkert að "bíða og sjá til" með það.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2015 kl. 22:36
ER þetta kannski rykið sem við fengum að kynnast hér í Rvk fyrr í vikunni?
Jón Páll Vilhelmsson, 8.8.2015 kl. 11:35
Leiðinlegt að sjá hversu margir fluttu burt þegar Gunnar flutti austur.
andri (IP-tala skráð) 13.8.2015 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.