31.8.2015 | 10:53
Sjávarþorpin íslensku áhugaverð fyrir útlendinga.
Við Íslendingar sjáum því miður flestir ekkert merkilegt við sjávarþorpin okkar víðsvegar um landið. Þau hafa jafnvel fengið niðrandi heiti í munni margra eins og "krummaskuð."
Í nafni hagræðingar í sjávarútvegi hafa þau flest verið svipt því lífi og athöfnum sem fyrrum einkenndi þau.
Þegar erlent skemmtiferðaskip leggst að bryggju í Grindavík telst það stórfrétt að útlendingar skuli sjá nokkuð merkilegt þar.
Það er nú eitthvað annað en glæsileg steinsteyputurnaröðin við Skúlagötu í Reykjavík.
Í þessu viðhorfi okkar birtist landlæg þröngsýni á það hvaða verðmæti á alþjóðavísu felist í þjóðlífi okkar og landfræðilegum aðstæðum.
Við höfum lengi haldið að það sem okkur sjálfum finnst merkilegt og óvenjulegt hljóti ferðamönnum frá fjarlægum þjóðum líka að finnast merkilegast og óvenjulegast, svo sem grösugir dalir, Hallormsstaðaskógur og Fljótshlíðin með sínum græna lit, "bleikum ökrum og slegnu túnum."
Útlendingar hljóti eins og við að sjá ekkert nema ljótleika í svörtum hraunum og söndum og rytjulegum fiskiþorpum með "slori" og "húskofum."
En þessu er þveröfugt farið. Í Evrópu eru þúsundir glæsilegri skóga og grösugri dala en finnast á Íslandi,og reynsla mín af því að fara með útlendinga það sem ég nefni "Silfur-hálfhringinn" til aðgreiningar frá "Gullna hringnum" er sú, að þeir töldu sig að sumu leyti hafa séð merkilegri staði á þeirri leið en Gullni hringurinn bauð upp á.
"Silfur-hálfhringurinn" er leið, sem ég hef farið með útlendinga, sem hafa átt lítinn frítíma á helgarráðstefnum í Reykjavík og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn.
Í staðinn hef ég brottfarardaginn lengt leiðina suður á Keflavíkurflugvöll með því að fara leiðina Kaldársel-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp - Keflavíkurflugvöllur.
Að vísu er enginn Geysir, Gullfoss eða Þingvellir á þeirri leið, en í staðinn sjá þeir staði, sem ekki eiga hliðstæðu á Gullna hringnum, svo sem Kaldársel, Grindavík, Bláa lónið og Eldvörp.
Einkum hefur það hrifið þá þegar þeim hefur verið greint frá lífsbaráttu Grindvíkinga fyrr á tíð, því að útlendingar hrífast af því hvernig íslenska þjóðin gat lifað af við þær erfiðu aðstæður sem hér voru.
Sambýli þjóðar í stórbrotinni náttúru við erfið skilyrði "á mörkum hins byggilega heims" er þeim hugstætt eftir slíka ferð.
Mér er minnisstætt þegar í einni svona hálfhrings-silfurferð var farið um Grindavík í suðvestanátt með hvössum skúrum. Ég kveið fyrir því að óhagstætt veður myndi skemma fyrir.
En það var öðru nær.
Útlendingarnir tóku andköf þegar staðið var andspænis lemjandi útsynningnum og hvítfyssandi brimgarðinum og því lýst hvernig sjómennirnir á hinum litlu bátum sínum þurftu að komast inn um þrönga innsiglinguna og lentu oft í miklum háska.
Gullni hringurinn býður ekki upp á neina slíka upplifun né upplifun á borð við það að horfa eftir gígaröðinni Eldvörpum, fyrirbæri, sem hvergi sést á jörðinni nema á Íslandi og heyra lýsingarnar á því hvernig slík gígaröð verður til þegar meginlandsflekar Ameríku og Evrópu rifna hvor frá öðrum og jarðeldurinn brýst upp um gjána á milli heimsálfanna.
Óvænt sjón í Grindavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skrítið hvað allir eru neikvæðir í kringum þig. Er það ESB liðið sem lætur svona?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.8.2015 kl. 12:06
Þú ert ansi fullyrðingaglaður án þess að nokkur innistæða sé fyrir fjöldanum öllum af þessum fullyrðingum þínum, Ómar Ragnarsson.
Og það er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að þú ert "fréttamaður".
"Við Íslendingar sjáum því miður flestir ekkert merkilegt við sjávarþorpin okkar víðsvegar um landið."
Ekki veit ég til þess að þetta hafi verið kannað og engin sérstök ástæða til að ætla að þannig sé í pottinn búið.
Hins vegar hafa margir allt á hornum sér gagnvart öllu í póstnúmerinu 101 Reykjavík.
"Það er nú eitthvað annað en glæsileg steinsteyputurnaröðin við Skúlagötu í Reykjavík."
Undirritaður veit ekki til þess að einhverjir Íslendingar haldi að erlendir ferðamenn komi hingað til Íslands til að sjá einhverja "steinsteyputurnaröð", hvort sem sú röð er við Skúlagötu eða í Breiðholtinu.
Langflestir erlendir ferðamenn dvelja hins vegar í Reykjavík og fjölmargir þeirra ganga þar Laugaveginn, þar sem um eitt þúsund manns starfa.
Þar eru til að mynda alls kyns matsölustaðir sem selja hráefni af íslensku landsbyggðinni og ölstofur, sem selja íslenskt öl, sem halda mætti að komið sé frá Andskotanum sjálfum, miðað við allt viðhorf þitt til áfengis.
Á Laugaveginum eru einnig verslanir sem selja íslenskan fatnað og listmuni og því sjálfsagt fyrir marga að hafa horn í síðu Laugavegarins.
Og þar eru hótel sem einnig afla erlends gjaldeyris.
Hótel og gistiheimili í miðbæ Reykjavíkur eru rúmlega eitt hundrað en einungis lítið brot af öllum húsum í póstnúmerinu 101 Reykjavík.
Þar áttu 15.708 lögheimili 1. janúar 2013 og miðað við að þrír búi í hverri íbúð, eins og í Hafnarfirði árið 2006, eru um 5.200 íbúðir í póstnúmerinu 101 Reykjavík.
Þar er nú verið að reisa mörg íbúðarhús og fjöldinn allur af gömlum húsum gerður upp, enda langflest hús þar frekar gömul og lítil, sem erlendir ferðamenn hafa gaman af að skoða, en ekki "steinsteyputurnaröð".
Þorsteinn Briem, 31.8.2015 kl. 13:34
Gott er að þú nefndir Laugaveginn, Steini, sem er alger andstæða við steinsteyputurna við Skúlagötuna.
Ómar Ragnarsson, 31.8.2015 kl. 19:26
Hvernig ætli það sé með þessi skemmtiferðaskip, að ætli þetta sé eitthvað frekar ný tilkomið að svo mörg sigli svo norðarlega? Virðist allt orðið morandi í þessu og jafnvel skip sem sigla hring eftir hring um landið.
Að öðru leiti er þetta rétt ábending. Útlendingar kenndu mörgum íslendingum að sjá landið uppá nýtt.
Sem dæm Reynisfjara. Að nú virðist manni barasta orðið mikil tíska hjá íslendingum að fara í Reynisfjöru, sérlega yngra fólki. Þá segir það: Já, ég skrapp á Höfn, stoppaði í Reynisfjöru og sona.
Þetta er bara af því að fjaran var í svo miklu áliti hjá útlendingum. Heimsfræg fjara að verða.
Í gamla daga þótti öllum þessi fjöruskratti barasta forljótur.
Kannski spilaði ógnin inní hjá innbyggjum. Í gamla daga vissi fólk vel um ógnina. Var lífshættuleg fjara.
Það er eins og í dag að jafnvel íslendingar átti sig illa á hættunni í íslenskri náttúru og harðneskju alla. Td.. við þessa fjöru eða fjörurnar þar í kring. Það er alveg lygilegt að sjá hvernig allt í einu getur komið miklu stærri alda en voru lengi á undan.
Þessu þarf að vara útlendinga við afar skilmerkilega. En það er eins og jafnvel fáir íslendingar geti útskýrt þessa hættu. Það er af því að þeir þekkja ekki hættuna sjálfir lengur. Það er alveg lygilegt hvernig allt í einu getur komið mun stærri alda.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.8.2015 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.