10.9.2015 | 07:21
Einstök rödd Óðins og flutningur hins ungverska lags.
Ferill Óðins Valdimarssonar sem söngvara var ekki langur, innan við áratugur, og maðurinn sjálfur varð ekki langlífur og virtist hverfa fljótar í tímans straumi en efni stóðu til.
Hann kom fram á þeim tíma þegar bæði Haukur Morthens og ekki síður Ragnar Bjarnason voru kóngarnir í dægurlagasöngnum og Óðinn söng hvergi nærri eins mörg lög og þeir inn á plötur.
Blómatími hans var því þeim mun athyglisverðari.
Þar að auki söng hann ekki nema stuttan tíma í Reykjavík, en þá með KK-sextettinum, sem var nokkur gæðastimpill.
Óðinn var í framvarðasveit tónlistarmanna á Akureyri, sem með snjöllum og sérstæðum útsetningum afbragðs tónlistarmanna tókst að ná eyrum landsmanna svo um munaði.
Lagið "Ég er kominn heim", ósköp yfirlætislaust lag, ungverkst að uppruna, öðlaðist alveg nýtt líf í stórgóðri útfærslu Óðins og Eydalsbræðra, - varð hvergi eins vinsælt og á Íslandi. Þar réði mestu hin bjarta og silkimjúka rödd Óðins og túlkun hans á stórgóðum og rammíslenskum texta Jóns Sigurðssonar í bankanum, - rödd sem var auðþekkjanleg alla tíð. Í dægurlagasamkeppni hljómsveitar Svavars Gests söng Ragnar Bjarnason lagið "Lipurtá" til sigurs og gerði það mjög vinsælt, en lagið sem Óðinn söng, "Aðeins vegna þín", féll alveg í skuggann og hefur varla heyrst síðan.
Það var að ósekju að mínu mati, - Óðinn söng þetta lag firnavel og mætti vel rifja það upp að nýju.
Óðinn söng afar skýrt alla tíð og ekki skemmdu góðir textar Jóns í bankanum og fleiri fyrir.
Ég kynntist Óðni nokkuð vel, var sjálfur að syngja á plötukynningum þessa tíma ásamt honum, og var heimagangur sem skemmtikraftur í Sjallanum meðan hann söng þar.
Hann söng hvern smellinn á fætur öðrum, og bandaríska kántrílagið Tom Dooley, varð að rammíslenskum gullmola í meðferð Óðins og Eydalsbræðra við texta Jóns í bankanum.
Óðinn hefur staðið hjarta nær alla tíð síðan, átti við skæðan sjúkdóm að stríða, Bakkus konung, sem leggst á menn á öllum aldri og fer ekki í manngreinarálit, heldur leggur jafnt hina hæfustu afbragðsmenn að velli sem aðra.
Ég minnist eins kvölds í Sjallanum 1968, þegar þessi stórkostlegi söngvari var ekki nema skugginn af sjálfum sér, búinn að missa allan neista.
Áhuginn og sönggleiðin, sem hafði fyrrum gert honum kleyft að skína skært, var víðs fjarri.
Þarna sat hann, heillum horfinn, dapur og lífsleiður, á bak við sviðið og þjóraði, og Ingimar Eydal hljómsveitarstjóri átti í mestu vandræðum með að tjónka við hann og þræla honum fram á sviðið til að vinna fyrir kaupinu sínu og sinna gömlum aðdáendum sínum.
Hver sem horfði upp á þetta hefði þá ekki látið sér detta í hug að hálfri öld seinna myndi afrakstur frammistöðu þessa afbragðs söngvara skína verðskuldað jafn skært á stærstu stundum Íslendinga á tugþúsunda samkomum erlendis sem milljónir manna sæu í sjónvarpi.
Þess vegna kemur það við hjartað að minnast Óðins Valdimarssonar og harma, að hann skyldi ekki í lifanda lífi fá að njóta til fulls þeirrar guðsgjafar, sem rödd hans og túlkun var.
Söngur Óðins ómar enn þá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.9.2015 kl. 11:51
Ég er kominn heim - Myndband
"Höfundur lagsins er ungverska óperutónskáldið Emmerich Kálmán."
"Despite his Jewish origins he was one of Adolf Hitler's favorite composers.
After the Anschluss, he rejected Hitler's offer to become an 'honorary Aryan' and was forced to move first to Paris, then to the United States, settling in California in 1940."
Þorsteinn Briem, 10.9.2015 kl. 16:58
Stórkostlegt lag en ekki " ósköp yfirlætislaust lag" eins og þú segir. Minnir dálítið á írska sálminn sem Púlararnir hafa eignað sér. :)
Góð minning um Óðinn. Ég var einmitt að spá í það í dag með kunningja mínum, hvaðan lagið væri
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2015 kl. 18:25
"sjáðu jökulinn loga" er ein flottasta setning í íslenskum dægurlagatexta fyrr og síðar og textinn í heild einn sá besti.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2015 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.