Ekkert lát á auglýsendum.

Ekkert þurrð virðist vera á frægu erlendu fólki sem hælir landi okkar upp í hástert og auglýsir það betur en nokkrar ferðaauglýsingar geta gert.

Og við rekum mörg upp stór augu þegar við sjáum hvað útlendingarnir sjá merkilegt við það sem okkur finnst ekkert merkilegt eða jafnvel ómerkilegt.

Justin Bieber veltir sér upp úr íslenskum mosa, sem áratugum saman hefur verið útmálaður sem "ömurlegt" fyrirbæri á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.

Hann er dolfallinn yfir söndunum sunnlensku, eins "ljótir og svartir" og okkur hefur fundist þeir vera, en fellur ekki í stafi yfir því sem um aldir hefur hrifið Íslendinga vegna ljóðlínanna um það fyrirbæri:  "Fögur er hlíðin..bleikir akrar og slegin tún."

2010 grétu margir Íslendingar yfir því hvernig eldfjallið Eyjafjallajökull hafði útleikið allt næsta nágrenni sitt með viðbjóðslegri ösku og valdið óhemju búsifjum í flugi um allan heim.

Nú var fokið í flest skjól fyrir Íslandi og það eyðilagt sem ferðamannaland.

En þvert á móti kom í ljós, sem í upphafi var spáð hér á bloggsíðunni, að ekkert eitt atriði í sögu landsins hafði auglýst það og undur þess eins rækilega og þetta gos, sem varð til þess að nafn landsins varð í fyrsta skipti á vörum nær allra jarðarbúa.

Ólíklegt er að Bieber fari í myndbandi sínu, þegar það verður allt sýnt, á þá staði sem stór hluti þjóðarinnar hefur haldið áratugum saman að hljóti að vera það merkilegasta, sem sé Hallormsstaðarskógur eða Vaglaskógur.

Jafnvel þótt óskandi væri fyrir okkur að við gætum stjórnað því hvað útlendingum þyki merkilegast og hrífist mest af, eins og svo lengi var reynt áratugum saman.  

Bara vegna þess að það sem þeim fannst magnaðast, var svo skelfilega hversdagslegt eða hallærislegt í okkar augum.

 

 


mbl.is Bieber með myndband frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hlýtur að vera frábært að vera svona yfir aðra Íslendinga hafinn, forspár og sjá land og þjóð með augum heimsmannsins. Einn til að skilja það að útlendingar komi hingað til að sjá eitthvað sem þeir sjá ekki út um eldhúsgluggan heima hjá sér. Og að fyrstur Íslendinga hafir þú gert þér grein fyrir því að þó eldgos fækki ferðamönnum eitt sumar þá komi sumur eftir það sumar. Hvar værum við án þessa snillings til að leiða okkur og hugsa fyrir. Án þín værum við enn að reyna að selja útlendingum ferðir að skoða fjósið á Korpúlfsstöðum, Mjólkursamsöluna og tún Árnessýslu.

En þó gaman geti verið að sötra vín á góðviðrisdögum undir hrýslu í Hallormsstaðarskógi eða Vaglaskógi þá minnist ég ekki þess að þeir staðir haft verið taldir eitthvað sérstaklega merkilegir. Áfram verður farið með útlendinga á Gullfoss og Geysi frekar en að henda þeim út á Reykjanesbrautinni til að velta sér í mosanum. Og svörtum söndum verður bölvað í hvert sinn sem þeir fylla vit og skemma bíla. Útlendingar hafa jafnvel sumir á viðkvæmum augnablikum látið ljót orð falla eftir að hafa spýtt út úr sér sandinum, hrist hann úr hárinu og rauðeygir reynt að finna sér skjól.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 00:24

2 identicon

Óskaplega leiðist mér þegar fólk skrifa meiðandi ummæli undir dulnefni. 

"Hábeinn"  Ómar er sá sem hefur barist af hugsjón fyrir breyttu hugarfari þegar náttúra Íslands er annars vegar. Við þjóðin höfum heiðrað hann fyrir óeigingjarna baráttu. 

Ef einhver þykist vera yfir aðra hafinn þá ert það þú sem ekki þorir að skrifa undir nafni. Megir þú "Hábeinn" skammast þín. 

Elsa Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 11:12

3 identicon

Elsa, Ómar er flottur kall, en hann á það til að alhæfa og hrósa sjálfum sér um of. Oft slær hann fram almennri skoðun og vitneskju eins og hann sé einn Íslendinga um að hafa fengið þá niðurstöðu og hæðist svo að samlöndum sínum fyrir heimskuna. Svo var hann bara heiðraður en ekki gerður heilagur. Og ég held hann sé alveg maður til að taka smá gagnrýni.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.11.2015 kl. 12:49

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Óttalegir eymíngjar þezzir 'Zmábeinar' allir 'zúzammen'...

Z.

Steingrímur Helgason, 3.11.2015 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband