"Kristján tíkall."

Sambúð Íslendinga og síðasta konungsins yfir Íslandi var sérkennileg. Á ytra borðinu var hún slétt og felld og sýndist jafnvel innileg þau 32 ár sem hann var konungur okkar og Dana.

Í samræmi við einveldið fyrir 1849 var skylda að draga fána að hún á afmælisdegi konungs og "flagga fyrir kónginum" á hverju hausti. Þessu man ég vel eftir.

Þegar konungur átti afmæli haustið 1940 var sérstök dagskrá haldin honum til heiðurs og meira að segja guðsþjónusta af því tilefni í dómkirkjunni.

Þó var Danmörk hernumin af Þjóðverjum og Ísland af Bretum.

Konungur kom tvívegis í opinbera heimsókn til Íslands, 1921 og 1930, tvöfalt oftar en faðir hans og afi.

Þegar Alþingi var sett ár hvert voru hrópaðar tvær setningar og byrjaði hin fyrri svona: "Heill konungi vorum...". Og húrrahróp fylgdu á eftir.

Beðið var fyrir konungi í öllum messum eins og gert hafði verið um aldir, og gat slíkt orðið sérkennilegt fyrr á tíð þegar liðið gátu mánuðir sem að konungurinn hafði verið dauður án þess að Íslendingar hefðu hugmynd um það, síðast 1863.

Í landslögum var bannað að tala almennt óvirðulega um þjóðhöfðingja heimsins og varð Þórbergur Þórðarson fyrir barðinu á því fyrir að tala óvirðulega um Adolf Hitler.

En þetta var slétt og fellt yfirborð. Undir niðri kraumaði ákveðin óánægja og órói á árum sjálfstæðisbaráttunnar.

Ég man eftir því þegar sungið var opinberlega í gamanvísum um "Kristján tíkall."

Friðrik áttundi, faðir Kristjáns, var Íslandsvinur eins og fræg ræða hans við Kolviðarhól 1907 bar vitni um, en honum sárnaði ákaflega þegar Íslendingar felldu uppkastið 1908.

Sonur hans tók þetta afar óstinnt upp og virtist ekki hafa getað fyrirgefið Íslendingum þetta og því síður fyrirgefið þegar lýðveldið var stofnað 1944 án viðræðna við Dani.

Þó gátu vitrir menn ytra fengið hann til að drattast til að senda Íslendingum heillaskeyti sem lesið var upp á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum við mikinn fögnuð þeirra sem þar voru.

Sérkennilegt er að sjá núna, næstum öld síðar, að Kristján hafi látið sér detta í hug að senda dönsk herskip til Íslands til að aga landsmenn.

Í fyrra tilefninu, höfnun uppkastsins 1908, var Kristján krónprins, en var síðan orðinn kóngur þegar fánadeilan var í gangi.

Rakið hefur verið hvernig Danir hikuðu ekki við það margsinnis að gera Ísland að verslunarvöru og falbjóða landið stórveldum ef þeim hentaði.

1918 voru Íslendingar svo heppnir, að Danir gerðu Ísland að óbeinni verslunarvöru í krafti 14 punkta Wilsons Bandaríkjaforseta í friðarsamningum í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þeir bættu samningsaðstöðu sína gagnvart Þjóðverjum með því að slaka á gagnvart Íslendingum með Sambandslögum og þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, og ná fram á móti þjóðaratkvæðagreiðslu í Slésvík-Holsetalandi um landamæri Danmerkur og Þýskalands.

Í fátækt sinni og umkomuleysi fyrr á öldum var óhjákvæmilegt að einhver erlendur konungur réði yfir Íslandi.

En þrátt fyrir allt voru Íslendingar heppnir að það voru Danir en ekki eitthvert stórveldanna sem ráði yfir Íslandi. Danir voru illskárri.

Undir stórveldi hefðu Íslendingar ekki haldið tungu sinni og menningarlegri og þjóðernislegri reisn.

Danir og aðrar Norðurlandaþjóðir mátu mikils sameiginlegan menningararf, sem Íslendingar höfðu skapað og varðveitt, fyrir sjálfsvitund sína og þjóðerni, og þess vegna verður gildi íslenskrar tungu og menningar seint ofmetið.


mbl.is Kristján X. vildi aga Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 (Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm af Glücksborg) var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947. Eftir að Ísland varð fullvalda þann 1. desember 1918 bar hann einnig titilinn konungur Íslands þangað til Íslendingar stofnuðu lýðveldi 1944. Hann var bróðir Karls Danaprins, sem varð Hákon 7. Noregskonungur 1905.

Kristján var hávaxinn og þótti mynduglegur, alvörugefinn og skyldurækinn. Hann lauk stúdentsprófi 1889 og var fyrstur Danakonunga til að hafa slíkt próf. Því næst þjónaði hann í hernum, í ýmsum herdeildum. Hann varð krónprins 1906 þegar faðir hans, Friðrik 8., varð konungur, og var sjálfur krýndur konungur að föður sínum látnum, árið 1912.

Kristján þótti nokkuð stjórnlyndur og upptekinn af virðingu konungdæmisins, og var því kannski ólíklegur til vinsælda á tímum lýðræðisvakningar í Evrópu. Hins vegar ávann hann sér djúpa virðingu þegna sinna og annarra, með táknrænni forystu í báðum heimsstyrjöldunum, og hafa fáir Danakonungar verið jafn vinsælir

Pungtur.

S. Breik (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 12:15

2 identicon

Þann 9. apríl 1940 varð Kristján konungur enn á ný miðpunktur athyglinnar, er Þjóðverjar hertóku Danmörku. Hann skoraði á þegna sína að sýna þolgæði og æðruleysi gagnvart Þjóðverjunum, en sjálfur reið hann hesti sínum daglega um götur Kaupmannahafnar, og jók þannig kjark þegna sinna með því að sýna þeim að hann væri óbugaður og væri meðal þeirra, öfugt við ýmsa konunga sem flúðu hernumin lönd sín. Það vakti athygli að hann reið einn, án lífvarða. Sagt er að eitt sinn hafi þýskur hermaður sagt dönskum smástrák að honum fyndist það skrítið. Strákurinn hafi svarað: „Öll Danmörk er lífvörður hans.“

S. Breik (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 12:16

3 identicon

Árið 1942 átti Kristján 72 ára afmæli, og fékk heillaóskaskeyti frá Adolf Hitler. Hann lét sér fátt um finnast, og sendi stuttaralegt svarskeyti: „Bestu þakkir. Kristján konungur“. Hitler varð bálreiður, og Þjóðverjar neyddu Dani til að setja nýja og þýsk-vænni ríkisstjórn. Sama ár féll Kristján af hestbaki og slasaðist. Hann náði sér aldrei almennilega eftir það, og Friðrik sonur hans og ríkisarfi tók meira og minna við stjórnartaumunum.

Árið 1944 stofnuðu Íslendingar lýðveldi. Þar sem Danmörk var hernumin, og lýðveldisstofnunin var ekki í samræmi við sambandslögin frá 1918, var það umdeilt meðal Íslendinga að lýðveldisstofnuninni skyldi flýtt, og mæltist það auk þess misjafnlega fyrir meðal annarra ríkja. Kristjáni konungi sárnaði að ekki skyldi farið eftir samningum, en þann 17. júní, á Þingvallafundinum þar sem lýðveldið var stofnað, var lesið upp skeyti frá konungi, þar sem hann óskaði Lýðveldinu Íslandi gæfu og velfarnaðar.

 

S. Breik (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 12:17

4 identicon

Minnumst fullveldis í 100 ár 2018
með því að skjaldarmerki Íslands
fái sinn sigursess á Alþingishúsinu
sem því ber.

Efnum til samkeppni meðal þjóðarinnar varðandi
umgjörð og búnað og látum loks verða af því að
gleðjast og njóta slíks dýrðardags enn einusinni
að Ísland er sjálfstætt fullvalda ríki meðal þjóðanna.

Húsari. (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 13:42

5 identicon

Það væri líka hægt að sleppa merkinu, taka mark á þjóðinni og halda upp á 100 ára afmæli flugvallarins með því að láta hann í friði :)

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 14:57

6 identicon

Gerum þetta hvorttveggja, Elín!

Húsari. (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 15:29

7 identicon

Minnumst fullveldis í 100 ár 2018
með því að skjaldarmerki Íslands
fái sinn sigursess á Alþingishúsinu
sem því ber. Rífum niður minjar um
fortíð okkar eins og Talibanar og Isis.
Brennum sögur Norskra konunga, og
mölvum merki Danskra.
Setjum fortíðina á haugana og horfum
án sögu bjartsýn til framtíðar.

Vagn (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 16:30

8 identicon

Sæll Ómar.

Samviskan er það vald sem frjálsbornir menn hlíta.
Hvergi þekkist það að þjóðir rækti ekki jafnt
menningararf sinn þó þær virði sjálfstæði
sitt og þjóðfána sem vera ber.

Firrur og fjarstæður á borð við þær
sem ofan gefur að líta eru ekki svaraverðar og dæma
sig sjálfar.

Húsari. (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 18:02

9 identicon

Það er vel þekkt og algengt þegar þjóðir hljóta frelsi undan kúgurum sínum að ráðast á allt sem minnir á fyrri tíð. Með niðurrifi og eyðileggingu telja hinir nýfrjálsu sig vera að upphefja sitt nýja sjálf og gera upp fortíðina. Fara þá sögu og menningarminjar fyrir lítið hinu nýja frelsi til dýrðar. Skemmdarfýsn hinna sjálfhverfu tekur völdin og ekkert tillit er tekið til þess að sögu og menningarminjar eru mannkyns alls en ekki þeirra einkamál.

Vagn (IP-tala skráð) 12.11.2015 kl. 21:54

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar höfð er í huga runan með upptalningu á löndum og lendum, sem Danakonungar réðu, er ljóst að þeir töldu sig vera konungar þessara landa, og voru því konungar Íslands, rétt eins og Danmerkur, Slésvíkur og Holsetalands, Vinda og Gauta o.s.frv.

Formlega var það konungur Íslands sem lét reisa Alþingishúsið með merki konungs á því og þess vegna fráleitt að fara að rífa merkið niður.

Danakonungur stóð fyrir gerð Skansins í Vestmannaeyjum og fráleitt að rífa hann þess vegna.

Meira að segja Bolsévíkarnir, sem höfðu megna andúð á trúarbrögðum, fóru ekki að troða hamri og sigð á byggingarnar í Kreml.

Þegar kommúnistar réðu yfir Eþíópíu datt þeim ekki í hug að ráðast gegn guðshúsum kristnu koptanna og einstakri kristinni menningararfleifð þjóðar, sem varð kristin 700 árum á undan Íslendingum og Norðmönnum.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2015 kl. 23:07

11 identicon

Húsari!  Það var ljótt af okkur að stofna lýðveldi á meðan Danmörk var hernumnin.  Það er líka ljótt af okkur að sparka í Rússa núna og þakka þannig fyrir okkur.  Stundum er best að gera ekki neitt.  Sleppum því að tralla í kringum merkið, sleppum því að sparka í Rússa, sleppum því að jarða flugvöllinn.    

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.11.2015 kl. 09:19

12 identicon

Sæl Elín.

Þú hittir naglann á höfuðið með athugasemd þinni!

Sjaldan hef ég heyrt annað eins svartagallsraus
og hér er að ofan og ættu slíkir að draga sig
inní moldarkofana hið snarasta og láta helst aldrei
sjá sig framar!

Vandinn er sá að þeir eru æ fleiri sem gera ekkert með
fullveldi Íslands, þeim er slétt sama um það og vita
ekki merkingu orðsins hvað þá meir.

Alþingishúsið stendur á íslenskri jörð sem því var gefin
á sínum tíma; þar á danskur kóngur engin ítök, ekkert tilkall.

Íslendingar hafa af einstakri þjónkun við erlent vald
látið sig hafa það að gera sem minnst úr sjálfstæði 
íslenskrar þjóðar eins og þú nefnir svo réttilega.

Hornsteinar fullveldis eru lýðræði, frelsi og jafnrétti.
Þeir sem hafa verið á spenanum í tugi ára og þekkja ekki
annað skilja ekki hugtökin fullveldi og sjálfstæði
eins og glöggt má sjá.

Ísland er eina lýðfrjálsa, sjálfstæða ríkið í víðri
veröld sem lætur slíka skömm yfir sig ganga að vera með
blóðidrifið tákn nýlendukúgarans á þjóðþingi sínu;
eina landið í víðri veröld þar sem þjóðþingið skartar
ekki skjaldarmerki sínu en hefur fleygt því inní
næsta moldarkofa ef ekki á öskuhauga sögunnar.

Við eigum að taka á okkur rögg og bæta úr þessu en ekki
að láta þessar búkollur vaða yfir öllu lengur.

Minnumst fullveldisins með viðeigandi hætti
og látum á sjá að við kunnum að meta gengnar
kynslóðir sem öllu fórnuðu fyrir sjálfstæðisbaráttuna
og látum draum þeirra og okkar rætast með því
að réttilega prýði skjaldarmerki Íslands sjálft þjóðþingið.

Stígum á stokk og strengjum þess heit að skjaldarmerki
lýðveldisins Íslands prýði þjóðþingið 2018.

Gerum það í minningu kynslóðanna sem öllu fórnuðu til
að slíkt mætti verða að veruleika.

Húsari. (IP-tala skráð) 13.11.2015 kl. 10:52

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lenin sagði að trúarbrögð væru ópíum fólksins og bolsévikar formæltu "blóði drifinni" kúgun yfirstéttanna og klerkanna.

Samt hrófluðu þeir ekki við Kreml né létu merki kommúnismans, hamar og sigð, prýða byggingarnar þar.

Ómar Ragnarsson, 13.11.2015 kl. 21:31

14 identicon

Sæll Ómar.

Þú hafur heldur betur ruglast í fræðunum
því rauða stjarnan tók við tákni keisarans
þegar í stað eftir októberbyltinguna 1917og allar opinberar byggingar báru tákn þetta
og í Kreml sjálfri gnæfði rauða stjarnan við himin.

Er ekki í lagi heima hjá þér!

Húsari. (IP-tala skráð) 13.11.2015 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband