29.11.2015 | 20:13
Ragnar Reykás í beinni útsendingu í kvöld.
Í þættinum um karaktera Spaugstofunnar í Sjónvarpinu í gærkvöldi sagði Guðni Ágústsson að í karakternum Ragnari Reykási sæi hann einn af flokksbræðrum sínum.
Hann nefndi ekki hver það vær, en ekki var liðinn sólarhringur, þegar fréttamaður ræddi í beinni útsendingu við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir utan stjórnarráðshúsið þar sem mótmælendur höfðu lagt litla pappírsdreka í snjóinn til að mótmæla olíuvinnslu í boði Íslands á Drekasvæðinu.
En Gunnar Bragi er á leið til Parísar til að leggja sitt lóð á vogarskálar minnkandi losunar gróðurhúsalofttegunda.
Gunnar Bragi var spurður að því hvort það samræmdist þeirri stefnu, sem Ísland hefði fram að færa varðandi það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að ætla að gera Ísland að olíuframleiðsluríki.
Jú, jú, hann var ekki í vandræðum með að réttlæta það eins og róbóti með gamla orðalaginu "við verðum að nýta..".
Ég sá áðan á einni bloggsíðunni, að fundarmenn eru sakaðir um hræsni, því að þeir hefðu farið á mmótmælafundinn á farartækjum, knúnum jarðefnaeldsneyti.
Mér var ljúft að svara honum á þá leið að ekki gæti ég tekið þetta til mín. Ég hefði farið á fundinn austan af Borgarholti í Grafarvogshverfi á farartæki, knúnu íslensku rafmagni, og orkan í ferðina fram og til baka hefði kostað alls 5 krónur.
570 þúsund tóku þátt í mótmælum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var reyndar ekki Guðni sem sagðist sjá ákveðinn stjórnmálamann í Ragnari Reykás, heldur Steingrímur J.. Hann nefndi ekkert frekar hver það var en sjálfsagt fer það eftir stjórnmálaskoðunum hvers og eins hvern menn sjá sem fyrirmynd Ragnars.
Þar má sannarlega nefna Gunnar Braga, en margir aðrir koma til greina, s.s. sá sem lét ummælin falla, en sjaldan hafa sést meiri "Reykás tilbrigði" en einmitt frá þeim manni, vorið 2009.
Hvorugur þessara er þó fyrirmynd Ragnars, þar sem fæðing hans átti sér stað fyrir löngu síðan, örugglega áður en Gunnar Bragi kom í stjórnmál og sennilega líka áður en SJS hóf afskipti af stjórnmálum.
Þeir sem muna stjórnmál fyrir tíð Ragnars Reykás, muna að í flestum eða öllum stjórnmálaflokkum voru menn sem hæglega gátu verið fyrirmynd þessa ágæta Spaugstofubróður. Ljóst var af viðtalinu við SJS að hann hafði einhvern einn í huga, sjálfsagt pólitískan andstæðing. Meiri líkur eru þó á að þeir bræður Ragnars, sem hann skópu, hafi ekki haft einn mann í huga, heldur marga úr öllum flokkum.
Því miður hefur lítil breyting til batnaðar orðið á Alþingi að þessu leyti til. Enn eru þar margir Reykásar. Meðan Spaugstofan var og hét, hélt hún þó uppi aðhaldi til Reykásana sem þá voru, í dag leika þeir lausum hala.
Gunnar Heiðarsson, 29.11.2015 kl. 22:21
Þeir sögðu báðir svipað, Steingrímur J. og Guðni, um menn, sem voru svipuð týpa og Ragnar Reykás, en við hjónin teljum okkur muna það rétt að Guðni hafi talað um að einn flokksbróðir hans minnti sig á Ragnar, - eða öfugt.
Ómar Ragnarsson, 30.11.2015 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.