6.1.2016 | 01:52
Jón Þ. og Brumel snertu körfuboltahring með tánum.
Frá gólfi upp í körfuboltahring eru 3,048 metrar. Rússinn Valery Brumel var besti hástökkvari heims á 7. áratug síðustu aldar og þóttu firn mikil þegar hann lék sér að því á æfingum að stökkva upp og snerta körfuboltahring með stóru tánni.
En annar hástökkvari gat líka gert þetta á fyrstu árum 7.áratugarins.
Það var Jón Þ. Ólafsson, sem gerði þetta með þriggja skrefa atennu í hinu pínulitla íþróttahúsi ÍR við Túngötu.
Hver sá, sem stendur fyrir neðan körfuboltahring og horfir upp í hann hlýtur að undrast að þetta skuli vera hægt.
Valery Brumel náði meistaralegum tökum á grúfustílnum svonefnda og þegar það bættist við einstæðan stökkkraft voru yfirburðir hans tryggðir.
Jón Þ. náði ekki sömu tökum á þeim erfiða stíl, var of fattur yfir ránni og felldi oft með mjöðmunum, þótt efri hluti líkamans væri 10-15 sentimetra yfir ránni.
Hann hefði hugsanlega náð betri árangri með Fosbury stílnum svonefnda sem nær allir hafa notað síðustu fjóra áratugi, en þessi stíll byrjaði ekki að ryðja sér til rúms fyrr en eftir 1968.
Það fer um mann gamall straumur við að sjá norsku hlaupakonuna stökkva á tengdu myndskeiði á mbl.is
Það var gaman að því um tvítugt að stökkva í þremur skrefum upp tröppurnar á Stórholti 33.
Þær voru og eru tvískiptar, fyrst þrjár tröppur, síðan kom ca 2,5 metra pallur, en þar á eftir komu sjö tröppur.
Vegna pallsins varð hraðinn mikilvægt og skemmtilegt atriði í þessu sérkennilega þrístökki.
Ótrúlegur stökkkraftur - myndskeið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jón Þ. vinur minn var aburða góður íþrótta maður.
Helga Kristjánsdóttir, 6.1.2016 kl. 02:55
Hann var afar fjölhæfur stökkvari og lipur kringlukastari, enda virtist hann á stundum hafa mestu ánægjuna af því að æfa sig með kringluna.
Ómar Ragnarsson, 6.1.2016 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.