24.1.2016 | 07:35
Stóra bílastyrksmálið.
Stóra bílastyrksmálið sýnist, samkvæmt upplýsingum í frétt þar um, felast í því að presturinn í Njarðvíkurprestakalli hefði átt að greiða ferðakostnað vegna starfs síns að mestu leyti úr eigin vasa til að brjóta ekki reglur um það að sóknarnefndir megi ekki hlaupa undir bagga með ríkinu í þeim efnum.
Í áratugi hefur verið við lýði kerfi um akstur opinberra starfsmanna á eigin bílum í þágu ríkisins.
Sérstakar akstursbækur hafa verið gerðar fyrir þessa starfsemi, og í þeim þarf að fylla út blöð með fullnægjandi upplýsingum um aksturinn og verkefnin, dagsetningar, kílómetrastaða við upphaf og lok aksturs og ekin vegalengd.
Að sjálfsögðu þarf presturinn í Njarðvíkurprestakalli að hafa bókhald sitt samviskusamlega fært og á hreinu.
En hann sinnir 7400 manna allstóru prestakalli með þremur kirkjum og ef hann hefur sannnanlega ekið tilgreinda kílómetra vegna tilgreindra embættisverka fer Stóra bílastyrksmálið að snúast um réttlætingu þess að þessi opinberi starfsmaður þurfi að greiða stærstan hluta síns bílakostnaðar sjálfur á sama tíma sem aðrir opinberir starfsmenn eiga kost á að fá greiddan sannanlegan bílakostnað í þágu ríkisins.
Að vísu er þetta mismunandi, þannig að í öðrum tilfellum er greidd ákveðin föst árleg upphæð í bílastyrk, sem fylgir starfinu.
Telur viðkomandi starfsmaður þann styrk fram til skatts.
Það fer að verða fróðlegt að fylgjast með þessu máli og hverjar verða lyktir þess, því að í heild er þetta kerfi aksturs opinberra starfsmanna býsna stórt og aðstæður fjölbreytilegar.
Þess má geta að opinber starfsmaður, sem aka myndi bíl sínum í þágu verkefnis á vegum ríkisins fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur, á rétt á að fá greitt hátt í 90 þúsund krónur vegna akstursins samkvæmt taxta fyrir aksturskostnað bíla í eigu opinberra starfsmanna.
Sérstök nefnd hefur í áratugi lagt mat á hver kostnaðurinn teljist vera og minnir mig að nýlega hafi hún lækkað taxtann niður undir 100 krónur á kílómetrann, væntanlega vegna lækkunar eldsneytisverðs.
Ef ekið er um malarvegi hækkar taxtinn um 15% og um heldur meira ef ekið er um torfærur, svo sem um hálendisvegi eða jökla.
Prestur fær milljónir í bílastyrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ver mælt Ómar. Það er þó ljóst að hér fær góða fólkið í þjóðfélaginu kærkomið tækifæri til þess að ata manninn auri. Þetta verður líka vatn á millu hatursmanna þjóðkirkjunnar.
Jón Garðar (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 08:42
Þakka þér fyrir Jón Garðar. Jú, það er rétt hjá þér að við sem höfum gagnrínt þjóðkirkjuna, sérstaklega vegna fjármála hennar og einokunarafstöðu fáum þarna vatn í myllu. Að mínu mati ætti það að vera sóknarnefndin sem á að greiða þennan ferðakosnað- ekki ríkið. Ríkið erum við öll , líka 30 prósentin sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni.Athugaðu að prestar eru ekki opinberir starfsmenn samkvæmt því sem talsmenn kirkjunnar halda fram. Opinberir starfsmenn eru þeir einir sem fá laun sín greidd frá ríkinu, en þjóðkirkjan heldur því fram að þetta séu greiðslur fyrir kirkjujarðir samkvæmt samningi. Og samkvæmt því hafa kirkjunnar menn haldið því fram að með þeim gjörningi hafi kirkjan öðlast sjálfstæði frá rikinu.
Jósef Smári Ásmundsson, 24.1.2016 kl. 09:25
Þetta er frekar undarleg frétt.
Fyrir það fyrsta þá er þetta greitt úr sjóðum sóknarinnar og ætti henni að vera frjálst að ráðstafa þeim peningum að vild.
Í öðru lagi er gefið í skyn að presturinn sé að fá þetta fé fyrir ekki neitt, þegar mestar líkur séu á að þetta sé fyrir sannarlegan akstur. Ef miðað er við ríkistaxta fyrir ekinn kílómeter er hann að fá greitt fyrir langt undir 800 kílómetrum á mánuði, en það telst varla mikill akstur fyrir prest á landsbyggðinni. Þetta er akstur sem svarar til nokkuð vel innanvið tveim ferðum frá Njarðvík til Reykjavíkur og til baka aftur, á viku.
Það má víða finna fólk innan ríkisbáknsins sem fær greiddan bílastyrk, mun hærri en það sem presturinn fær og auðvelt að finna innan þess hóps fólk sem slíkan styrk fær fyrir ekki neitt. Jafnvel hægt að finna ríkisstarfsmenn sem fá bílastyrk en eiga þó ekki bíl.
Það væri verðugra verkefni fyrir fjölmiðla að skoða slík dæmi og fjalla um þau, en að ráðast gegn landsbyggðapresti sem nær örugglega ekur meira en það sem styrkurinn segir til um.
Gunnar Heiðarsson, 24.1.2016 kl. 11:33
"Á bilinu 47-48% eru hlynnt því að ákvæði um þjóðkirkju verði fellt úr stjórnarskránni en tæplega 30% eru því andvíg, samkvæmt könnun Maskínu fyrir Siðmennt.
Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu, sem sé þeir sem eru hlynntir eða andvígir, eru á bilinu 61-62% hlynnt því að fella ákvæðið út."
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 12:50
Rétt Ómar. Við náum hvort eð er ekki utan um þetta Borgunarmál. Hér erum við að tala um 88.000 kr. á mánuði. Segi og skrifa áttatíuogáttaþúsundkrónur.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 12:52
"Mikill meirihluti (72%) er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju meðal þeirra sem segjast hlynntir eða andvígir aðskilnaði.
Er þessi niðurstaða í samræmi við niðurstöður í könnunum Gallup árin 1998 til 2015 sem allar hafa sýnt meirihlutastuðning við aðskilnað.
Tæplega helmingur svarenda er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju en naumlega 19% andvíg honum."
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 12:59
Sæll Ómar - sem og aðrir gestir, þínir !
Ómar !
Reyndu ekki - að bera blak af þessum skussum Lúhersku græðgisvæddu kirkjunnar þjónum, ágæti fjölfræðingur.
Þú talar: um opinbera starfsmenn Ómar - þvílik og önnur eins afsökun, ég man nú ekki betur, en að þjónar fyrstu safnaða Fornkirkjunnar í Fornöldinni (á 1. öld: og síðar) hafi starfað á vegum síns fólks / ekki kostuðu Rómarkeisarar né Persakonungar eða aðrir frammámenn þeirra tíma, þegar Kristni var að hazla sér völl, starfsemi eða þjónustu Byskupanna - Prestanna né annarra þeirra, sem í þágu safnaðanna þjónuðu.
Ísl. Þjóðkirkjan í dag - er NÁKVÆMLEGA sama afætan á vösum landsmanna, og sífellt útþenjandi ráðuneytin, sem alls lags stofur og nefndir Blýanta nagaranna, suður í Reykjavík, sem víðar um grundir Ómar minn.
Sannkallaðar plágur: þar á ferð, síðuhafi góður.
Að minnsta kosti - fer ég þess á leit við minn frændgarð, þegar þar að kemur, að ég verði dysjaður utan Kirkjugarðs, án nokkurs tildurs eða tilkostnaðar Ómar / og þá helzt:: á 24 - 30 feta dýpinu - ekki dygðu mér 6 fetin, eigi að hindra mögulega aftugöngu mína, Ómar: og aðrir ágætir gestir þínir, hér á síðu.
Með beztu kveðjum sem endranær - af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 12:59
Ritskoðunin - er sem sagt orðin viðvarandi: hér á síðu, sem víðar.
Eða: hví var léttri athugasemd minni / frá því fyrr í dag, fargað ?
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 14:12
Bið forláts: á athugasemd nr. 8, hafi Tölvu hnökrar verið að verki (varðandi nr. 7), en ekki ákveðni síðuhafa, til brottnáms hennar.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 14:15
Ég hef ekki ekki fjarlægt neina athugasemd á þessu ári.
Ómar Ragnarsson, 24.1.2016 kl. 20:20
Komið þið sæl - á ný !
Þakka þér fyrir Ómar: og afsakaðu, fljótfærnislega ályktun mína, frá því um Hádegisbilið, í dag.
Með beztu kveðjum - sem oftar, og áður /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 20:46
Ég myndi nú ekki kalla 88þ á mánuði mikið í bílastyrk fyrir einstakling sem býr "úti á landi", ef hann þarf að ferðast eitthvað þá er kostnaðurinn fljótur að koma, þetta miðast við 800 km á mánuði sem er innan við 30 á dag. Ætli ég sé ekki að keyra um 15-20km hvern virkan dag í og úr vinnu (og er það ekki löng vegalengd), þannig að maður sem er kannski að keyra á milli bæja er ansi fljótur að hala inn kílómetrunum.
Ef hann er á eigin bíl þá er það ekki mikið að borga 100kr fyrir hvern ekinn kílómeter, ef allur rekstur er tekinn saman þá efast ég stórlega um að hann sé að fá mikið í vasann af þessu ef eitthvað er.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 25.1.2016 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.