"Þeir tunglið höfðu malbikað..."

"Mig dreymdi´ég væri uppi árið 2012.

Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf

og veröldin var skrýtin, það var allt orðið breytt

því vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."...

 

Svona hefst textinn "Árið 2012" sem gerður var árið 1967 fyrir Vilhjálm Vilhjálmsson, sem var ákafur aðdáandi bandarískrar sveitatónlistar og fylgdi því eftir.  

 Þegar árið 2012 rann upp sýndist upphaf spátextans um það ár hafa byrjað herfilega, og til dæmis gróf yfirsjón að sjá það ekki fyrir, en enda þótt vélar vinni nú þegar ótrúlega mikið af störfum, sem menn unnu áður, er fjarri því að "enginn geri neitt", því að herskara fólks þarf til að vinna við viðhald allra vélanna, við að "uppfæra þær", "andlitslyfta", endurbæta og skapa nýjar.

Í nýjum texta þar sem horft var til baka í söng Jóhanns sonar Villa og Óskars Péturssonar, varð upphafið því svona:

 

"Nú er runnið upp hér árið 2012

og tunglið hvorki malbikað né steypt í hólf og gólf.

En veröldin er talsvert breytt og tryllingsleg í senn,

því tölvur vinna störfin og hugsa fyrir menn..." 

 

En nú, aðeins fjórum árum eftir árið 2012, er að koma í ljós að það var ekki svo galið að spá því fyrir 45 árum fyrr, að malbikun yrði hafin á tunglinu á 21. öldinni.

Að vísu ekki allt tunglið "í hólf og gólf", enda gripið til þessara tveggja orða sem skondinna rímorða og til að ýkja svolítið skemmtilega.

Að öðru leyti hefur textinn gamli elst furðu vel, - einskonar "yfirmaður" útvarpsstjóra er að vísu ekki vasatransistor heldur vasa-snjallsími, þingmenn virðast enn "ei með fulle fem", og risavaxnar tölvur frá Apple og Microsoft hafa tekið að sér mikið af verkefnum forsætisráðherra, en í gamla textanum varð að vísu að notast við vörumerkið IBM, af því að engin leið var að sjá fyrir hver tölvu-vörumerkin yrðu árið 2012.

"Röntgen kábojmyndir" eru að vísu ekki komnar en magnaðar þrívíddarmyndir dýpka sjónarhorn, -  "dóninn á barnum" býður kannski ekki beint upp á sprautu, en hins vegar er þegar í bígerð erlendis samkvæmt fréttum að bjóða sprautufíklum upp á sprautuþjónustu af opinberri hálfu, auk þess sem það tekur ekki nema dagstund að skjótast til Hollands til að komast í tæri við hass.

1967 var spáð um yfirgengilega tækni við fjölgun manna, "við notum pillur nú til dags" sem er ekki langt frá því sem seinna varð, klónun, staðgöngumæðrun og genabreytingar.

Ef eitthvað var, var það helst að textinn um árið 2012 var ekki nákvæmur hvað ártalið snerti, heldur kannski full framsýnn og kannski heppilegra ef árið 2112 hefði verið notað.  

Á 21. öldinni stefna menn nefnilega ótrauðir í það að "malbika tunglið" samkvæmt nýjustu fréttum. 


mbl.is Þorp rís senn á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband