26.1.2016 | 21:57
Hvenær kemur Opel Karl? Suzuki Celerio?
Sókn Opel verksmiðjanna undanfarin misseri hefur verið alveg frá ódýrstu og minnstu bílunum og upp úr.
Opel Adam, sem kom fram í fyrra, dregur nafn af Adam Opel, sem stofnaði verksmiðjurnar, og nú er kominn aðeins minni bíll og mun ódýrari, en samt rúmbetri sem dregur nafn sitt af Karli, elsta syni Adams Opel.
Karl er með fernar dyr en Adam tvennar, og er Adam hugsaður fyrir annan markhóp, þá sem eiga hann kannski sem annan bílinn á heimilinu og samt flottan og íburðarmeiri en Karl.
Karl keppir við Volkswagen Up!, Kia Picanto, Skoda Citigo, Hyundai i10, Toyota Aygo og fleiri, og hefur fengið mjög góðar viðtökur, til dæmis orðið efstur í bílaprófun hins þekkta tímarits Auto motor und sport.
Þarð talsvert til, því að mjög hörð keppni er í þessum stærðarflokki.
Að vísu er gróði framleiðenda svo ódýrra bíla ekki mikill, en að mestu óbeinn, því að ungt fólk á uppleið, svo sem námsfólk, kaupa þá meðan fjárráðin eru lítil, en halda, ef vel gengur, oft tryggð við framleiðandann og kaupa æ stærri og dýrari bíla þegar fjárráðin verða meiri.
Þetta var bragð sem japanskir bílaframleiðendur notuðu erlendis upp úr 1970, til dæmis í Bandaríkjunum, til þess að ná undirtökum á bílamarkaðnum.
Nú er kominn fram arftaki Suzuki Alto, Suzuki Celerio, 10 sentimetrum lengri og hefur fengið ágætar móttökur.
Skyldi hann koma hingað til lands og þá hvenær?
Opel gefur innsýn í framtíðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég ek stærsta Opelnum, Insignia og er nokkuð sáttur við hann, Stór og kraftmikill og eyðir 6-6,7 á hundraðið. Hann er með einhvern extra mengunarbúnað þannig að hann telst "grænn" bíl, þó hann eyði meiru en VW Passat, sem er ekki grænn.
Búinn að keyra hann 100 þús km og ekki einu sinni farið framljósapera, hvað þá meira.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2016 kl. 00:17
Sonur minn átti Opel Corsa í 14 ár, ók honum að vísu aðeins 16 þúsund kílómetra en hann var skotheldur.
Lára átti Opel Corsa og sama sagan þar. Í bílablöðum er frágangi hælt nú orðið og merkið er á góðri siglingu.
Ómar Ragnarsson, 27.1.2016 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.