Örlagastund Vilhjálms Vilhjálmssonar.

Fréttin um fyrirhugaða ferð til mars árið 2025 leiðir hugann að einu helsta áhugamáli Vilhjálms heitins Vilhjálmssonar og örlagaríkri ferð, sem hann fór með mér vestur á Ísafjörðfyrir 48 árum.

Við vorum að skemmta með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á héraðsmótum Sjálfstæðisflokksins víða um landið og ég var á lítilli fjögurra sæta einshreyfils flugvél af gerðinni Piper Tri-Pacer.

Af einhverjum ástæðum slógust Villi og Svanhildur Jakobsdóttir með mér í för frá Hrísnesi á Barðaströnd til Ísafjarðar.

Á þeirri leið gerðist það, að vegna órökréttrar uppsetningar á stillingu fyrir rennsli frá tveimur bensíngeymum vélarinnar, drapst á henni yfir Arnarfirði.

Ég breytti stillingunn á bensínrennslinu, vélin fór í gang, en á leiðinni til Ísafjarðar bjó ég þau Villa og Svanhildi undir þann möguleika að nauðlenda einhvers staðar á leiðinni, sem reyndist síðan alveg ástæðulaust.

Svanhildur varð ofsahrædd en Villi var hins vegar heillaður af viðfangsefninu, svo mjög að daginn eftir fékk hann að fara með mér sérstaka stutta ferð frá Ísafirði yfir Djúpið og til baka til þess að kynnast nánar töfrum flugsins.

Flugvélin var létt og kraftmikil og vegna margra stunda okkar Villa í spjalli um heima og geima, þar á meðal geimferðir, var ákveðið að búa til þyngdarleysi í fluginu.

Vélinni var fyrst flogið upp á hámarkshraða í dýfu og síðan klifrið á fullu afli nær lóðrétt upp þangað til hún "hékk" nær kyrrstæð í þyngdarleysi í á að giska 5-10 sekúndur.

Lítil reglustika sem hafði í fluginu daginn áður runnið fram eftir gluggakistunni niður í falsið við framrúðuna, tók flugið í þyngdarleysinu og sveif í því beint fyrir framan Villa.

Hann tók andköf af hrifningu og á leiðinni til baka leit hann á mig leiftrandi augum og stundi: "Þetta verð ég að kanna til fulls og fara alla leið."

Hann stóð við það. Eftir eitt ár í flugnámi var hann farinn að fljúga Fokker og leiðin lá í framhaldinu til Luxair og út um allan heim.

Í Luxemborg beið hans síðan nokkrum árum síðar ótímabær dauðdagi skammt frá flugvellinum.

Ég tók fráfall Villa mjög nærri mér, svo nánir vinir sem við vorum bæði í gegnum tónlistina, flugið og áhuga á öllum sviðum tækni og vísinda, ekki síst á óraviddum geimsins.

Mér fannst einhvern veginn ég bera vissa ábyrgð á því að hann fór inn á braut flugsins sem leiddi hann til örlaga sinna.

Frá stundinni okkar yfir Ísafjarðardjúpi var ég alltaf með ákveðinn beyg varðandi feril hans í fluginu.

Ég var veðurtepptur á flugvél í Vesturvíkinni í Aðalvík daginn sem útför hans fór fram.

Hvass vindstrengur stóð þvert niður yfir bogadregna fjöruna, sem ég hafði lent í með Sigmund Arthursson, kvikmyndatökumann.

Ég þráði mjög að komast suður og kveðja vin minn, var búinn að aka flugvélinni í "brautarstööu" og beið eftir heppilegu færi.

Við brautarendann var hinn þverbratti Hvarfnúpur, sem þurfti að beygja frá strax eftir flugtak.

Á þessu andartaki fannst mér ég finna fyrir ákafri áskorun Villa um að koma suður, eins og hann svifi fyrir framan mig og segði: Komdu! Komdu!

Það lægði aðeins og nú var að hrökkva eða stökkva. Ég gaf vélinni afl og hún rann áfram smáspöl, en andartaki síðar snerist mér hugur, ég veit ekki af hverju, og ég ákvað að hemla, stöðva vélina og hætta við flugtakið.

Það var eins gott því að skömmu síðar kom mikill vindsveipur niður yfir fjöruna sem hefði eyðilagt flugtakið fyrir mér, hefði ég haldið áfram.

Þar með varð ekki af því að ég kæmist til að kveðja Villa en í framhaldi af þessari sterku upplifun varð til þessi texti, tileinkaður þessu augnabliki, við lagið "Tree coins in a fountain."

 

FLJÚGUM ÞÁ!

 

Óræð hugann hrífur

himintungla fögur sýn.

Andinn eilífi svífur

og hann kallar mig til þín.

 

Í honum og yfir

öllu sveimar vitund þín.

Frjáls þar líður og lifir

og hún kallar mig til sín.

 

Kaldlynd örlög ráða því

hvenær finnumst við á ný, -

föðmumst á ný.

 

Er að því loks dregur

óravíddir kanna má.

Andans vængjaði vegur

vini ber um hvolfin blá.

 

Fljúgum þá! Fljúgum þá! Fljúgum þá!

Fljúgum þá! Fljúgum þá! Fljúgum þá!

 


mbl.is Stefnir á Mars innan tíu ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

"In my life I've loved them all."
The Beatles - In My Life.

(forlögunum fresta má
en fyrir þau ekki komast=
þetta bjó þegar með honum og
fundur ykkar breytti engu þar um)

Húsari. (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband