3.2.2016 | 00:31
Efndir fylgja enn ekki orðum.
Í hitteðfyrrahaust var haldin ágætis ráðstefna á vegum Verkfræðingafélags Íslands um komandi útskipti á orkugjöfum hvað varðaði rafbíla.
Hástemmdar yfirlýsingar heyrðust hjá forsætisráðherra og forseta Íslands og gefin loforð um átak í þessum efnum, til dæmis varðandi það að setja upp hraðhleðslustöðvar á hringveginum sem gerði það kleyft að aka hann allan án þess að stöðvast vegna orkuþurrðar.
Kaupendur rafbíla eru óánægðir með það að komast ekki einu sinni á milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Og þar að auki verður ekki hraðhleðslustöð í Varmahlíð, heldur á Sauðárkróki, svo að rafbílum verður að aka um Þverárfjall 25 kílómetrum lengri leið en öðrum bílum.
Milli Sauðárkróks og Borgarness eru 217 kílómetrar sem er of langt fyrir alla rafbíla nema Tesla, sem er langdýrasti rafbíllinn og raunar svo mikill lúxusbíll, að forsetaembættið ætti að nota slíkan á Suðvesturlandi.
Hvers vegna í ósköpunum er ekki komin hraðhleðslustöð í Hrútafirði á þessum kafla, sem á vantar til að brúa bilið?
Á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur eru ellefu bensínstöðvar.
Og síðan heyrir maður íslenska ráðamenn halda fast við það að við Íslendingar verðum olíuþjóð og leggjum okkar skerf til meiri olíuvinnslu og þar með meiri olíunotkunar.
Á meðfylgjandi línuritum sést hitinn á jörðinni frá 1900 á rauðri línu og hitinn á Íslandi á sama tíma.
Bláu hitatölurnar sýna hitann á Íslandi en rauðu setja núll við aldamótin 1900 og síðan þá hefur sá hiti hækkað um meira en heila gráðu.
Þessi línurit segja allt sem segja þarf, til dæmis það, að hitinn á Íslandi, sem er innan við 0,01% af flatarmáli þurrlendis jarðar, sveiflast miklu meira en meðalhitinn á jörðinni.
Af tæknilegum ástæðum fóru línuritin tvisvar inn á síðuna hjá mér, en Emil Hannes Valgeirsson birti þau nýlega á bloggsíðu sinni, skýringarnar við þau eru hans og ég bendi í bloggpistil hans ef menn vilja kynna sér hann nánar.
Fráleitt að halda olíuvinnslu áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rafbílavæðing er léttvægt dægurmál sem skilar engum fjarhagslegum ávinnngi í ríkissjóð. Hver rafbíll kostar ríkissjóð milljónir í töpuðum gjöldum og raunverulegur áhugi á því að auka það tap er skiljanlega takmarkaður. Hátíðarræður á ráðstefnu þar sem örfáir sérvitringar koma saman til að sannfæra hvorn annan og styrkja í trúnni breytir engu um það.
Hábeinn (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 02:30
Rafbílavæðing er það sem mun koma í framtíðinni. Hins vegar byggist þetta á því að bílar verði viðráðanlegir í verði sem og að hleðslustöðvar verði algengari.
Það er þjóðhagslegur ávinningur af því að rafvæða bílaflotann þar sem erlendur gjaldeyrir sparast. Þegar rafbílar lækka í innflutningi þá verður komin forsenda að setja almenna skatta á þá eins og með gjaldeyriseyðandi jarðeldsneytis bíla. En það er ekkert að fara að gerast á þessu ári og ekki endilega því næsta. Við erum að tala um næstu 5-15 ár.
Sumarliði Einar Daðason, 3.2.2016 kl. 04:00
Skemmtilegt að heyra að forseti Íslands og forsætisráðherran séu í hópi "örfárra sérvitringa."
Ómar Ragnarsson, 3.2.2016 kl. 08:46
Innan um sérvitringa haga forseti Íslands og forsætisráðherra seglum eftir vindi og tala eins og sérvitringar, enda pólitíkusar fram í fingurgóma. Efndirnar sýna svo hversu mikil alvara var í þeirra skrúðmælgi og trú á málstað sérvitringanna.
Hábeinn (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 09:01
100 ár eru stuttur tími í veðurfarssögunni.
Davíð12 (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 11:27
Bílar úr koltrefjum, knúnir vetni eða endurhlaðanlegum álrafhlöðum er kannski framtíðin, en það er enn býsna langt í hana.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 15:08
Snilldartilþrif hjá ÓRa:
"Þessi línurit segja allt sem segja þarf, til dæmis það, að hitinn á Íslandi, sem er innan við 0,01% af flatarmáli þurrlendis jarðar, sveiflast miklu meira en meðalhitinn á jörðinni."(sic)
Þetta er hlægileg staðhæfing. Hið rétta er auðvitað að blái ferillinn sýnir rétta gagnaröð Veðurstofu Íslands yfir meðalhita á Íslandi en rauði ferillinn sýnir GISSkið hjá NASA/NOAA sem eru búin að afreka að "leiðrétta" hitagögn frá öndverðri síðustu öld til að búa til "hnatthlýnun".
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.2.2016 kl. 17:12
Rafbílar eru stórsniðugir innabæjar, snöggir og ódýrir í rekstri.
Ef menn hinsvegar finna hjá sér þörf til að vera sífellt að þvælast milli Akureyrar og RKV, eða þaðan af lengri vegalengdir, ættu þeir að fá sér góðan fólksbíl af stærri gerðinni, eins og Mazda 6 eða Honda Accord - mér skilst nokkrir svoleiðis séu enn til á lager. Hætt að framleiða þá fyrir evrópumarkað skilst mér, hið versta mál.
Á svona langkeyrzu er jafnvel fýsilegt að aka díselbíl. En ég mæli samt ekki með því.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.2.2016 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.