Allur gangur á viðbrögðum við litlu fylgi krata.

Alþýðuflokkurinn er einn þeirra flokka sem mynduðu Samfylkinguna og hafði alla sína tíð gegnt hlutverki jafnaðarmannaflokks Íslands, sem er nafn Samfylkingarinnar nú.

Nokkrum sinnum í sögu Alþýðuflokksins var fylgi hans lítið, jafnvel innan við 10 prósent.

Þegar Hannibal Valdimarsson klauf sig út úr Alþýðubandalaginu fyrir kosningarnar 1971 fór fylgi krata niður fyrir 10 prósent og rétt lafði í 10,5% í kosningunum.

Svipað gerðist í skoðanakönnunum eftir kosningarnar 1984 og þá bauð Jón Baldvin Hannibalsson sig fram gegn sitjandi formanni Kjartani Jóhannssyni með þeirri vestfirsku skýringu, að ef "karlinn í brúnni" fiskaði ekki, væri skipt um skipstjóra.

Og Jón Baldvin var kosinn.

Sjálfur stóð hann frammi fyrir því 1994 að fylgið fór langt niður fyrir 10 prósentin í skoðanakönnunum mánuðum saman eftir að Jóhanna Sigurðardóttir bauð sig fram gegn "karlínum í brúnni" en náði ekki kjöri og mátti Jón Baldvin horfa á styrkleikatölu veiks bjórs á tímabili.

Jóhanna klauf flokkinn með stofnun Þjóðvaka, en "karlinn í brúnni" hjá Alþýðuflokknum vék ekki og það þótti kraftaverk að flokkurinn fékk rúm 10% í kosningunum 1995 þannig að þáverandi stjórn hélt eins manns meirihluta á þingi.

Davíð fannst það tæpur þingmeirihluti og myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum.

Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands, hefur í raun klofnað með stofnun Bjartrar framtíðar, sem innbyrti Besta flokkinn, en hefur nú misst meirhluta fylgis síns til Pírata.

Klofningur í miðju- og vinstra fylgi hefur því enn einu sinni herjað á frjálslynda sósíaldemókrata á Íslandi.

Ofangreint yfirlit yfir brokkgenga sögu krata sýnir mismunandi viðbrögð við slíkum tíðindum.

Ekki var skipt um "karlinn í brúnni" fyrir kosningarnar 1971, en hins vegar skipt um skipstjóra þremur árum fyrir kosningarnar 1987 og honum haldið í brúnni þótt Vilmundur Gylfason stofnaði Bandalag jafnaðarmanna.

Ekki var skipt um karlinn í brúnni 1994-1995 við klofninginn þá, en Jón Baldvin hætti 1996.

Í sveiflum í fylgi krata fyrir 1960 var skipt um skipstjóra tímabundið á kjörtímabilinu 1949-53, þegar Hannibal Valdimarsson varð formaður en síðan fellur úr formannssæti árið 1954.

Í framhaldi af því gekk hann úr flokknum 1956 og stofnaði Alþýðubandalagið með sósíalistum.

Í vor verða 100 ár frá stofnun Alþýðuflokksins og saga hans er mestöll lituð af fylgissveiflum og klofningi á vinstri vængnum út og suður.

Nokkrum sinnum hafa menn farið á taugum og skipt um stjórnanda en oftast ekki.

Það er dæmi um viðkvæmni í Samfylkingunni að vegna þess að hún er mynduð við samruna fjögurra flokka á vinstri væng, þykir ráðlegast að á vegum flokksins verði ekkert sérstakt gert til að minnast aldarafmælis Alþýðuflokksins.

Skárra sé að láta það vera og þar með líka að láta það vera að minnast 60 ára afmælis stofnunar Alþýðubandalagsins, enda hafi 20 ára afmælis stofnunar Þjóðvaka ekki verið minnst árið 2014 og 30 ára afmælis Kvennalistans ekki verið minnst þar áður.

Það má deila um það af hverju það sé ekki sjálfsagt mál innan Samfylkingarinnar að kannast við uppruna sinn og efna til gefandi og hressandi umræðu um söguna á bakvið þau öfl sem sameinuðust um síðustu aldamót og að reyna að greina þá strauma, sem nú leika um íslenska stjórnmálaflokka.

Einu sinni, þegar Jón Baldvin og Ólafur Ragnar voru formenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, fóru þeir í fundaferð um landið undir heitinu "Á rauðu ljósi" og veltu mörgu upp, þótt árangurinn kæmi ekki í ljós fyrr en áratug seinna.

 


mbl.is Landsfundur ræddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

Var Kjartan formaður ekki Jóhannsson? Eða er hér að koma fram nýr sannleikur, áður hulinn?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 5.2.2016 kl. 08:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nei, Þorvaldur. Sá þessa villu ekki strax, - ein af þeim sem maður sér ekki, af því að maður er blankur fyrir því að svona geti gerst.

Skrifaði pistilinn í flýti áður en ég fór á Útvarp Sögu og rak ekki augun í það fyrr en ég kom heim og leiðrétti það þá strax.

Ég var skólafélagi Kjartans í M.R., nánast bekkjarfélagi, af því að ég var í svo miklu samfélagi með bekknum á undan mínum bekk.

Þetta er svona eins og að ég skrifaði að Eiður Svanberg Guðnason væri Gunnarsson.  

Ómar Ragnarsson, 5.2.2016 kl. 17:59

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Píratar eru einfaldlega jafnaðarmannaflokkur, eins og vel sést á stefnu flokksins, og hafa nú 35,3% fylgi, samkvæmt skoðanakönnun Gallup.

Frá síðustu alþingiskosningum, 2013, hafa Píratar fengið fylgi frá Bjartri framtíð og Samfylkingunni en fyrst og fremst þeim sem þá kusu Framsóknarflokkinn í stað Samfylkingarinnar.

Fylgi Framsóknarflokksins fyrir þremur árum, í febrúar 2013, var samkvæmt skoðanakönnun Gallup 14,2% og er nú mjög svipað, 12%.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fengu samtals 38,5% í alþingiskosningunum 2009 og eru nú með nánast sama fylgi, 36,4%.

Þá var Framsókn með 14,8% fylgi en nú 12% og Sjálfstæðisflokkurinn með 23,7%, en nú 24,4%, og fékk 26,7% í síðustu alþingiskosningum, 2013.

Vinstri grænir eru nú með sama fylgi og í síðustu alþingiskosningum, þannig að Píratar hafa ekki fengið fylgi frá þeim.

Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur misst lítið fylgi til Pírata.

Samfylkingin, Vinstri grænir og Borgarahreyfingin fengu samtals 58,7% í alþingiskosningunum 2009 og Samfylkingin, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar eru nú með sama fylgi, 58,9%.

Og jafnaðarmannaflokkarnir Píratar, Samfylkingin og Björt framtíð eru nú með 48,1% fylgi.

Fylgi Bjartrar framtíðar er hins vegar mjög lítið, 3,6%, og eins og staðan er núna er því líklegast að Píratar, Samfylkingin og Vinstri grænir, nú með samtals 55,3% fylgi, myndi næstu ríkisstjórn.

Í raun breytir því engu fyrir jafnaðarmenn hvort Samfylkingin hverfur af sjónarsviðinu, þar sem fylgi flokksins nú færi til Pírata, sem einnig er jafnaðarmannaflokkur.

Ekki ætti því að koma á óvart að Jón Baldvin Hannibalsson og Össur Skarphéðinsson, fyrrum formenn Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar, séu hrifnir af Pírötum.

Þorsteinn Briem, 5.2.2016 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband