6.2.2016 | 02:29
Með mestu þjóðflutningum.
Á fimmta áratugnum bjuggu 56 þúsund manns fyrir vestan Kringlumýrarbraut. Aðeins 20 árum síðar hafði þeim fækkað um 20 þúsund manns og var þetta mesti fólksflótti landsins.
Nú búa 130 þúsund manns austan Elliðaáa og sunnan við Fossvog og til eru þeir sem halda því fram að þessi þróun byggðar sé eingöngu Reykjavíkurflugvelli að kenna, svona rétt eins og það hefði verið hægt að troða meira en 100 þúsund manns á flugvallarsvæðið.
Þegar Hekluumboðið fer í Mjódd verður það síðasti Móhíkaninn hvað bílaumborð varðar, en þau voru lungann af síðustu öld nær öll á svæðinu frá Arnarhóli (Austin), Hlemmi (Willys, Studebaker og Sveinn Egilsson), austur til vestasta hluta Suðurlandsbrautar (B og L ).
Hekla var fyrst við Hverfisgötu en síðar á núverandi stað.
Farartæki og fólk sogast að stærstu krossgötum, það er lögmál.
Stærstu krossgötur landsins eru á svæðinu Elliðavogur-Mjódd.
Þess vegna verða Suzuki og Peugeot ein eftir í Skeifunni og við Sundahöfn, en öll hin umboðin og bílasölurnar komnar austur fyrir Elliðaár og suður fyrir Fossvog.
Ártúnshöfði, Mjóddin og Smárinn eru vaxtarbroddar verslunar og þjónustu og hún er að miklu leyti á leiðinni þangað.
Gamla miðborgin er hins vegar orðin að ferðamannasvæði en útlendingar fara ekki til Íslands til að kaupa bíla.
Hekla flytji í Mjódd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er byggðin mun þéttari en austan Elliðaáa en þar eru samt stór opin svæði, Klambratún (Miklatún), Öskjuhlíð, Nauthólsvík, Ægisíða og Hljómskálagarðurinn.
Þar eru einnig einkagarðar við langflest íbúðarhús og í mörgum tilfellum bæði framgarðar og bakgarðar.
Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.
Og þá áttu þar lögheimili 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.
Þar að auki starfa flestir Reykvíkingar vestan Kringlumýrarbrautar.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:39
Í Reykjavík starfa langflestir vestan Kringlumýrarbrautar og á því svæði eru stærstu vinnustaðirnir í Reykjavík.
Og langflest hótel og gistiheimili í Reykjavík eru vestan Kringlumýrarbrautar.
Í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík eru samtals um 20 þúsund nemendur og kennarar og á Landspítalanum starfa um fimm þúsund manns.
Vestan Kringlumýrarbrautar er enn verið að þétta byggðina og auka atvinnustarfsemi, til dæmis með því að reisa stór hótel og hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar.
Hversu mikil atvinnustarfsemi er til að mynda í Háaleitis- og Bústaðahverfinu, Laugardalssvæðinu, Grafarvogi, Grafarholti, Árbænum og Breiðholtinu?!
Reykvíkingar eru 58% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Og ef einhverjir geta talið upp meiri atvinnustarfsemi í Reykjavík en vestan Kringlumýrarbrautar, einhverju öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, þætti mér gaman að sjá það.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:41
Reykvíkingar starfa flestir vestan Kringlumýrarbrautar og þar er nú verið að þétta byggðina.
Kannanir sýna að helmingur núverandi starfsmanna Landspítalans býr í innan við 14 mínútna hjólafjarlægð í vinnuna og fjórðungur starfsmanna býr í innan við 14 mínútna göngufjarlægð.
Þar er langtímastaðsetningin farin að móta rétt búsetumynstur, þar sem fólk býr nálægt vinnustað en keyrir ekki borgarenda á milli.
Deiliskipulag fyrir Landspítala við Hringbraut samþykkt
Og þeir sem starfa bæði og búa vestan Kringlumýrarbrautar, til að mynda á Vatnsmýrarsvæðinu, geta gengið eða hjólað í vinnuna, í stað þess að fara þangað akandi frá austurhluta Reykjavíkur, sem þýðir mun meiri innflutning á bensíni, meira slit á götum og bílum, meiri mengun og mun fleiri árekstra í umferðinni.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:42
"Hlutfallslega flestir svarendur [í Reykjavík] vilja helst búa í vesturhluta borgarinnar, miðbæ og nærliggjandi hverfum, borið saman við núverandi búsetu.
Um helmingur svarenda býst við að flytja og skipta um húsnæði innan fimm ára.
Um 87% reikna með að flytja innan borgarinnar og þar af um helmingur innan sama hverfis.
Af nýbyggingasvæðum er miðbærinn vinsælastur og næst kemur Vatnsmýri."
Könnun á húsnæðis- og búsetuóskum Reykvíkinga árið 2013
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:45
Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, stærsta vinnustað landsins, starfa um 4.700 manns og mikilvægt að sem flestir þeirra búi nálægt sjúkrahúsinu, meðal annars til að minnka bensínkaup, slit á götum og bílum.
Nú býr um helmingur þessara 4.700 starfsmanna í minna en fjórtán mínútna hjólafjarlægð frá sjúkrahúsinu.
Og ákveðið hefur verið að Landspítali-háskólasjúkrahús verði áfram við Hringbraut.
Ætlunin er að byggja allt að 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu og mjög stórir vinnustaðir eru skammt frá því svæði, til að mynda Landspítalinn, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands, og líklegt að margir sem þar starfa kaupi íbúðir á Hlíðarendasvæðinu, í stað þess að búa langt frá þessum vinnustöðum.
Það sparar þeim mikil bensínkaup, löng ferðalög á milli heimilis og vinnustaðar, miklar og margar umferðartafir og jafnvel kaup á bíl, þar sem einn bíll getur nægt á heimili í stað tveggja.
Þar af leiðandi getur verið hagstæðara að búa nálægt vinnustað, enda þótt íbúðir séu dýrari þar en langt frá vinnustaðnum.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:47
Gatnamót Hringbrautar, Snorrabrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar skammt frá Landspítalanum eru ein umferðarmestu gatnamót landsins með um 100 þúsund bíla á sólarhring, sem er um helmingur fólksbílaflotans hér á Íslandi, en hann var 206 þúsund bílar árið 2011.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:50
Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík:
Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu 1. janúar 2014:
Reykjavík 121.230 (58,1%),
Kópavogur 32.308 (15,5%),
Hafnarfjörður 27.357 (13,1%),
Garðabær 14.180 (6,8%),
Mosfellsbær 9.075 (4,4%),
Seltjarnarnes 4.381 (2,1%).
Samtals 208.531.
Sunnan Reykjavíkur og Seltjarnarness (í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði) 73.845 íbúar.
Í Laugardal, Árbæ, Breiðholti, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Mosfellsbæ og á Kjalarnesi 74.970 íbúar.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi 14.519 íbúar.
Á Seltjarnarnesi, í Vesturbæ, Miðbæ, Hlíðum, Holtum, Túnum og Teigum 45.064 íbúar, 30.545 fleiri en í Háaleitis- og Bústaðahverfi.
Og póstnúmer 105 Reykjavík er að langmestu leyti í Hlíðum, Holtum og Túnum vestan Kringlumýrarbrautar.
Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er því vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, nálægt Klambratúni (Miklatúni) og því skammt frá Landspítalanum.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:52
Umferðarmiðstöðin (BSÍ) við Hringbraut er aðalumferðarmiðstöð höfuðborgarsvæðisins og langflest hótel og gistiheimili, um tvö hundruð, eru vestan Kringlumýrarbrautar.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 02:56
Dagur B. Eggertsson í gær, föstudag:
"Við samþykktum í borgarráði í gær að fara í viðræður við bílaumboðið Heklu um mögulegan flutning fyrirtækisins af Laugavegi og upp í Mjódd.
Það gæti orðið mjög spennandi verkefni sem myndi losa um mjög stórt svæði á Heklulóðinni undir íbúðir og atvinnustarfsemi og styrkt Mjóddina um leið.
Af öðrum uppbyggingarsvæðum má nefna að Barónsreitir hafa nú verið samþykktir í nýju deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir yfir 200 nýjum íbúðum á svæðinu og í Vesturbugt munu rísa 170 nýjar íbúðir samkvæmt skipulagi sem staðfest var af borgarstjórn í vikunni."
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 03:23
Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er nú verið að byggja eða nýbúið að byggja um 1.250 íbúðir:
Um 200 íbúðir Búseta við Einholt og Þverholt,
um 100 stúdentaíbúðir í Brautarholti 7,
um 140 íbúðir í Stakkholti,
um 180 íbúðir í Mánatúni,
um 80 íbúðir á Lindargötu 39 og Vatnsstíg 20-22,
um 20 íbúðir á Lindargötu 28-32,
um 90 íbúðir á Höfðatorgi,
um 140 íbúðir á Lýsisreit við Grandaveg,
um 20 íbúðir í Skipholti 11-13,
um 70 íbúðir á Mýrargötu 26,
um 20 íbúðir á Hljómalindarreit milli Laugavegar og Hverfisgötu,
um 70 íbúðir á Frakkastígsreit milli Laugavegar og Hverfisgötu,
um 40 íbúðir á Tryggvagötu 13,
um 80 íbúðir austan Tollhússins.
Einnig verða til að mynda um 200 íbúðir á Barónsreitum, um 60 á Hverfisgötu 96 neðan við Laugaveg 77, um 20 á Frakkastíg 1, um 170 við Slippinn í Vesturbugt, um 170 í Austurhöfn við Hörpu og um 100 við Guðrúnartún.
Þar að auki verða til dæmis um 350 stúdenta- og starfsmannaíbúðir við Háskólann í Reykjavík, um 100 íbúðir við Stakkahlíð fyrir námsmenn og aldraða og um 80 íbúðir við Keilugranda í samstarfi KR og Búseta.
Og einnig er ætlunin að byggja allt að 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu.
Alls verða því byggðar á næstunni að minnsta kosti 2.100 íbúðir í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar í viðbót við þær 1.250 íbúðir sem þar er verið að byggja eða nýbúið að byggja.
Samtals 3.350 íbúðir vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík.
Og einnig er nýbúið að byggja og verið að byggja íbúðir á Seltjarnarnesi.
Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 07:15
Fluttu þeir ekki bara yfir í annan heim? Hinumegin?
Jósef Smári Ásmundsson, 6.2.2016 kl. 08:47
Meira Steini. Það bíða allir spenntir eftir næstu athugasemd.
immalimm (IP-tala skráð) 6.2.2016 kl. 12:43
Tíu athugasemdir í röð, byggðar á níðþröngri einhliða sýn á sveitarfélagið Reykjavík.
Reykvíkingar saka oft íbúa sveitarfélaga úti á landi um þröngsýni en komast stundum sjálfir varla austur fyrir Kringlumýrarbraut, hvað þá Elliðaár, í sýn sinni á bygggðamál.
Ómar Ragnarsson, 6.2.2016 kl. 13:21
Það þarf ekki annað en líta snöggt á kort af höfuðborgarsvæðinu til að sjá að það er fráleitt að þungamiðja byggðar á svæðinu sé við Klambratún. Þar fyrir vestan búa aðeins rúmlega 35 þúsund manns af 208 þúsund manns á svæðinu.
Miðjan er rétt fyrir vestan Mjódd. Steini virðist aðeins draga línu á milli Kjalarness og Hafnarfjarðar og setja miðjuna á þá línu, tekur aðeins annan ásinn af tveimur þegar fundin er miðja á svæði.
Ómar Ragnarsson, 6.2.2016 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.