Málamiðlun varðandi trúarjátninguna?

Í frétt mbl.is segir að alls 3.464 manns hafi týnt bana á vegum Frakklands síðasta ár.

Af því að orðalagið að týna lífi táknar að deyja, hlýtur orðalagið að týna bana að þýða endurholdgun eða upprisu.

Og þá kæmi kannski til greina að hægt verði að leysa gamla deilu um það hvort eigi að segja "upprisu holdsins" eða "upprisu mannsins" í trúarjátningunni með því að segja: "Ég trúi á ....fyrirgefningu syndanna, týndan bana og eilíft líf."

Nema að þetta sé prentvilla í mbl-fréttinni og eigi að vera: "Tíndu alls 3.464 manns banana á vegum landsins. Eða "týndu alls 3.464 manns banönum á vegum landsins.  

Sem reyndar er líka vafasamt orðalag því að það orðið banana gæti verið þolfall fleirtölu af orðinu bani, þ.e. þessir 3.464 tíndu alla þessa bana upp af vegunum eða týndu öllum þessum banönum á vegunum.

Síðan gæti enn ein útskýring bæst við en þó afar ósennileg og langsótt, en kannski í lagi með það af því að vegirnir eru svo langir, sem sé að 3.464 hafi fæðst á vegunum. Þar með er komið að því álitamáli hvenær hvert líf kviknar og skýringin verður sennilegri ef miðað er við getnað: 3.464 komu undir á vegum landsins.

 

 


mbl.is Banaslysum fjölgaði 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það eru greinilega miklu fleiri en ég sem þurfa virkilega á réttritunarpúkans hjálp að halda.

En aðalatriðið er/verður nú vonandi raunverulegt innihaldið og ó-spillingarflokks-pólitískt sannleiksgildi fréttanna?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.2.2016 kl. 23:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Moggans ætíð mikil trú,
margir treysta á hana,
í henni ekki heil er brú,
hefur nú týnt bana.

Þorsteinn Briem, 6.2.2016 kl. 00:24

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Steini stuð með sannleikann,

Leiðréttir af visku,

villurnar hann vitur fann,

og leiðrétti af dirfsku.

Við erum öll meir og minna kolrugluð. Það sannast alltaf betur og betur hér á púka"leiðréttum" bloggsíðum alls kyns nafna/nafnleysingja.

M.b.kv

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.2.2016 kl. 01:26

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góður laufléttur humor, Steini.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2016 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband