12.2.2016 | 23:05
Var rændur inni í bankanum.
Á myndum af Landsbankanum er oft sýnt anddyrið.
Myndin á tengdri frétt á mbl.is er einmitt af tveimur mönnum sem telja að þarna fyrir innan sé þörf á umbótum.
Mikið hefði verið gott að hafa þá þarna í haust, þegar ég staddur inni í þessu anddyri á fjórða tímanum á föstudegi, hafði lagt rafreiðhjólinu "Sörla" við tröppurnar fyrir utan og stóð inni í dyrunum ásamt slangri af fólki.
Öryggisvörður var þar líka.
Ég var með miða í langa biðröð hjá gjaldkera en ákvað að standa þarna til að fylgjast með hjólinu, þótt það væri læst.
Hafði verið með þungan bakpoka en setti hann til hliðar til að hvíla bakið og hafði augun með honum líka.
Þegar kæmi að mér hjá gjaldkera ætlaði ég að biðja öryggisvörðinn að hafa augu með hjólinu og bakpokanum, rétt á meðan ég stykki inn þegar komið væri að mér hjá gjaldkeranum.
Gekk nokkur skref innar til að sjá númerið og kom strax út aftur.
Enn var nokkuð langt í mig, en nokkrum mínútum síðar gekk ég aftur þessi fáu skref inn og síðan strax út aftur.
En þá brá mér í brún. Bakpokinn var horfinn. Rétt á meðan ég hafði augun af honum hafði kona, sem hafði staðið í anddyrinu hrifsað hann og gengið með hann fumlaus og sallaróleg burtu að öllum ásjáandi nema mér.
Aðspurðir sögðu þeir sem ég talaði við, að þeim hefði ekki dottið annað í hug en að þessi kona ætti pokann.
Ég tók niður nöfn vitna, fór beint til lögreglu og tilkynnti þjófnaðinn.
Öryggismyndavél hafði verið í gangi og lögreglan fékk þar skýra andlitsmynd af þjófnum.
En nú hefur hún afgreitt málið sem óupplýstan þjófnað.
Magnað, ég í nokkurra metra fjarlægð, nokkur vitni, öryggisvörður, öryggismyndavél, skýr mynd af þjófnum, en allt kom fyrir ekki.
Tryggingafélagið kvað tryggingu mína ekki gilda nema bakpokinn hefði verið rifinn af mér sjálfum með valdi.
Ekki væri nóg að hafa vitni og myndir af þjófnaðinum.
Í pokanum var óvenju mikið verðmæti, nokkur hundruð þúsund króna virði, einkatölvan með dýrmætum gögnum, myndavélar, lítil flugvélatalstöð og annað það helsta, sem ég þyrfti að hafa meðferðis ef það kæmi Heklugos.
En þarna átti það svo sannarlega við, að verðmætum í bönkunum er rænt innanfrá.
Áhlaup á Landsbankann neytendamál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
ekki a lögreglan hrós skilið firrir aumingjaskapinn að ná ekki pokanum þinum
Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 12.2.2016 kl. 23:46
Bankanum þínum er sama um þig.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.2.2016 kl. 00:04
Þú gast nú ekki ætlast til að aðrir hefðu auga með miklum verðmætum í bakpoka í þinni eigu á meðan þú biðir eftir og fengir afgreiðslu í bankanum, Ómar Ragnarsson.
Áttir að sjálfsögðu að hafa bakpokann með þér allan tímann og gast látið hann liggja við fætur þér, hvort sem þú beiðst eftir afgreiðslu í stól eða standandi einhvers staðar inni í bankanum.
Ætti nú að vera kominn tími til að þú berir ábyrgð á sjálfum þér og þínum eignum, í stað þess að láta aðra bera ábyrgð á þeim.
Þú ert mikill hrakfallabálkur og það er sjálfum þér að kenna en ekki öðrum.
Þorsteinn Briem, 13.2.2016 kl. 01:25
Í gær, föstudag:
"Meðalkaupverð 100 fermetra íbúðar í fjölbýli í 101 Reykjavík á fjórða ársfjórðungi 2015 var um 414 þúsund krónur á fermetra."
Lítil þriggja herbergja sextíu fermetra íbúð í póstnúmeri 101 Reykjavík kostar því nú að meðaltali um 25 milljónir króna.
Og til að geta keypt þannig íbúð þarf par að hafa lagt fyrir 20% af kaupverðinu, 5 milljónir króna, eða 2,5 milljónir á mann.
Sá sem leggur fyrir um 100 þúsund krónur á mánuði í tvö ár hefur safnað þeirri upphæð.
Það eru nú öll ósköpin sem það kostar núna fyrir ungt par að geta keypt íbúð í póstnúmerinu 101 Reykjavík.
Verð á íbúðum í fjölbýli hækkar nú mest í Breiðholtinu
Þorsteinn Briem, 13.2.2016 kl. 02:17
Að skilja pokann eftir er mér alveg óskiljanlegt, eins og Steini bentir á.
Haraldur (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 06:29
Það er eiginlega hægt að skrifa þetta á hann Sörla. Kannski er líka varhugavert að gefa farartækjum nafn.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 10:27
Ég er alveg sammála þér, Steini. Á föstudagseftirmiðdegi, rétt áður en helgin hefst, er besti tíminn til þjófnaða.
Lögreglan að loka aðalstöðvum sínum og því ekki hægt að hefja rannsókn málsins fyrr en eftir helgi, því að sérstaka heimild bankans þarf til að leyfa lögreglunni að skoða myndir í henni og það gerist aðeins á skrifstofutíma beggja aðila.
Þannig, að ég hefði átt að grípa til auka varúðarráðstafana og líma bakpokann við mig, jafnvel þótt ég sleppti augunum af honum aðeins tvívegis í nokkrar sekúndur til að gjóa þeim á skiltið sem sýndi stöðu biðraðarinnar.
Ég hef reyndar verið með þennan bakpoka hvar sem ég fer í mörg, mörg ár og haft hann á mér og hjá mér, en í þetta skipti vanmat ég bíræfni þjófa örfá augnablik.
Hélt að ég væri á pottþéttum stað með öryggisvörð, sem ég ætlaði að biðja um að fylgjast með hjólinu á meðan ég væri frá gjaldkera, því að við þetta anddryri hefur þessi milljarða gróða banki nákvæmlega ekkert gert til að hægt sé að læsa hjóli föstu við eitt eða neitt fyrir utan og því var hjólið í mestri hættu á að því yrði stolið.
Nú hef ég lært af þessu og þessi pistill er ritaður til að dreifa reynslunni til fleiri.
Ómar Ragnarsson, 13.2.2016 kl. 11:17
Ætti borgin ekki að sjá um þetta? Það er ekki nóg að þrengja götur og fækka bílastæðum.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.2.2016 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.