Gersamlega úreltur bíll en samt góður safngripur?

Saga DeLorean bílsins og mannsins með þessu nafni, sem plataði sjálfan sig og alla til að framleiða hann hér um árið með slæmum fjárhagslegum afleiðingum fyrir alla, gerir það að verkum ásamt notkun hans í Aftur til framtíðar, að 300 ný eintök af honum verða líklega ágætis safngripir.

DeLorean, Ford Edsel og Aston Martin Lagonda eru meðal þekktustu dæma að endemum um misheppnaða bílaframleiðslu, og það gerir þá að safngripum.

John DeLorean var afbragðs bílahönnuður og náði langt hjá GM. Meðal þekktustu bílanna sem hann hannaði var Pontiac GTO, löngu klassískur "muscle car".

Saga DeLorean var líka klassísk, um mikinn uppgang ungs manns, ris hans og falls með gjaldþroti verksmiðju hans í Norður-Írlandi og vandræða fíkniefnamálum.

DeLorean var að hluta til bíll langt á undan sinni samtíð með notkun plastefna, en sú notkun er nú að ryðja sér til rúms í framleiðslu flugvéla og bíla.

En megin markaðshugmyndin og hönnunin voru ekki á því plani. Bíllinn kom fram á kolröngum tíma orkukreppu og vandræða í bílaframleiðslu. Það gilti svipað um DeLorean og Ford Edsel, "the aim was right but the target moved."

Það sem gerði bílinn magnaðan við að sjá hann með hönnuðinn standandi við hlið hans, var sú staðreynd að John var 1,93 á hæð, en bíllinn aðeins 1,14 en samt gat þessi risi auðveldlega sest niður í hann.    

DeLorean bíllinn var einn fárra bíla á þeim tíma, sem var 2 plús 2 sportbíll með vélina aftur í og stóð Porsche 911 langt að baki í aksturseiginleikum og getu.

Annar sportbíll, Renault Alpine, var af svipaðri gerð, en enda þótt sama vél og var í Alpine væri notuð í DeLorean var Alpine betur heppnaður sportbíll.

Renault gafst upp á að selja og þróa Alpine en Porsche 911 hefur haldið velli til þessa dags í krafti snilldarþróunar sem gerir hann að sportbíl í sérflokki.

Að hafa svona stóra vél vel fyrir aftan afturhjól á að vera vonlaust dæmi, hvað öryggi og aksturseiginleika snertir, en tæknimenn Porsche hefur samt tekist að leysa það verkefni nógu vel til þess að menn undrast yfir því.  

Helsti kostur 911 miðað við sportbíla af svipaðri stærð, er að það skuli vera hægt að troða tveimur persónum í aftursæti.

Helsta sérstaða DeLorean auk efnisnotkunar eru vængjahurðirnar. Án þeirra væri hann ekki sá safngripur sem hann er. En að öllu öðru leyti stendur hann bestu sportbílum nútímans langt að baki.


mbl.is Aftur til framtíðar: DeLorean snýr aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband