Beint lýðræði, þjóðareignin og sjálfbær þróun mikilvæg.

P. S. 

Það er óvenjulegt að byrjað sé á P.S. efst á blaði, en það er vegna þess að að eftir að ég skrifaði þennan pistil, hefur mér verið send aðeins ein grein í frumvarpi stjórnarskrárnefndar varðandi sjálfbæra þróun, þar sem búið er að ryðja því hugtaki út úr frumvarpi stjórnlagaráðs og setja inn loðinn, linan og máttlausan langlokutexta. Ég trúi varla mínum eigin augum, sjá athugasemdir nr. 2 og 3.

Þegar stjórnlagaráð starfaði var aflað sem flestra gagna um beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur í öðrum löndum. Meðal annars fóru tveir fulltrúar úr ráðinu, Salvör Nordal og Þorkell Helgason, í sérstaka kynnisferð til Sviss til að kynna sér framkvæmd þjóðartkvæðagreiðslna þar og áhrif þeirra á stjórnarfar í landinu.

Þorkell er einn helsti sérfræðingur okkar Íslendinga í kosningakerfum, og mjög dýrmmætt var að hafa hann og annan kunnáttumann, Pawel Bartotzek, í C-nefnd ráðsins, sem fjallaði um þetta efni og kosningalög almennt.

Athygli vakti í þessari könnun, að lög um þjóðaratkvæðagreiðslur erlendis hefðu yfirleitt reynst vel og ekki grafið undan stöðugleika í stjórnmálum.

Einnig það atriði, að prósentutalan um fjölda undirskrifta var bara eitt atriði af mörgum, sem skipta máli varðandi farsæla notkun þjóðaratkvæðagreiðslna.

Í Sviss eru afar strangar og nákvæmar reglur um alla umgerð og framkvæmd slíkra atkvæðagreiðslna sem meðal annars hafa haft þau áhrif, að nokkur misseri líða að meðaltali frá því að fyrst er farið að ræða um atkvæðagreiðslu þangað til hún er framkvæmd.

15% talan sýnist vera lág, en í ljósi af framansögðu er hún ekki of lág.

Vel þarf að fara ofan í saumana á komandi texta í tillögum stjórnlaganefndar um auðlinda- og umhverfismál.

Í starfi stjórnlagaráðs þurfti að hafa fyrir því að koma ákvæði um sjálfbæra nýtingu auðlinda inn, enda myndi vöntun á slíku ákvæði gefa áfram grænt ljós hvað stjórnarskrána snerti að rányrkja væri leyfileg, - en rányrkja er andstæða sjálfbærrar þróunar.

Rök okkar Ara Teitssonar varðandi tillögu um að hafa skyldu um sjálfbæra þróun í stjórnarskrá snerust að því að benda á hliðstæður í bestu og nýjustu stjórnarskrám nágrannalandanna og á það, að Íslendingar við undirrituðum Ríó-sáttmálann um sjálfbæra þróun árið 1992.


mbl.is Þjóðaratkvæði ef 15% vilja það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

" sérstaka kynnisferð til Sviss " vissu þau ekki um Internetið?

15% er að valda alskyns vandræðum í Sviss og verið er að undirbúa að hækka þröskuldin

Grímur (IP-tala skráð) 17.2.2016 kl. 19:34

2 identicon

15% er skýrt. En hvað eru auðlindir? Að því hefur verið spurt á Alþingi án þess að svör hafi fengist. Enda hugtakið eins og klám, loðið og teygjanlegt. Að ætla að setja eitthvað sem hægt er að túlka út og suður gerir ákvæðið allt að því merkingarlaust lýðskrum. Og " kveðið verði á um mik­il­vægi þess að gengið sé um nátt­úr­una á sjálf­bær­an hátt." vinsamleg tilmæli sem gera ekkert eða ákvæði sem kemur í veg fyrir allar framkvæmdir? Það verður forvitnilegt að sjá tillögurnar. Verða þær skraut eða verkfæri?

Hábeinn (IP-tala skráð) 17.2.2016 kl. 20:50

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála þér um það, Hábeinn, að til lítils börðumst við Ari Teitsson fyrir því að nefnt væri hugtakið "sjálfbær þróun" í nýrri stjórnarskrá og höfðum nauman sigur, ef nú á að ryðja því hugtaki burtu og koma með loðna og máttlausa langloku: "kveðið verði á um mikilvægi þess að gengið sé um náttúruna á sjálfbæran hátt" sem hægt er að fletja út og þynna.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs: "..nýta ber náttúruna með sjálfbæra þróun að leiðarljósi."  Að vísu hefðum við Ari viljað hafa þetta afdráttarlausara en "að leiðarljósi" en töldum höfuðatriði að sjálfbær þróun væri inni í textanum en ekki eitthvað loðið og máttlítið orðalag.

Það er vegna þess að hugtakið "sjálfbær þróun", (andstæða rányrkju), er þungamiðja Ríó sáttmálans, Brundtlandsskýrslunnar og allrar grunnhugsunar umhverfis- og nýtingarmála okkar tíma.

Andstaðan við "sjálfbæra þróun" virðist liggja í því að það geti verið ákvæði sem "kemur í veg fyrir allar framkvæmdir" eins og þú orðar það.

En það er alveg fráleit sýn. Ef hún væri rétt,væri rányrkja skilyrði fyrir öllum framkvæmdum.   

Ómar Ragnarsson, 17.2.2016 kl. 22:46

4 identicon

Þegar grafa á grunn fyrir blokk, er það sjálfbær þróun eða verður það glæpur gegn náttúrunni? Gat í gegnum fjall? Möl oní mýri og malbik yfir? Verður allt malarnám bannað? Verða hitaveitur flokkaðar sem sú rányrkja sem þær eru og stjórnarskrárbrot?

Sjálfbær þróun eða rányrkja, reglur sem miða við að aðeins sé til svart og hvítt gefa stórt grátt bil frjálst til túlkunar. Sjálfbær þróun er eins máttlaust hugtak og auðlind eða klám. Á hverjum tíma þarf einhver að ákveða hvað fellur undir hugtakið. Og stjórnarskrárákvæði sem hefur þá merkingu sem sá sem mótar skoðanir með bestu tökin á fjölmiðlum vill er lítils virði.

Hábeinn (IP-tala skráð) 18.2.2016 kl. 00:12

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt eftir haft úr tillögu stjórnlagaráðs: "Við nýtngu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi."

Ómar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 00:14

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Inni í sjálfbærri þróun felst innsti grunnur þess: Afturkræfni.

Allt sem þú nefnir í fyrstu setningu stenst kröfur um sjálfbæra þróun, til dæmis ef í framtíðinni geti komandi kynslóðir, ef þær vilja það, lokað gatinu í gegnum fjallið og fjarlægt mölina og malbikið sem sett var í vegarstæðið.

Hitaveitur geta vel verið sjálfbærar, samanber nýlega grein Ólafs Flóvenz forstjóra og sérfræðings um það mál í Morgunblaðinu, ef nógu hægt er farið í að dæla heita vatninu upp og leyfa heitu berginu að endurnýja heita vatnið.

Ef ágeng rányrkjudæling eins og er í Hellisheiðarvirkjun hefði ekki verið viðhöfð, heldur rólega fundið jafnvægi til frambúðar fyrir miklu minni virkjun, hefði sú virkjun getað orðið sjálfbær.

Nýting vatnsins í Soginu er dæmi um sjálfbæra þróun. Hægt væri að hætta við þessa orkunýtingu, leggja virkjanirnar niður, fjarlægja mannvirkin og koma ánni í upprunaleft horf ef sú staða kæmi upp í framtíðinni að menn vildu gera það þá.

Hins vegar verður 25 kílómetra, 180 metra djúpur og 57 ferkílómetra dalur, þar sem Hálslón, miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar, er nú, aldrei endurheimt, því að á endanum verður vatnsmiðlunin ónýt þegar dalurinn hefur fyllst upp af möl, sandi og leir, alls ca. 2000 milljón tonnum.  

Ég þekki malarnám í árfarvegum, þar sem aurflóð í þeim ám mun fylla námurnar ef malarnáminu er hætt, en Rauðhólarnir verða aldrei endurheimtir.  

Ómar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 00:29

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvar get ég fengið staðfestingu á því að setningin sem þú nefnir úr tillögu stjórnarskrárnefndar, sé rétt eftir höfð?

Það er óþægilegt að rökræða um hana meðan örugg staðfesting er ekki fyrir hendi þótt rökræðan sé út af fyrir sig áhugaverð.  

Ómar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 00:32

8 identicon

Tilvitnunin kemur úr fréttinni sem þú tengir pistilinn við.

Á því hvort mokað er oní grunn eða drullunni mokað úr Hálslóni er stigsmunur en ekki eðlismunur. Og á því hvort hita Hellisheiðarvirkjunar er dælt í litlu magni stöðugt eða stórum skömmtum með hléum á milli er enginn eðlismunur.

Satt er það að ekki gröfum við efnið úr Reykjavíkurflugvelli og límum Rauðhólana aftur saman. En þó hægt sé að fylla í göt í fjöllum og grunna húsa þá límum við ekki heldur saman bergið sem þar var mulið.

Er það sjálfbær þróun ef aðeins þarf 10 vörubílsfarma til að hylja sárið eða verður það rányrkja ef það þarf meira en 1000 farma? Er hægt að segja Kárahnjúkavirkjun sjálfbæra vegna þess að það þarf ekki nema 100 milljón bílfarma til að tæma drulluna úr Hálslóni og koma því í upprunalegt horf?

Þú kvartar sjálfur yfir því að margt það sem þú kallar rányrkju kalla aðrir sjálfbært. Það mun ekki breytast við það að setja hugtökin í stjórnarskrá.

Hábeinn (IP-tala skráð) 18.2.2016 kl. 02:12

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarmaðurinn Sigrún Magnúsdóttir er nú umhverfis- og auðlindaráðherra.

Og að sjálfsögðu er minnst á auðlindir í íslenskum lögum, til að mynda Lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, þar sem segir meðal annars í 1. gr. laganna:

"Lögin miða jafnframt að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda og annarra náttúrugæða."

Þorsteinn Briem, 18.2.2016 kl. 02:29

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Auðlindaréttur - Samheiti yfir þær fræðigreinar lögfræðinnar sem fjalla um réttindi og skyldur í tengslum við nýtingu auðlinda."

Lögfræðiorðabók með skýringum, Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.

Þorsteinn Briem, 18.2.2016 kl. 02:38

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Auðlind - 1 (alm.) Náttúruauðæfi, uppspretta auðs (sbr. auðlindir Íslendinga felast m.a. i nytjastofnum sjávar.)"

Lögfræðiorðabók með skýringum, Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.

Þorsteinn Briem, 18.2.2016 kl. 02:47

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frumvarp Stjórnlagaráðs:

34. gr. Náttúruauðlindir

"Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.


Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda.

Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra.

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum."

Þorsteinn Briem, 18.2.2016 kl. 03:09

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú hef ég skoðað textana í frétt mbl.is og frétt ruv og þeim ber ekki alveg saman. Auk þess er tilvitnun þín, Hábeinn, í frétt mbl.is ekki orðrétt.

Allt hefur þetta sitt að segja, því að vega þarf og meta hvert einasta orð og samhengi þess í textanum þegar til dæmis sett eru lög í samræmi við texta stjórnarskrár og dæma síðar um það fyrir hæstarétti hvort lög eða aðgerðir standist ákvæði stjórnarskrár.

Ómar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 05:44

14 identicon

Tilvitnun mín í frétt mbl.is er orðrétt copy/paste þó ég hafi sleppt fyrri hlutanum um greiðslu fyrir afnot. Og eins og ég sagði þá verður forvitnilegt að sjá tillögurnar þegar þær verða opinberaðar. Túlkanir og endursagnir fréttamanna á einhverju sem þeim er sagt á það til að skolast aðeins til.

Hábeinn (IP-tala skráð) 18.2.2016 kl. 11:52

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nógu vel þekki ég til rökræðnanna um þessar greinar til að þekkja sem gamla kunningja orðin "eðlilegt" og það að vilja losna við "nýtingu auðlinda" og "sjálfbæra þróun."

Í þetta hefur verið sótt stanslaust og því afar líklegt að blaðamenn fari rétt með þetta.

Ómar Ragnarsson, 18.2.2016 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband