Björgunarafrekið mikla og gleymd nöfn Guðbrands og Inga Björns.

Gott er að björgunarafrekinu mikla í Vöðlavík 1993 hafi verið gerð skil í heimildamynd, svo magnaður og merkilegur sem þessi atburður var, og er vert að þakka þeim sem gerðu þessa mynd á meðan nógu margir voru enn á lífi til frásagnar.

Aðeins eitt fannst mér vanta í þessa þörfu mynd, - að nefna nöfn tveggja manna sem lögðu á sig mikla fyrirhöfn til að berjast fyrir því að Landhelgisgæslan eignaðist fullkomna björgunarþyrlu.

Þessi nöfn eru Guðbrandur Guðbrandsson og Ingi Björn Albertsson.

Guðbrandur kynntist frönsku Super Puma þyrlunnum þegar hann var þyrluflugmaður erlendis fyrir rúmum þremur áratugum og rann svo til rifja að sjómannaþjóðin íslenska ætti ekki slíka þyrlu, að honum tókst að koma því til leiðar að ein slík kæmi til Íslands svo að ráðamenn hér kynntust henni af eigin raun.

Fréttaflutningur af þessu þarfa framtaki kom talsvert í minn hlut, en ég minnist þess enn vel hvað fordómarnir hér á landi voru miklir í garð þessarar hugmyndar Guðbrands.

Þetta var á þeim árum sem það var lenska hér á landi að telja Bandaríkjamenn fremsta allra þjóða á öllum sviðum flugsins. Að sjálfsögðu voru þeir það á flestum sviðum flugsins en ekki öllum. Maður heyrði ummæli eins og "franskt drasl" þegar rætt var um Super Puma þyrlur.

Á meðan þyrlan var hér á landi strandaði bátur utarlega undir Stigahlíð, sem er yst við Ísafjarðardjúp á milli Skálavíkur og Bolungarvíkur.

Stigahlíð og Deild eru þverbrött fjöll og óhægt um vik að bjarga skipverjum í land.

Þyrlan var hins vegar tiltæk og fór þangað til að bjarga skipbrotsmönnum.

Guðbrandur var langt á undan samtíð sinni í þessum málum, svipað og Sverrir Runólfsson varðandi aðferðina "blöndun á staðnum" sem hæðst var að og talin ótæk. Mörgum árum síðar kom síðan að því að ryðja bættri og skyldri aðferð braut við að leggja vegi hér á landi.

Halda hefði mátt að björgunin milli Skálavíkur og Bolungarvíkur undir snarbrattri hlíð opnaði augu margra en þvert á móti hafði hún ekkert að segja. Guðbrandur og þyrluflugmennirnir voru af sumum bara sagðir hafa verið heppnir að þetta skyldi gerast einmitt á meðan þyrlan var hér!

Þegar Ingi Björn Albertsson sat á Alþingi 1987-1995 var honum þetta mál afar hugleikið og lagði hann sig svo mjög fram við að berjast árum saman fyrir kaupum á Super Puma þyrlu, að haft væri á orði í niðrandi tóni að hann "væri með þetta á heilanum."

Á síðara kjörtímabilinu sem Ingi Björn sat, eða til 1995, var flokkur hans þá, Sjálfstæðisflokkurinn, með stjórnarforystu og var "röfl" Inga Björns ekkert vel séð á þessum árum efnahagslegs samdráttar hér á landi og erlendis.

Ekki vantaði heldur fordómana hjá sumum gagnvart honum, sem byggðust á því að hann og faðir hans væru ekki marktækir í þessu máli, af því að Super Puma væri frönsk, og að þeir hefðu um langa hríð haft viðskipasambönd við Frakkland og væru aðdáendur þeirrar þjóðar.

Í myndinni í kvöld kom fram að björgunarafrekið í Vöðlavík varð til þess að loksins var gerð gangskör að því að kaupa öfluga þyrlu, Aerospatiale Super Puma sem markaði byltingu í björgunarmálum á Íslandi.  

En það hefði vel mátt nefna nöfn þeirra tveggja manna sem tóku upphaflega þetta mál upp á sína arma og börðust gegn sinnuleysi og fordómum, Guðbrandur Guðbrandsson og Ingi Björn Albertsson.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær mynd, vel klippt og málefnaleg. Þyrlusveit varnarliðsins  var vanmetin, heldur betur, svona hjá almenningi sem ekki átti þeim líf að launa. 

Sesselja Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 00:44

2 identicon

Ég tengi björgunarþyrlur alltaf við áhöfnina á Eldhamri 1991. 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 08:52

3 identicon

Ég kom til Neskaupstaðar í janúar 1994, rétt eftir að afrekið var unnið. Þar stóðu harðsvíruðustu kommúnistar með stjörnur í augum yfir afrekinu og voru jafnvel sumir komnir á þá skoðun að ekki væru allir Bandaríkjamenn úrþvætti og svín.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 09:33

4 identicon

Áður en þú ferð að hlaða oflofi á Inga Björn Albertsson í þyrlukaupamálinu, þá er rétt að benda þér á að Heildverslun Alberts Guðmundssonar á Grundarstíg var alla tíð umboðsmaður Eurocopter, dótturfyrirtækis Aérospatiale, á Íslandi.

Semsagt bara ósköp venjuleg íslensk spilling.

Stjórnvöldum á íslandi var einnig margoft bent á að fyrir eina Super-Puma þyrlu mætti fá 3 eða 4 rússneskar MI-17 þyrlur. Algera vinnuhesta í hvaða veðráttu sem er, margfalt minni viðahaldskostnaður o.s.frv. líka. En þetta mátti að sjálfsögðu ekki nefna, af sömu ástæðu.

Almenningur borgar brúsann: hverjum stendur ekki á sama um það ?

BJ

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 10:16

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er rétt Ómar, það hefði mátt nefna nöfn þeirra Guðbrands og Inga Björns í þessari flottu heimildarmynd, rétt eins og fjölmargra annarra sem héldu uppi látlausum málflutningi fyrir kaupum á alvöru þyrlu. Þar er ekki síst þitt nafn meðal margra.

Hins vegar var þessi frábæra fræðslumynd um ákveðið björgunarafrek og víst er að það átti einnig stórann þátt í því að drifið var í þessum löngu tímabæru kaupum.

Um tegund og hvort einhver annarleg sjónarmið hafi legið að baki þeirri deilu ætla ég hins vegar ekki að tjá mig, þótti sú umræða öll á mjög lágu plani á sínum tíma og enn örlar á því, eins og sést í athugasemdum hér fyrir ofan.

Það mætti alveg gera aðra fræðslumynd um baráttuna fyrir þyrlukaupunum og þá á að sjálfsögðu að telja upp alla þá sem löguðu hönd á plóginn. Sjálsagt er til mikið efni um þá baráttu, enda ófá skiptin sem þú komst þesari þörf að í fréttum, á þeim tíma. Það er vel þess virði að gera slíka heimildamynd.

Gunnar Heiðarsson, 22.2.2016 kl. 11:44

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að í lok myndarinnar var getið um þau áhrif sem geta bandarísku þyrlnanna hafði á viðhorf manna til þyrlukosts Landhelgisgæslunnar, auk þess að vel kom fram gildi þess að staðkunnigir menn væru þar við stjórn.

Þessu kynntist ég 1973 þegar ég fór sem leiðsögumaður með Jolly Green Giant í leitarflug og komst þá að því að flugliðarnir voru aðeins 2-3 ár á Íslandi, þannig að sífelld mannaskipti voru á þyrlunum og þess vegna þurfti staðkunnugan mann í þessa leit.

Ef fullyrðingar Björns Jónssonar væru réttar, væri allt morandi af M-17 þyrlum hjá strandgæslu Evrópuríkja.

Ég skoðaði stóra og mikla nýja rússneska farþegaþotu á Parísar-flugsýningunni 1995 sem kosta átti margfalt minna en vestrænar þotur.

Hlustaði líka á fyrirlestur Íslendings hjá Cargolux sem boðið var upp á afar ódýrar og afkastamiklar nýjar Antonov- fragtflugvélar.

Ekki varð af þeim viðskiptum, mest vegna þess að ending og viðhald rússnesku vélanna þótti verða of dýrt, auk þess sem slíkur rekstur yrði ekki líklegur til að auka traust á Cargolux.

Ummæli hér að ofan eru á afar lágu plani, að ekki hefði mátt kaupa bestu björgunarþyrlu heims vegna þess hverjir hefðu umboð fyrir framleiðandann.

Ómar Ragnarsson, 22.2.2016 kl. 19:24

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að í lok myndarinnar var getið um þau áhrif sem geta bandarísku þyrlnanna hafði á viðhorf manna til þyrlukosts Landhelgisgæslunnar, auk þess að vel kom fram gildi þess að staðkunnugir menn væru þar við stjórn.

Þessu kynntist ég 1973 þegar ég fór sem leiðsögumaður með Jolly Green Giant í leitarflug og komst þá að því að flugliðarnir voru aðeins 2-3 ár á Íslandi, þannig að sífelld mannaskipti voru á þyrlunum og þess vegna þurfti staðkunnugan mann í þessa leit.

Ef fullyrðingar Björns Jónssonar væru réttar, væri allt morandi af M-17 þyrlum hjá strandgæslu Evrópuríkja.

Ég skoðaði stóra og mikla nýja rússneska farþegaþotu á Parísar-flugsýningunni 1995 sem kosta átti margfalt minna en vestrænar þotur.

Hlustaði líka á fyrirlestur Íslendings hjá Cargolux sem boðið var upp á afar ódýrar og afkastamiklar nýjar Antonov- fragtflugvélar.

Ekki varð af þeim viðskiptum, mest vegna þess að ending og viðhald rússnesku vélanna þótti verða of dýrt, auk þess sem slíkur rekstur yrði ekki líklegur til að auka traust á Cargolux.

Ummæli hér að ofan eru á afar lágu plani, að ekki hefði mátt kaupa bestu björgunarþyrlu heims vegna þess hverjir hefðu umboð fyrir framleiðandann.

Ómar Ragnarsson, 22.2.2016 kl. 19:29

8 identicon

Samviska landsins, Ómar Ragnarsson, kemur hér með splunkunýja kenningu sem vert er að menn taki vel eftir:

Ef málsstaðurinn á bak við spillinguna er góður, þá er bara ekkert við hana að athuga !

Þannig að þegar þingmannsblókin er að makka bak við tjöldin og pota fyrir sitt kjördæmi, sinn flokk eða sérhagsmuni, um leið og hann læðir dágóðri fúlgu í eigin vasa, þá er alveg óþarfi að engjast í einhverri sálarangist:

Þetta er hið besta mál og allt bara í himnalagi.

Frá hruni er nú almennt viðurkennt að í spillingarmálum stendur Ísland nágrannalöndunum síst að baki, skagar jafnvel sumstaðar uppúr og með siðferðispostula á borð við Ómar í baksætinu, þá þarf ekkert að óttast að landið taki að síga niður á lága planið í þeim efnum.

Í samband við flugmálin og aumt yfirklór Ómars í þeim efnum, þá er danska flugfélagið Greenland Express nú um það bil að festa kaup á 4 rússneskum farþegaþotum, af gerðinni Sukhoi SSJ-100 sem þeir hyggjast nota á leiðinni Kaupmannahöfn-Ísland-Grænland: tilvalið að fá sér bíltúr á smábíl suður á Keflavíkurflugvöll og dást að farkostinum þegar hann lendir þar í fyrsta sinn.

BJ

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 20:55

9 identicon

Björn Jónsson:

stundum betra að þegja og vera álitin heimskur en að tala og taka af allan vafa.

Skömm sé þér.

Trúi því ekki að það taki nokkur manneskja mark á þér.

Vel gert Ómar.

Ólafur Ingason (IP-tala skráð) 23.2.2016 kl. 07:36

10 identicon

Ingi Björn hefði náttúrulega getað komið fram fyrir hönd fyrirtækisins sem "gefandi" þyrlunnar.  Fyrirtækið hefði að sjálfsögðu haft afnotarétt af þyrlunni en þjóðin borið viðhaldskostnaðinn.  Þá hefði hann örugglega fengið klapp á bakið og þjóðin borið hann á gullstól út um borg og bý.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.2.2016 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband