"Að vera með númerið..."

Í hnefaleikum er stundum talað um bardaga, þar sem annar hnefaleikarinn "er með númer" hins.

"Hann er með númerið hans" er sagt.

Með þessu er átt við það fyrirbæri í íþróttum að sumir íþróttamenn eða heilt keppnislið hafi sérstakt tak á öðrum, svo að úrslitin verða oft önnur en ætla mætti fyrirfram.

Oft er aðlögunarhæfni og sveigjanleiki í stíl annars aðilans meiri en hins.

Um nokkurra ára skeið þegar KR var með afar sterkt knattspyrnulið, var talað um "Keflavíkurdrauginn" varðandi það að KR-ingar áttu í mesta basli með lið Keflvíkinga og töpuðu jafnvel leikjum við þá eða stigum ár eftir ár, þótt Vesturbæjarliðið væri efst í deildinni en Keflvíkingar neðarlega.

Íslenska landsliðið í handbolta glímdi árum saman við svonefnda "Svíagrýlu".

Margir telja Muhammmad Ali besta þungavigtarhnefaleikara allra tíma, enda gat hann státað sig af því að hafa á ferli sínum unnið alls fimm þungavigtarheimsmeistara  og tvo heimsmeistara í léttþungavigt.

Um tvo þungavigtarmeistarana, Sonny Liston og George Foreman, var sagt þegar þeir börðust við Ali í fyrsta sinn, að þeir væru gersamlega óvinnandi vígi fyrir hvern sem væri.

Í bæði skiptin töldu flestir, einkum boxsérfræðingar, að Ali ætti litla sem enga möguleika á móti þeim.

En það fór á aðra lund, Ali "hafðí númer" Listons og líka Foremans.

Foreman gjörsigraði bæði Ken Norton og Joe Frazier, en samt átti Ali í mesta basli með Norton í þremur bardögum þeirra, tapaði einum en vann hina tvo naumlega.

Og Ali þurfti að taka á öllu sem hann átti til þess að þriggja bardaga sería hans og Fraziers endaði 2:1 fyrir Ali.

Aðlögunarhæfni er eitt mikilvægasta atriðið í þeim íþróttum þar sem ekki er barist um sekúndur eða metra.

Joe Louis, Ali og Lennox Lewis höfðu þann eiginleika í ríkum mæli, því að þeir áttu það sameiginlegt að hafa barist aftur við þá fáu, sem þeir töpuðu fyrir á meðan þeir voru enn í fullu fjöri, og hefnt fyrir ófarirnar.

 

 


mbl.is „Getum ekki einu sinni unnið Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband