10.3.2016 | 15:47
Róa báðir á sömu mið.
Alþjóðavæðingin í iðnaði og verslun hefur valdið því að hægt er að framleiða hvers kyns vörur, tæki og tól, nánast hvar sem er á hnettinum.
Dæmi um þetta eru orðin óteljandi, til dæmis í bíla- og flugvélasmíði. General Motors framleiða bíla í alls 37 löndum víðs vegar um heim.
Þegar nýjar flugvélar eru kynntar kemur í ljós að hlutar þeirra eru framleiddir í mörgum löndum, og þótt þær séu kenndar við eitthvert sérstakt land eins og Þýskaland, Frakkland eða Japan geta þær allt eins verið framleiddar að mestu í allt öðru landi.
Konan mín ekur á Suzuki Alto, sem japanskur bíll að nafninu til en framleiddur í Indlandi fyrir Evrópumarkað. Hin indverska gerð er með hægri handar stýri, mjórri og styttri og er vinsælasti bíllinn á Indlandi undir merkinu Maruti.
Ég hjóla um á ítölsku reiðhjóli með hjálparrafmótor, sem framleitt er í Kína fyrir Bandaríkjamarkað. Meira að segja Harley-Davidson, amerískasta farartæki semm hugsast getur, er ekki lengur framleitt í Bandaríkjunum, að minnsta kosti ekki allar gerðirnar.
Ein af forsendunum fyrir lágu verði á þessum iðnaðarvarningi er að vinnuafl í þróunarlöndunum er margfalt ódýrara en á Vesturlöndum og í Japan.
En þessi verðhjöðnun og kaupmáttur sem ódýrir hlutir skapa, er ekki ókeypis, því að störfin í þróunarlöndunum verða til þess að samsvarandi störfum í velmegunarlöndunum fækkar og atvinnuleysi hlýst af.
Á þessi mið róa jafn ólíkir frambjóðendur og Sanders og Trump í forkosningunum í Bandaríkjunum, hvor í sínum flokki og hvor á sínum væng stjórnmálanna, og spila á ónægjuna meðal þeirra sem hafa séð á eftir störfum sínum til annarra landa.
Michigan er fornfrægt iðnaðarríki þar sem Detroit var lengi vel einhver mesta iðnaðarborg heims, meðal annars með þrjár langstærstu bílaverksmiðjur heims, sem framleiddu lengi vel fleiri bíla en alls staðar annars samanlagt í heiminum.
Tvær þessara verksmiðja, GM og Ford, framleiddu í hálfa öld 70-80% af bandarískum bílum.
GM og Ford eru að vísu enn með höfuðstöðvar í Detroit, (Dearborn er útborg) en framleiðslan sjálf er að mestu farin annað og borgin eitthvert versta dæmið um það hvernig hrun atvinnulífs getur leikið jafnvel glæsilegar borgir.
Í slíku umhverfi þrífst óánægja vel og þess vegna var sigur Sanders kannski ekki svo óvæntur í Michigan.
Nauðsynlegt eldsneyti fyrir Sanders | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ansi langt síðan breskur iðnaðarverkfræðingur sagði við mig að það yrði að verða lífskjarajöfnun í heiminum, það gengi ekki til lengdar að svona mikill munur væri á lífskjörum og launakjörum í hinum vestræna heimi og í öðrum heimshlutum. En hann bætti líka við, að lífskjörin yrðu fyrst og fremst jöfnuð ofan frá og niður. Lífskjaratryggingar eins og t.d. atvinnuleysisbætur myndu til dæmis lækka verulega á Vesturlöndum, ef þær féllu ekki algerlega niður. Eitt myndi hinsvegar ekki breytast, lífskjör hinna fáu sem hafa of mikið, myndu ekki rýrna, en það myndi fækka í hópnum.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 10.3.2016 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.